Fara í efni

Mikið metár skemmtiferðaskipa framundan

Í ár má gera ráð fyrir um um helmingi fleiri komum skemmtiferðaskipa í íslenskar hafnir en í fyrra og að farþegum fjölgi um allt að 80%. Því er ekki ofmælt að stefni í afgerandi metár í þessari grein ferðaþjónustu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri greiningu Ferðamálastofu á væntanlegu umfangi í komum skemmtiferðaskipa.

Upplýsinga var aflað hjá sex þeirra hafna sem eru stærstar í komum skemmtiferðaskipa en þær tóku á móti um um 92% heildarfjölda farþega slíkra skipa síðasta árið fyrir Covid, þ.e. 2019.

Sé litið nokkur ár aftur í tímann, eða til ársins 2017, má glögglega sjá hversu mikill vöxturinn hefur verið. Þannig gerir áætlun yfirstandandi árs ráð fyrir 115% fjölgun skráðra farþega og 103% fleiri skipakomum en árið 2017. Meðalstærð skemmtiferðaskipa sem hingað koma hefur einnig verið að aukast.

Samtals gera hafnirnar 6 sem um ræðir ráð fyrir beinum tekjum upp á 2,7 milljarða á árinu. Áætlaður tekjuvöxtur milli áranna 2022 og 2023 er 64% . Engar óbeinar tekjur eða tekjur annarra aðila innanlands eru inni í þessum tölum, s.s. tekjur veitingastaða, ferðaþjónustufyrirtækja ofl.

Greininguna í heild má nálgast sérstakri síðu.

Skemmtiferðaskip 2023