Nykurtjörn Gönguleið
Falleg og auðveld leið upp að Nykurtjörn í Svarfaðardal. Lagt er af stað frá bænum Steindyrum. Gengið er upp gróðursælar hlíðar meðfram Þveránni að Steindyrafossi en leiðin er öll stikuð. Þegar komið er upp á hjalla nokkuð ofan við fossinn er sveigt til norðurs, og gengið undir Bakkabjörgum allt að Nykurtjörninni.
Nánari upplýsingar
Landshluti
Norðurland, Dalvíkurbyggð
Upphafspunktur
Steindyr, Svarfaðardalur
Merkingar
- Stikuð - merkt leið með stiku, staur eða stöng með reglulegu millibili
- Skilti við upphaf leiðar
Tímalengd
3 - 4 klukkustundir
Yfirborð
Óskilgreint
Hindranir
Þrep - Trappa, stallur, stig eða lágur hjalli sem þarf að stíga upp á
Hættur
Engar hættur á leiðinni
Þjónusta á leiðinni
Engin þjónusta
Lýsing
Óupplýst leið
Tímabil
Opið alla árstíma
Lagt er af stað frá bænum Steindyrum. Gengið er upp gróðursælar hlíðar meðfram Þveránni að Steindyrafossi en leiðin er öll stikuð. Þegar komið er upp á hjalla nokkuð ofan við fossinn er sveigt til norðurs, og gengið undir Bakkabjörgum allt að Nykurtjörninni. Talið var að Nykur einn byggi í tjörninni. Á veturna varð hann að húka undir ís, en á vorin sprengdi hann af sér klakabeltin og við það komu miklar flóðbylgjur niður í Svarfaðardal og hlífðu þær engum.
Nú er hægt að ganga sömu leið til baka eða halda áfram í átt að Húsabakka. Þegar komið er niður fyrir slétturnar opnast fyrir framan okkur myndarlegt gil sem nefnist Brekkugil. Gengið er niður gilbarminn norðan við gilið. Þegar komið er niður mesta brattan við gilið er stefnan tekin norður og niður hlíðina uns komið er að Bakkabræðralaug. Þar er upplagt að fá sér fótabað! Þá er stutt niður að Húsabakka og Sundskála Svarfdæla, sem er ein elsta yfirbyggða sundlaug landsins.
Athugið að sé þessi leið farin er endastaður töluvert frá byrjunarreit.
Vegalengd um 8 km. Hækkun 630 m.