Fara í efni

Bæjarfjall Gönguleið

Ekið að Dalvíkurkirkju þar sem gangan hefst. Genginn er malarvegur sem liggur til fjalls, upp með fallegu gljúfri og áfram í mynni Tungudals. Síðan er gengið upp á fjallið að vörðu sem þar stendur. Þarna er frábært útsýni yfir Dalvík, inn Svarfaðardal og Skíðadal, út yfir Hrísey og allt til Grímseyjar. Stutt ganga sem er brött á köflum. Sama leið gengin til baka.

Nánari upplýsingar

Landshluti
Norðurland, Dalvíkurbyggð
Upphafspunktur
Lagt er af stað frá Dalvíkurkirkju (N65.58.427 W18.32.377)
Erfiðleikastig
Þrep 2 - Miðlungs leið
1 2 3 4
Merkingar
  • Stikuð - merkt leið með stiku, staur eða stöng með reglulegu millibili
  • Skilti við upphaf leiðar
  • Skiltuð án annarra merkinga - merkt leið með skiltum sem vísa leið
Tímalengd
3 - 4 klukkustundir
Yfirborð
  • Möl
  • Blandað yfirborð
Hindranir
Vað - Óbrúaður lækur, eyrar eða mýrar
Hættur
Engar hættur á leiðinni
Þjónusta á leiðinni
Engin þjónusta
Engin þjónusta er á þessari leið, en stutt í alla þjónustu innanbæjar.
Lýsing
Óupplýst leið
Tímabil
Opið alla árstíma
Lagt er af stað frá Dalvíkurkirkju og gengið upp malarveg sem liggur til fjalls. Þar sem vegurinn greinist er sveigt til hægri og þar er upphafsskilti leiðarinnar. Gengið yfir brú á Brimnesá og upp með fallegu gljúfri sem þar er. Áfram er gengið eftir vegslóða upp að girðingu. Þegar komið er í gegnum hliðið liggur stígur til norðurs. Framundan er þá framhlaup sem hefur fallið í fyrndinni og nefnist í daglegu tali Upsi. Gengið er um það bil hálfa leið upp þetta framhlaup en sveigt þar til vinstri og stikum fylgt ská inn hlíðina þar til komið er í mynni Tungudals. Nú er gengið beint upp hlíðina og síðan eftir malarhrygg allar götur upp á fjallið að vörðu sem þar stendur í 774m hæð. Þarna er frábært útsýni yfir Dalvík, inn Svarfaðardal og Skíðadal, út yfir Hrísey og allt til Grímseyjar.