Hvanndalir úr Ólafsfirði (Langaleið) Gönguleið
Hvanndalir eru eyðibýli yst á Tröllaskaga austanverðum, á nesinu milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar. Þar var talið afskekktasta byggt ból á Íslandi, umgirt háum og bröttum fjöllum.
Nánari upplýsingar
Landshluti
Norðurland, Fjallabyggð
Upphafspunktur
Kleifar, Ólafsfjörður
Merkingar
Stikuð - merkt leið með stiku, staur eða stöng með reglulegu millibili
Tímalengd
6 - 10 klukkustundir
Yfirborð
- Blandað yfirborð
- Stórgrýtt
Hindranir
- Vað - Óbrúaður lækur, eyrar eða mýrar
- Brú - mannvirki sem ber stíg/slóða/veg yfir vatnsfall, sund, gil eða aðra hindrun
Hættur
Berghrun - Grjót getur fallið úr klettum, skriðum og fjallshlíðum
Þjónusta á leiðinni
Engin þjónusta
Lýsing
Óupplýst leið
Tímabil
Aðeins fært á sumrin
Gengið er frá Kleifum við Ólafsfjörð, og farið eftir sjávarbökkum og kindaslóðum í hlíðum Arnfinnsfjalls. Eftir rúmlega klukkutíma göngu er komið í mynni Fossdals, þar er viti á Sauðhólsmel.
Fossdalur er lítill dalur umlukinn háum hamrabeltum á þrjá vegu og gnæfir Hvanndalsbjarg þar yfir. Eftir dalnum rennur á og steypist fram af bjargbrúninni í sjó fram og ber dalurinn nafn af þessum fossi. Göngubrú er á ánni enda er hún oft vatnsmikil vegna snjóþunga sem er í dalnum á vetrum.
Dalurinn er hömrum girtur og mætti halda að hann sé ógengur en svo er ekki því ganga má til Hvanndala og er um tvær leiðir að ræða. Önnur kölluð Stuttleið og er þá gengið á brúnum Hvanndalabjargs en Langaleið er farin um Vestaravik inn um dalbotn. Báðar leiðir eru erfiðar og geta verið varasamar, þó einkum Stuttleið sem er beinlínis hættuleg ef ekki er farið með gát.
Langaleið liggur sem fyrr segir inn í botn Fossdals og þaðan er gengið upp hlíðina að skarði ofan í Austaravik og þaðan liggur leiðin í Hvanndali. Í Hvanndölum er staður sem heitir Ódáinsakur. Þar voru talin vaxa lífgrös og sá sem þeirra neytti gat ekki dáið.
Vegalengdin frá Kleifum og niður að Ódáinsökrum er um 11 km. Sama leið gengin til baka, en einnig er hægt að ganga frá Hvanndölum og yfir í Héðinsfjörð. Algengt að gist sé í Hvanndölum enda allt fremur seinfarnar leiðir.