Fara í efni

Erlendir ferðamenn á Íslandi maí-desember 2022

Nánari upplýsingar
Titill Erlendir ferðamenn á Íslandi maí-desember 2022
Lýsing

Niðurstöður liggja fyrir úr könnun Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna fyrir tímabilið maí til desember 2022. Í stuttri samantekt sem hér fylgir eru niðurstöður fyrir alla svarendur settar fram með myndrænum hætti og í töflum.*

Samsetning hópsins

Tæplega þriðjungur svarenda voru Bandaríkjamenn og um einn af hverjum tíu Bretar. Þar á eftir komu Þjóðverjar (8%) og Frakkar (8%). Meðalaldur svarenda var í kringum 40 ár og var kynjahlutfall tiltölulega jafnt. Ríflega helmingur var með tekjur yfir meðallagi, tæplega tveir af hverjum fimm með tekjur í meðallagi og um einn af hverjum tíu undir meðallagi. Langflestir voru í fríi eða ríflega níu af hverjum tíu svarendum. Fimmtungur svarenda hafði heimsótt Ísland áður.

 

Áhrifaþættir og ákvörðunarferlið

Spurt var um að hve miklu leyti einstaka þættir, tólf talsins, hefðu haft á ákvörðun ferðamanna að heimsækja Ísland. Náttúra landsins skoraði langhæst (97%) en þar á eftir kom náttúrutengd afþreying (86%), áhugi á norðurslóðum (82%) og umfjöllun í ýmsum miðlum (78%). Vinir og ættingjar (59%) og íslensk menning og Íslendingar almennt (55%) höfðu jafnframt mikil áhrif.

Tæplega fimmtungur ferðamanna fékk hugmyndina innan þriggja mánaða fyrir ferð, tæplega fimmtungur þremur til sex mánuðum fyrir ferð og fimmtungur sex til tólf mánuðum fyrir ferð. Ríflega tveir af hverjum fimm (44%) fengu hugmyndina fyrir meira en einu ári.

Tíminn frá bókun að ferð til Íslands var skemmri en einn mánuður hjá ríflega fimmtungi ferðamanna 2022. Um þriðjungur bókaði
ferðina einum til þremur mánuðum fyrir ferð og tæplega
helmingur með lengri fyrirvara.

Dvalarlengd og dreifing

Meðaldvalarlengd erlendra ferðamanna var 7,6 nætur. Ríflega þriðjungur (36%) gisti á bilinu eina til þrjár nætur, tæplega helmingur fjórar til átta og tæplega fimmtungur níu eða fleiri nætur.

Langflestir (91%) heimsóttu höfuðborgarsvæðið, um fjórir af hverjum fimm Suðurlandið, um tveir af hverjum þremur Reykjanesið, helmingur Vesturlandið, ríflega þriðjungur Norðurlandið, tæplega þriðjungur Austurlandið og um 13% Vestfirðina.

Dvalarlengd þeirra sem gistu á höfuðborgarsvæðinu var að jafnaði 3,3 nætur, á Suðurlandinu 3,2, á Norðurlandinu 2,5 og á Vestfjörðum 2,5 nætur. Dvalarlengd þeirra sem gistu í öðrum landshlutum var að jafnaði rétt innan við tvær nætur.

Ferðamáti og afþreying

Þegar spurt var um aðalferðamátann í Íslandsferðinni nefndu þrír af hverjum fimm bílaleigubil, um fimmtungur skipulagða rútuferð, um 3% almenningssamgöngur og um 14% annan samgöngumáta.

Þegar skoðað er hvaða afþreyingu ferðamenn voru að nýta kemur í ljós að 57% fóru í náttúrubað, 38% í spa eða dekurmeðferð, 33% á söfn, 31% í skoðunarferð með rútu, 25% í skipulagða göngu eða fjallaferð, 24% í sund, 23% í hvalaskoðun og 21% í jöklagöngu eða klifur.

Meðmælaskor (NPS)

NPS skorið fyrir Ísland sem áfangastaður fyrir ferðamenn mældist 82 árið 2022. Til samanburðar má nefna að NPS mældist 86 árið 2021, 80 árið 2019 og 70 árið 2018. Um er ræða mælikvarða sem segir til um mismun á hlutfalli þeirra sem eru tilbúnir að mæla með ferðamannlandi og hlutfalli þeirra sem eru líklegri að mæla gegn því. NPS getur verið á bilinu -100 til 100.

Álit á ýmsum þáttum

Ferðamenn gáfu álit sitt á nokkrum þáttum í tengslum við ferðamannastaði, vegakerfið, þjónustu og gæði í ferðaþjónustu almennt og frammistöðu í umhverfismálum með einkunnagjöf á bilinu 0-10.

Almennt ástand á vinsælum ferðamannastöðum og öryggismál þeim tengdum skoruðu hæst með 9,1 í meðaleinkunn. Um þrír af hverjum fjórum gátu öryggismálum hæstu einkunn (9-10) og um sjö af hverjum tíu almennu ástandi ferðamannastaða. Næsthæst skoraði frammistaða í umhverfismálum og á sviði sjálfbærni með 8,9 í meðaleinkunn en tveir af hverjum þremur gáfu hæstu einkunn (9-10).

Þjónusta og gestrisni almennt, gæði almennt í ferðaþjónustu og fjölbreytni í afþreyingu skoruðu álíka hátt með meðaleinkunn á bilinu 8,7-8,8. Um sex af hverjum tíu gáfu þessum þáttum hæstu einkunn (9-10), á bilinu 28-31% miðlungseinkunn (7-8) og innan við einn af hverjum tíu lægstu einkunn (0-6)

Þættir í tengslum við vegakerfið fengu á bilinu 8,4-8,5 í meðaleinkunn. Ríflega tveir af hverjum fimm gáfu ástandi vega og öryggi í tengslum við vegi og umferð miðlungseinkunn (7-8) eða lægstu einkunn (0-6) og um tveir af hverjum fimm gerðu það sama í tengslum við umferðamerki og yfirborðsmerkingar.

Lægst skoraði fjöldi ferðamanna á ferðamannsstöðum (7,8 í meðaleinkunn) en fjórðungur gaf þessum þætti lægstu einkunn (0-6) og þriðjungur miðlungseinkunn (7-8).

Væntingar og endurkoma

Íslandsferðin fór fram úr væntingum nærri sjö ferðamanna af hverjum tíu. Hjá þremur af hverjum fimm stóðst ferðin væntingar og einungis 2% voru á því að ferðin hefði ekki staðist væntingar. Þegar svarendur voru inntir eftir því hvort ferðin hefði verið peninganna virði, var tæplega helmingur á því að ferðin hefði verið mikils virði, um tveir af hverjum fimm að hún hefði hvorki verið mikils né lítils virðis og um 12% að hún hefði verið lítils virðis.

Tæplega helmingur svarenda taldi mjög líklegt að þeir kæmu aftur og um 30% frekar líklegt. Um tveir af hverjum fimm hafa áhuga á að koma að sumri, um fimmtungur að vetri og tæplega fjórðungur að vori eða hausti. Í næstu ferð vill tæplega þriðjungur ferðamanna heimsækja Vestfirði og Norðurland, tæplega fjórðungur Suðurland, ríflega fimmtungur Austurland, tæplega fimmtungur Vesturland og höfuðborgarsvæðið Um 13% vilja heimsækja Reykjanesið.

Um könnunina

Könnun Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna er framkvæmd á Keflavíkurflugvelli við brottför. Markmiðið með könnuninni er að afla tölfræðilegra upplýsinga til að geta gefið skýra mynd af atferli og viðhorfum ferðamanna á Íslandi. Gögnin eru vigtuð með tilliti til þjóðerna og er tekið mið af brottfarartalningum Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli. Niðurstöðurnar sem eru birtar hér byggja á átta þúsund svörum frá ferðamönnum sem ferðuðust til Íslands á tímabilinu maí – desember 2022.

Gert er ráð fyrir að birta héðan í frá stuttar samantektir með sambærilegum hætti í hverjum mánuði með heildarniðurstöðum fyrir hvern mánuð. Ítarlegri niðurstöður eftir bakgrunnsbreytum könnunarinnar munu liggja fyrir síðar.

Opna samantekt

Hér má nálgast enska útgáfu af samantektinni

Höfundar
Nafn Oddný Þóra Óladóttir
Flokkun
Flokkur Ferðavenjur
Útgáfuár 2023
Útgefandi Ferðamálastofa
ISBN 978-9935-522-27-6
Leitarorð landamærakönnun, ferðamálastofa, viðhorf, útgjöld, ferðamenn, ferðavenjur, ferðahegðun, fjöldi ferðamanna, tölfræði, talnaefni, talningar, heilsárskönnun