Fara í efni

Þingmannaleið Gönguleið

Þetta er 3-4 tíma tiltölulega létt ganga. Þingmannaleið var forn leið milli Fnjóskadals og Eyjafjarðar, frá Ljósavatnsskarði yfir Fnjóská og áfram yfir Vaðlaheiði til Eyjafjarðar, þar sem haldið var Vaðlaþing. Á leiðinni má meðal annars sjá merkilega steinbrú sem hlaðin var 1871. Af heiðinni er mikið útsýni um Eyjafjörð og Fnjóskadal.

Nánari upplýsingar

Landshluti
Norðurland, Þingeyjarsveit
Upphafspunktur
Tjaldsvæðið Systragil er við veg 833, tvo km frá þjóðvegi eitt.
Erfiðleikastig
Þrep 2 - Miðlungs leið
1 2 3 4
Merkingar
  • Stikuð - merkt leið með stiku, staur eða stöng með reglulegu millibili
  • Vörðuð leið með hlöðnum steinum
  • Skilti við upphaf leiðar
Tímalengd
3 - 4 klukkustundir
Yfirborð
Blandað yfirborð
Hindranir
  • Þrep - Trappa, stallur, stig eða lágur hjalli sem þarf að stíga upp á
  • Brú - mannvirki sem ber stíg/slóða/veg yfir vatnsfall, sund, gil eða aðra hindrun
  • Vað - Óbrúaður lækur, eyrar eða mýrar
Hættur
Hálka - Hál og sleip leið
Þjónusta á leiðinni
  • Tjaldsvæði
  • Trúss - Þjónustu til að flytja ferðabúnað gegn greiðslu
Við Systragil er tjaldsvæði með tilheyrandi þjónustu.
Lýsing
Óupplýst leið
Tímabil
Opið alla árstíma
Þingmannaleið (áður Þingmannavegur) var alfaraleið milli Fnjóskadals og Eyjafjarðar. Hægt er að velja hvort byrjað eða endað er í Eyjafirðinum eða Fnjóskadal. Í Eyjafirði byrjar eða endar gangan við Veigastaðaveg við bæinn Eyrarland gegnt Akureyri. Í Fnjóskadal byrjar eða endar gangan við Systragil, stutt frá bænum Hróarsstöðum

Hin forna Þingmannaleið liggur frá bænum Hróarsstöðum í Fnjóskadal yfir Bæjargil og upp með Systragili. Héðan liggur leiðin meðfram læknum og upp með Bæjargili að norðan. Fylgt er stikum inn á hina fornu Þingmannaleið rétt áður en farið er yfir Bæjargil. Gengið er í um 2 km þar til komið er að girðingu, en farið er yfir hana á tröppum (prílu). Þá er haldið í suður yfir Systralæk og upp með Systragili að sunnanverðu. Leiðin er stikuð þar til marka fer fyrir vegarruðningi og greinilegri vörðum. Þingmannaleið hefur verið þétt vörðuð svo að víðast hafa verið um 70 - 80 metrar á milli varða. Áfram er gengið upp með Systragili að sunnanverðu eftir vegslóða. Skömmu eftir að efri heiðarbrún (stalli) er náð liggur leiðin fyrst til suðvesturs og síðan í vestur eftir Systragilshrygg. Á þessari leið má sjá merkilega grjóthleðslu frá árinu 1871, vel og haganlega hlaðin, um 20 metrar að lengd og 3,25 metrar að breidd. Brúin var mikil samgöngubót en á þessum árum var Þingmannavegur aðal samgöngu- og póstleiðin á milli Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslu. Áfram er gengið í vestur eftir varðaðri og upphlaðinni leið, um 500 metra kafla með yfirbyggðu ræsi. Þá er haldið í suðvestur þar til komið er á melás, svokallaðan Járnhrygg (680 m) en þá er háheiðinni náð. Hér opnast mikil fjallasýn til suðvesturs og vesturs. Nokkru síðar liggur leiðin í norður og síðan niður hlíðina Eyjafjarðarmegin. Þá er komið að girðingu en farið er yfir hana á tröppum (prílu) og þaðan er fylgt slóða á norðurbarmi Litlagils niður að bænum Eyrarlandi.