Fara í efni

Tvær ferðasýningar að hefjast

TUR 2007
TUR 2007

Ferðamálastofa tekur þátt í tveimur ferðasýningum sem báðar hefjast næstkomandi fimmtudag. Þetta er annars vegar hin árlega TUR ferðasýning í Gautaborg og hins vegar ný sýning í París, Map ? Le Monde á Paris.

Metþátttaka á TUR
TUR í Gautaborg er stærsta ferðasýning á Norðurlöndum og hefur Ísland tekið þátt til margra ára. Metþátttaka er að þessu sinni en 14 fyrirtæki eru á íslenska sýningarsvæðinu sem Ferðamálastofa hafði sem fyrr umsjón með að skipuleggja. Þá er Icelandair á sér bás við hliðina. ?Ég er bjartsýn á gott gengi í ár. Meðal nýjunga er að á föstudaginn verðum við með viðburð fyrir fjölmiðlafólk þar sem við kynnum Ísland með ýmsum hætti og mun m.a. Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra verða viðstaddur,? segir Lisbeth Jensen, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálastofu í Kaupmannahöfn.

Ný sýning í París
Map ? Le Monde á Paris er nú haldin í fyrsta sinn, en hún leysir af hólmi tvær sýningar sem haldnar hafa verið í París undanfarin ár. Sýningin stendur yfir í fimm daga og er tvískipt. Fyrstu tveir dagarnir eru fyrir fagaðila en seinni þrjá dagana er sýningin opin almenningi. Icelandair, Reykjavik Excursions, Smyril Line/Voyages Galia og Island Tours France taka þátt ásamt Ferðamálastofu. Þátttaka Íslands er skipulögð af skrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt, sem sér um Mið-Evrópumarkað.

Mynd: Frá TUR í fyrra.