Fara í efni

Landamæra- og viðhorfskönnun meðal erlendra ferðamanna

Nánari upplýsingar
Titill Landamæra- og viðhorfskönnun meðal erlendra ferðamanna
Lýsing

Í jún 2017 hófst gagnasöfnun í nýrri viðhorfskönnun Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna. Könnunin er umfangsmikil og byggja spurningarnar að talsverðu leyti á spurningalistum frá fyrri viðhorfskönnunum sem gerðar hafa verið á vegum Ferðamálastofu, síðast sumarið 2016.

Með könnuninni verður til ítarlegri þekking á viðhorfi og atferli erlendra ferðamanna heldur en hingað til hefur legið fyrir. Þar skipta mestu reglulegri gagnasöfnun og örari birting á niðurstöðum sem ætlað er að skapa kjölfestu til framtíðar í þekkingu á þessari undirstöðuatvinnugrein. 

Stærsta breytingin frá fyrri könnunum er að með reglulegri gagnasöfnun og birtingu í Mælaborði ferðaþjónustunnar er nú hægt að brjóta niðurstöðurnar niður á mánuði og tímabil og fá þannig nákvæmari niðurstöður og áreiðanlegri tölfræði um atferli og viðhorf ferðamanna. Lykilatriði er að nú hafa skapast forsendur fyrir örari birtingu á niðurstöðum og þannig hægt að fylgjast betur með breytingum og þróun í atvinnugreininni.

Könnunin er tvískipt, þ.e. við brottför á Keflavíkurflugvelli er spurt nokkurra spurninga og þeir sem samþykkja frekari þátttöku fá síðan sendan hlekk í tölvupósti með spurningalista sem svarað er eftir heimkomu. Stefnt er á að mánaðarlega verði birtar niðurstöður helstu spurninga sem spurt er á flugvellinum en niðurstöður þessa hluta sem svarað er eftir að heim er komið muni birtast að lokinni hverri árstíð.

Könnunin er framkvæmd af danska fyrirtækinu Epinion, sem er alþjóðlegt fyrirtæki í gerð flugvallarkannana. Úrvinnsla gagna er í höndum Ferðamálastofu og Stjórnstöðvar ferðamála í samvinnu við ráðgjafafyrirtækið Deloitte.

Hagstofan kemur einnig að könnuninni og munu þær niðurstöður nýtast í útgáfum Hagstofunnar varðandi þjónustuviðskipti við útlönd, gistinætur, þjóðhagsreikninga og ferðaþjónustureikninga.

 

 

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Ferðavenjur
Útgáfuár 2018
Útgefandi Ferðamálastofa
Leitarorð landamærakönnun, ferðamálastofa, viðhorf, útgjöld, ferðamenn, ferðavenjur, ferðahegðun, fjöldi ferðamanna, tölfræði, talnaefni, talningar, hagstofan