Fara í efni

Vegvísir á vefnum fyrir fyrirtæki og einstaklinga

atvinnuvegurinn2
atvinnuvegurinn2

Stuðningsumhverfi nýsköpunar hefur vaxið mikið á síðustu árum og er oft á tíðum erfitt að átta sig á hvert hlutverk hvers og eins er í stuðningsumhverfinu. Síðustu mánuði hefur teymi á vegum iðnaðarráðuneytis og undirstofnana þess unnið að kortlagningu þjónustu sinnar gagngert til að veita betri þjónustu og ná auknum árangri í ráðstöfun opinberra fjármuna. 

www.atvinnuvegurinn.is
Afrakstur vinnunnar er nú að skila sér í opnun á nýjum og sameiginlegum vef fyrir ráðuneytið og undirstofnanir þess; Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ferðamálastofu, Byggðastofnun og Orkustofnun. Þessi nýi upplýsingarvefur heitir www.atvinnuvegurinn.is og er hugsaður sem leiðarvísir um þjónustuframboð fyrrnefndra aðila þannig að einstaklingar og fyrirtæki geti á auðveldan hátt fundið þá þjónustu og upplýsingar sem leitað er eftir. Á vefsíðunni er hægt að finna upplýsingar um þá ráðgjöf og þjónustu sem stofnanirnar veita, þau námskeið sem í boði eru, styrki og fjármögnun, tölfræði og skýrslur, leyfis- og gæðamál, tæknirannsóknir auk almennra upplýsinga um stofnanirnar og ráðuneytið. Þessi vinna er liður í markvissu starfi innan ráðuneytisins sem miðar að því að koma á betra skipulagi á stoðkerfið eftir að ákvörðun var tekin um það síðastliðið haust að greina stoðkerfi atvinnulífs og nýsköpunar á vegum iðnaðarráðuneytis með þarfir atvinnulífsins að leiðarljósi.

Vefur opnaður formlega í upphafi á evrópsku fyrirtækjavikunni
Atvinnuvegurinn.is hefur nú verið opnaður formlega og það í upphafi á evrópsku fyrirtækjavikunni sem haldin hefur verið síðan 2009 þar sem ein vika á ári er helguð nýsköpunarfyrirtækjum og frumkvöðlum í Evrópu. Fyrirtækjavikan hefst að þessu sinni mánudaginn 3. október  og stendur til sunnudagsins 9. október. Markmið fyrirtækjavikunnar er að veita heildaryfirsýn og skapa umræðu um stuðningskerfi nýsköpunar fyrir fyrirtæki og frumkvöðla á Íslandi. Það eru Nýsköpunarmiðstöð Íslands, RANNÍS, Íslandsstofa og Samtök iðnaðarins sem sjá um framkvæmd vikunnar hér á Íslandi og það í góðri samvinnu við fleiri öfluga aðila í stuðningsumhverfi nýsköpunar hérlendis. Allar nánari upplýsingar um þá viðburði sem í boði verða þessa vikuna er að finna á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands www.nmi.is