Fara í efni

Tjaldsvæðið í Laugardal fær gæða- og umhverfisvottun Vakans

Tjaldsvæðið í Laugardal fær gæða- og umhverfisvottun Vakans

Tjaldsvæðið í Laugardal hlaut nýverið gæða- og umhverfisvottun Vakans. Það er Bandalag íslenskra farfugla, nú Farfuglar ses / HI Iceland, sem rekur tjaldsvæðið, sem er vel staðsett innan höfuðborgarsvæðisins.

Rekstur tjaldsvæðisins fer vel saman við aðra starfsemi Farfugla, þar sem áhersla er á útivist, sjálfbær ferðalög, og tengingu við nærumhverfi, á lágu verði. Tjaldsvæðið er með stærri gististöðum landsins og rúmar vel um 600 manns.

Líkt og með farfuglaheimilin, þá leggja Farfuglar mjög mikla áherslu á að vel sé staðið að umhverfismálum í rekstri tjaldsvæðisins. „Fyrir Farfugla skiptir miklu máli að gestir tjaldsvæðisins geti treyst því að ekki sé um grænþvott að ræða og eftir að hafa skoðað vel hvaða vottun myndi best henta starfsemi tjaldsvæðisins, var ákveðið að sækja um vottun Vakans, enda mat Farfugla að sú vottun væri byggð á traustu gæða- og umhverfiskerfi“ segir Oddvar Haukur Árnason framkvæmdastjóri Farfugla ses.

„Að fara í gegnum vottunarferlið tók okkur nokkurn tíma en það var virkilega ánægjulegt þegar þetta var loksins í höfn sagði Oddvar ennfremur, Farfuglar ses / HI Iceland eru leiðandi í ábyrgri ferðaþjónustu á Íslandi og er áherslan á sjálfbærni og menningarlegan fjölbreytileika“.

Þess má ennfremur geta að bæði farfuglaheimilin í Reykjavík sem eru í eigu Farfugla eru með Svansvottun.

Ferðamálastofa óskar Farfuglum innilega til hamingju með frábæran árangur. Það var Vottunarstofan iCert sem sá um vottunina hjá Farfuglum.

Nánari upplýsingar veitir Alda Þrastardóttir alda@ferdamalastofa.is