Hættuatvik og slys í íslenskri náttúru
3. júlí 2025:
Ferðamálastofa birtir nú í fyrsta sinn í Mælaborði ferðaþjónustunnar samantekt á hættuatvikum og slysum sem tengjast ferðafólki og útivistarfólki í íslenskri náttúru.
Nær yfir 839 atvik á síðustu 25 árum
Samantektin var unnin af Ferðamálastofu og byggir á atvikum sem fundust með leit í Google og á völdum vefmiðlum. Markmiðið er að varpa ljósi á þær hættur sem geta fylgt ferðum um íslenska náttúru og stuðla að betri yfirsýn yfir hættuatvik og slys. Greiningin einskorðaðist að mestu leyti við atvik þar sem björgunaraðilar komu að málum og náði yfir tímabilið 2000-2025. Alls voru 839 atvik tekin til skoðunar.
Eins og staðan er í dag vantar miðlæga og samræmda skráningu á slíkum atvikum hér á landi. Ferðamálastofa er að vinna að því að koma á miðlægu atvikaskráningarkerfi fyrir ferðaþjónustuna sem gerir það að verkum að í framtíðinni verði hægt að birta mun nákvæmari upplýsingar.