Fara í efni

Málþing um umhverfismál - 2002

Málþing um umhverfismál, haldið í Stykkishólmi 18. október 2002

 
Dagskrá
kl. 10:00 Ávarp: Hr. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra.
kl. 10:10 Umhverfisvottun áfangastaða - í hverju felst hún?
  Mr. Reg Easy, framkvæmdastjóri vottunarsviðs Green Globe 21 sem vottar umhverfisvæna ferðaþjónustu, fyrirtæki og áfangastaði um allan heim.
kl. 11:00 Sjálfbær þróun í ferðaþjónustu
  Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur og verkefnisstjóri Staðardagskrár 21 á Íslandi.
kl. 11:15 Vottunarferli Green Globe 21 á Íslandi
  Skúli Skúlason, rekstor Hólaskóla.
kl. 11:30 Meðvituð samvinna skilar árangri
  Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar.

Hr. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra.
Fundarstjóri, Mr. Reg Easy from Green Globe, aðrir fyrirlesarar, góðir fundarmenn!

Á ráðstefnunni í gær kom fram í ræðu minni að náttúran sé mikilvægasta auðlind íslenskrar ferðaþjónustu og að stefnt sé að því að menningin verði hin meginstoð þessarar mikilvægu atvinnugrein. Hvar sem ferðaþjónusta er til umræðu í heiminum í dag eru umhverfismál og sjálfbær þróun áberandi og verður að segjast að mikils er vænst af Íslendingum í því sambandi. Það var því með mikilli ánægju sem ég tók undir hugmyndir góðra manna um nauðyn þess að þetta málþing yrði haldið hér í dag í tengslum við ferðamálaráðstefnuna.

Ég fagna því sérstaklega að hingað sé kominn Reg Easy framkvæmdastjóri vottunarsviðs Green Globe 21, sem vottar umhverfisvæna ferðaþjónustu, fyrirtæki og áfangastaði, um allan heim. Einnig býð ég aðra fyrirlesara innilega velkomna til þessa málþings.

Ferðaþjónusta bænda hyggst taka upp Green Globe vottunarkerfið á meðal sinna félagsmanna og hljóta það að teljast mikil tíðindi að samtök rúmlega hundrað ferðaþjónustufyrirtækja skuli þar með hafa ákveðið eitt vottunarkerfi fram yfir önnur úr því mikla framboði sem er af slíkur kerfum í heiminum í dag. Þegar önnur umhverfisvottun verður skoðuð verður vissulega horft til þess hvernig til tekst hjá Ferðaþjónustu bænda enda er um merkilegt brautryðjendastarf að ræða.

Ef vel tekst til hefur verið brotið blað í vottunarmálum ferðaþjónustunnar en Hólaskóli mun sjá um úttekt á stöðunum og vera þannig tengiliður fyrirtækjanna og vottunaraðilans. Samgönguráðuneytið mun styrkja Hólaskóla til að taka að sér þetta verkefni og fylgjast vel með framvindu mála. Hérna er hugsanlega á ferðinni tækifæri fyrir landið að skapa sér enn skýrari sess sem land með skýra og metnaðarfulla umhverfisstefnu. Þegar hafa nokkur fyrirtæki fengið umhverfisvottun og mun verða horft mjög til þess sem þau hafa gert er önnur fylgja í kjölfarið.

Í ljósi þeirra umræðna sem urðu í gær um sérstöðu landssvæða tel ég að ekkert landssvæði geti skorast undan því að taka vel á í umhverfismálum. Við megum ekki láta koma holan hljóm í þá miklu ímyndarvinnu sem unnin hefur verið um árabil með höfuðáherslu á hreina og óspillta náttúru. Við fáum, og viljum fá, hingað til lands vel menntaða og kröfuharða ferðamenn. Þeir koma gjarnan frá löndum þar sem jákvæð umhverfishegðun er talin sjálfsögð og orðið umhverfissóði þykir neikvæðasti skammaryrði sem hægt er að fá á sig. Þessir ferðamenn eru því fljótir að koma auga á það sem aflaga fer og ef þeir fara óánægðir af landinu þá missum við mikilvægan hlekk í kynningu á landinu. - Umhverfisvottun er því af hinu góða. Ferðaþjónustuaðilar taka þá til í sínum ranni, spara fjármuni með skynsamlegri umgengni við orkulindir og bjóða ferðamönnum upp á gegnheila vöru. Vonandi eigum við fljótlega eftir að sjá heilu landshlutana fá það vottaða að þar ríki ábyrg og metnaðarfull umhverfisstefna. Þannig hefur ferðaþjónustan lagt sitt að mörkum til að staðfesta megi alþjóðlegar samþykktir um umhverfismál og sjálfbæra þróun.

Ég færi Ferðamálaráði mína bestu þakkir fyrir að hafa staðið að undirbúningi þessa málþings og óska ykkur, góðir gestir, fróðlegrar og ánægjulegrar morgunstundar.

Reg Easy
Glærur frá fyrirlestri Pdf.-(1,63 Mb.)

Stefán Gíslason
Glærur frá fyrirlestri Pdf.-(337 Kb.)

Skúli Skúlason
Glærur frá fyrirlestri Pdf.-(112 Kb.)

Kristinn Jónasson
Glærur frá fyrirlestri Pdf. (231 kb.)

Ráðherra, fundarstjóri, ágætu fundarmenn....
2 - SAMVINNUVERKEFNI
Ég hef tekið að mér að fjalla lítillega um mikilvægi meðvitaðrar samvinnu og vil byrja á að vísa til nokkurra samvinnuverkefna sem snert hafa Snæfellsbæ á einn eða annan hátt. Lífvænleg bæjarfélög um allt land eru byggð upp á samvinnu þeirra einstaklinga sem þar búa og þeim hvata sem þeir hafa til að gera betur fyrir sitt bæjarfélag eða sitt svæði innan hvers bæjarfélags. Nauðsyn er á slíkri samvinnu einkum og sér í lagi hjá þeim sem búa á landsbyggðarinni þar sem kjarnar eru minni og dæmin sem ég nefni hér á eftir sýna að hún skilar góðum árangri

3 - SAMVINNUVERKEFNI SNÆFELLSBÆJAR
Eins og mörgum er kunnugt er Staðardagskrá 21 og hugmyndafræði hennar grunnur að sjálfbærri þróun í umhverfisvænni ferðaþjónustu. Snæfellsbær var í fyrsta hópi þeirra bæjarfélaga sem hófu vinnu að Staðardagskrá 21 fyrir tæpum fjórum árum síðan. Við undirbúning á því verkefni var stofnað fulltrúaráð sem í áttu sæti aðilar úr ýmsum starfsstéttum bæjarfélagsins og það var því breiður hópur íbúanna sem vann að úttekt á stöðu mála, markmiðum og áætlanagerð fyrir Staðardagskrá 21

4 - STAÐARDAGSKRÁ 21 Í SNÆFELLSBÆ
Sú samvinna skilaði góðum árangri undir styrkri stjórn Guðlaugs Bergmann verkefnisstjóra. Snæfellsbær hlaut viðurkenningu umhverfisráðuneytisins fyrir frammistöðu sína í verkefninu, enda var bæjarstjórn þess sú eina á landinu í yfir níu mánuði sem samþykkt hafði markmið og framkvæmdaáætlun Staðardagskrár 21. Samvinnan náði ekki bara til íbúanna því innan bæjarstjórnar sýndu bæði meirihluti og minnihluti stjórnar algjöra samstöðu í málinu.

5 - SAMVINNA VIÐ IÐNTÆKNISTOFNUN
Vegna árangurs Snæfellsbæjar í vinnu að Staðardagskrá 21 leitaði Iðntæknistofnun til bæjarfélagsins sem samstarfsaðila í samnorrænu rannsóknarverkefni sem beindist að ferðaþjónustu á norðurslóð. Aðrir aðilar að þessu 2ja ára verkefni voru í Grænlandi og á Svalbarða. Verkefninu er nýlokið og hefur það styrkt samstarf milli ferðaþjónustuaðila og annarra þjónustuaðila í Snæfellsbæ sem meðal annars hafa sótt saman tvö námskeið um þjónustu, hefðir og sögu í matargerð, mótun umhverfisstefnu o.fl.

6 - NIÐURSTÖÐUR RANNSÓKNANNA
Hluti af rannsóknarvinnunni var unnin í gegnum kannanir og í niðurstöðum þeirra sem lagðar voru fyrir ferðamenn sumarið 2001 og 2002 kemur meðal annars fram: Almenn ánægja með ástand umhverfis í Snæfellsbæ.
Að náttúran er aðalaðdráttarafl ferðamannsins
Að menning og saga dregur líka ferðamenn að svæðinu
Að Jökullinn, dulmagn hans og ferðir á hann hefur mikið aðdráttarafl
Að margir vilja kynnast lífi í sjávarplássum o.m.fl.
Og að hvalaskoðun er eftirsótt

7 - SAMVINNA FERÐAÞJÓNUSTUAÐILA
Segja má að fyrsti vísir að ferðaþjónustuklasa í sunnanverðum Snæfellsbæ hafi myndast árið 2001. Þá tóku átta ferðaþjónustuaðilar sig saman og gáfu út kort af svæðinu og upplýsingar um helstu ferðamannastaði sem þeir voru alltaf að vísa gestum sínum á. Verkefnið skilaði góðum árangri, ferðamenn voru ánægðir með framtakið og þá þjónustu sem það veitti þeim og kortið gaf meiri heildarmynd af svæðinu.

8 - SAMVINNA ...
Samvinna þessara ferðaþjónustuaðila er gott dæmi um það hvernig samkeppnisaðilar geta hagnast á samvinnu og kannski ekki síst gott dæmi um það hvernig ferðamaðurinn hagnast á samvinnu ferðaþjónustuaðila á svæðinu sem hann heimsækir. Samvinna þessara átta ferðaþjónustuaðila hefur orðið hvati að umræðu um nánara samstarf meðal ferðaþjónustuaðila og annarra þjónustuaðila innan bæjarfélagsins

9 - FERÐAÞJÓNUSTUBÆNDUR
Í mars sl var aðalfundur Ferðaþjónustu bænda haldinn á Arnarstapa. Fundurinn samþykkti að innan tveggja ára myndu allir aðilar innan Ferðaþjónustu bænda vera búnir að taka upp umhverfisstefnu. Þar sem Snæfellsbær hefur lagt sig fram við umhverfismálin erum við stolt fyrir því að slík ákvörðun skyldi vera tekin á fundi í okkar bæjarfélagi og teljum hana vera merki um mikla samvinnu meðal ferðaþjónustubænda og skilning þeirra á að vernda þá auðlind sem þeir eru að selja aðgang að.

10 - ÞJÓÐGARÐURINN SNÆFELLSJÖKULL
Við undirbúning og stofnun Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls reyndi mikið á samvinnu milli heimamanna og Náttúruverndar ríkisins þar sem mörg mál þurfti að leysa. Sú samvinna skilaði góðum árangri og fyrsta starfssumar þjóðgarðsvarðar sýnir að áframhald er þar á.

11 - NÝTT SAMVINNUVERKEFNI
Atvinnulíf á landsbyggðinni er í örri þróun og nú eru í gangi umræður um nýtt og stærra samvinnuverkefni en áður hefur verið lagt út í. Bæjarfélögin þrjú á Snæfellsnesi - Snæfellsbær, Grundarfjörður og Stykkishólmur hafa hafið umræður um að gera Snæfellsnes að einu ferðamannasvæði.

12 - NÝR KLASI Í FERÐAÞJÓNUSTU
Í hugum margra er Snæfellsnes nú þegar eitt ferðamannasvæði - en hugmyndin er að taka málið einu skrefi lengra og vinna að því að gera Nesið að fyrsta staðnum á landinu þar sem unnið er að sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu og að uppbyggingu á umhverfisvænu ferðamannasvæði. Jafnframt stefnum við að því að leita eftir vottun á svæðinu frá GREEN GLOBE 21 - því við teljum að átak okkar verði ekki sannfærandi gagnvart umheiminum nema það sé vottað af þriðja aðila. Þetta er hugsanlega stærsta samstarfsverkefni í sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu sem farið hefur verið út í hér á landi og við teljum það mögulegt verkefni á ýmsum ástæðum

13 - MÖGULEGT VERKEFNI
Ég vil nefna nokkrar ástæður fyrir því að við í bæjarstjórnum viðkomandi bæjarfélaga teljum þetta mögulegt verkefni.
Snæfellsnes er nokkuð landfræðilega afmarkað
Innan Snæfellsness eru bæjarfélög sem hafa sýnt að þau geta unnið saman
Um Snæfellsnes liggur hringvegur
Tengivegir liggja yfir fjallgarðinn á nokkrum stöðum

14 - MÖGULEGT...
Meginatvinnuvegir allra þriggja bæjarfélaganna eru nokkuð einsleitir
Nú þegar er rekin umfangsmikil ferðaþjónusta í öllum bæjarfélögunum
Snæfellsnes er áfangastaður sem fer hratt upp vinsældalista ferðamanna
Yst á Snæfellsnesi er þjóðgarður

15 - MÖGULEGT ...
Öll bæjarfélögin á Snæfellsnesi eru virk í vinnu að Staðardagskrá 21 en vottunarstefna GREEN GLOBE 21 byggir á henni. Margir ferðaþjónustuaðilar á Snæfellsnesi eru innan vébanda Ferðaþjónustu bænda sem vinnur að því að taka upp umhverfisstefnu á næstu tveimur árum. Og við í Snæfellsbæ erum auk þess svo lánsöm að fyrstu tvö ferðaþjónustufyrirtækin á landinu sem hlutu fulla vottun GREEN GLOBE 21, þ.e. Gistiheimilið Brekkubær og Ferðaþjónusta Leiðarljóss, eru í okkar bæjarfélagi

16 - MÖGULEGT ...
Þegar liggja fyrir ýmsar upplýsingar úr rannsóknarsamstarfi Snæfellsbæjar og Iðntæknistofnunar sem ættu að nýtast við skipulagningu á þessu verkefni. Þjóðgarðsvörður hefur látið fara fram talningu á fjölda ferðamanna í Djúpalóni í sumar. Að vísu liggja þær tölur ekki fyrir ennþá - en niðurstaða talningarinnar ætti að gefa mikilvægar vísbendingar um þann fjölda ferðamanna sem um Snæfellsnes fer, því flestir stoppa þeir í Djúpalóni.

17 - MÖGULEGT ...
Ferðamálaráð býr yfir óbirtum upplýsingum um þolmörk á Snæfellsnesi sem myndu nýtast við undirbúning á þessu verkefni.

18 - SAMVINNA MARGRA
Málið hefur verið rætt við Samgönguráðuneytið, sem væntanlega kæmi að því sem ráðuneyti ferðamála í landinu ásamt Ferðamálaráði Íslands og við Umhverfisráðuneytið sem hefur umsjón með þjóðgarðinum Snæfellsjökli og umhverfismálum almennt. Bæði ráðuneytin hafa sýnt málinu jákvæðan áhuga. Grunnskýrsla um þá verkþætti sem úttekt, markmið og framkvæmdaáætlun þurfa að ná til liggur fyrir frá GREEN GLOBE 21 því auk þess að veita umhverfisvottun veita þeir líka samstarfs-aðilum sínum ráðgjöf og leiðbeiningar til að vottun megi ná.

19 - SAMVINNA ...
Að verkefninu munu koma bæði innlendir og erlendir aðilar sem þurfa að eiga góða samvinnu. Meginþunginn mun þó hvíla á heimamönnum í hverju bæjarfélagi fyrir sig - því mikilvægt er að þar ríki góð samvinna allra við mótun á heildarstefnu um sjálfbæra þróun í ferðaþjónustu fyrir Snæfellsnes.

20 - MIKILVÆGIR ÞÆTTIR
Bæjarfélögin á Snæfellsnesi telja þetta ekki bara mikilvægt skref í sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu, heldur einnig mikilvægt skref í atvinnuþróun svæðisins. Með heildarmarkmiði fyrir allt Snæfellsnes er ljóst að hugað verður að verndun náttúru, menningar og sögu svæðisins - en jafnframt er hægt að nýta sér þá þekkingu sem til verður á okkar svæði til að vinna að mótun og uppbyggingu sjálfbærrar þróunar í ferðaþjónustu og heildarmarkmiðum fyrir önnur svæði á landinu. Vegna þeirrar reynslu sem við höfum af samvinnuverkefnum í Snæfellsbæ tel ég að meðvituð samvinna skipti máli og sé mikilvæg til árangurs á öllum sviðum

Takk fyrir.