Siglufjarðarskarð Blönduð leið (ganga og hjól)
Siglufjarðarskarð er íslenskur fjallvegur sem liggur á milli Siglufjarðar og Fljóta í Skagafirði. Það var áður aðalleiðin frá Skagafirði til Siglufjarðar, allt þar til Strákagöng voru opnuð 1967. Þessa leið er einnig hægt að hjóla og má þá fylgja akveginum alla leið.
Nánari upplýsingar
Landshluti
Norðurland, Fjallabyggð
Upphafspunktur
Skíðasvæði Siglfirðinga
Merkingar
Stikuð - merkt leið með stiku, staur eða stöng með reglulegu millibili
Tímalengd
3 - 4 klukkustundir
Yfirborð
Blandað yfirborð
Hindranir
Vað - Óbrúaður lækur, eyrar eða mýrar
Hættur
Engar hættur á leiðinni
Þjónusta á leiðinni
Engin þjónusta
Lýsing
Óupplýst leið
Tímabil
Vegurinn er aðeins fær á sumrin
Siglufjarðarskarð (630 m) var aðalleiðin frá Fljótum til Siglufjarðar, allt frá landnámi og þar til Strákagöng voru opnuð árið 1967. Leiðin er fær bæði frá Siglufirði eða vestan frá Heljartröð, skammt norðan Hrauna í Fljótum. Ef gengið er frá Siglufirði hefst gangan eftir gömlum akvegi, og síðan er beygt inn á eldri þjóðleið fljótlega eftir að komið er úr skarðinu. Þessa leið er einnig hægt að hjóla og má þá fylgja akveginum alla leið.
Árið 1946 var fyrrnefndur vegur lagður yfir Siglufjarðarskarð. Mikil samgöngubót var að Skarðsveginum þótt hann hafi verið afar snjóþungur og fær aðeins fáa mánuði á ári. Enn má fastlega gera ráð fyrir því að hann sé snjóþungur fyrripart sumars. Skammt norðan skarðsins er Illviðrishnjúkur (895 m), annað hæsta fjall við Siglufjörð.
Vegarlengd um 10 km (önnur leið).