Fara í efni

Niðurstöður úr könnun Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna síðasta vetur

vetrarkonnun12
vetrarkonnun12

Tenglar á íslenska og enska útgáfu af könnuninni eru hér neðst á síðunni.

Ferðamenn sem dvöldu á Íslandi á tímabilinu september 2011 til maí 2012 (sem hér eftir verða nefndir vetrargestir) virtust afar sáttir við dvöl sína á Íslandi samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Ferðamálastofa fékk mmr til að gera.

Flestir vilja koma aftur
Íslandsferðin stóðst væntingar 95% svarenda og tæp 85% töldu líklegt að þeir myndu ferðast aftur til Íslands. Langflestir voru hér í fríi og var dvalarlengdin að jafnaði um 6,6 nætur. Fjölmargir þættir höfðu áhrif á að Ísland varð fyrir valinu þó svo náttúran, menningin eða sagan og gott ferðatilboð hafi oftast verið nefnd. Dvöl svarenda var að stærstum hluta bundin við höfuðborgarsvæðið og voru hópferðabílar sá samgöngumáti sem mest var nýttur. Fimmtungur vetrargesta hafði áður heimsótt landið. Í átta tilfellum af hverjum tíu var ferðalagið einungis bundið við Ísland. 

Um könnunina
Með könnuninni var aflað upplýsinga um erlenda ferðamenn á Íslandi, aðdragandann að Íslandsferðinni, ferðahegðun þeirra á Íslandi, eyðsluhætti og viðhorf þeirra til ýmissa þátta íslenskrar ferðaþjónustu. Um var að ræða framhald af netkönnun sem framkvæmd var sumarið 2011 en netföngum var safnað með skipulögðum hætti á komu- og brottfararsvæði flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á tímabilinu 1. september 2011 til 31. maí 2012. Úrtakið var 4.512 manns og var svarhlutfallið 52,6%.

Ákvörðun um Íslandsferð
Samkvæmt könnuninni er bæði ákvörðunar- og kaupferlið talsvert styttra hjá þeim sem komu að vetri en meðal sumargesta. Þannig höfðu um 83% bókað ferðina innan fjögurra mánuða fyrir brottför, sem er mun skemmri fyrirvari en meðal sumargesta, og rúmlega 23% svarenda sögðu hugmyndina að íslandsferð hafa komið minna en þremur mánuðum fyrir brottför, sem einnig er mun hærra hlutfall en í sumarkönnuninni. Aðeins lægra hlutfall gesta að vetri en sumri eða helmingur sagðist hafa fengið hugmyndina að Íslandsferð vegna almenns áhuga á náttúru og landi, þriðjungur hjá vinum og ættingjum og  tæplega fimmtungur á netinu. Líkt og sumargestir öfluðu þrír af hverjum fjórum vetrargesta sér upplýsinga um Ísland á netinu en það var jafnframt sá miðill sem langflestir höfðu tekið eftir auglýsingum eða almennri umfjöllun um Ísland á.  

Hvar á landinu var gist og hvaða svæði og staðir voru heimsótt
Dvöl vetrargesta var að mestu bundin við höfuðborgarsvæðið en um 95% svarenda gistu í Reykjavík og nágrenni og var meðaldvalarlengdin fimm nætur. Annars var dvöl gesta yfir nótt í einstökum landshlutum sem hér segir:

  • Höfuðborgarsvæðið 95%
  • Suðurland 13,9%
  • Norðurland 9,6%
  • Vesturland 8,7%
  • Reykjanes 6,6%
  • Austurland 6,2%
  • Vestfirðir 3,2%
  • Hálendið 2,2%

Af 35 stöðum/svæðum sem spurt var sérstaklega um vítt og breitt um landið sögðust flestir hafa heimsótt Þingvelli, Geysi eða Gullfoss (61,0%), Vík (32,6%), Skóga (27,3%), Skaftafell  (22,8%), Reykjanesbæ (21,9%), Snæfellsnes þjóðgarð (20,7%), Reykjanesvita/Gunnuhver/Brú milli heimsálfa (15,1%), Akureyri (13,7%), Hornafjörð (13,0%) Borgarfjörð (12,6%), Mývatn (11,8%) og Eyrarbakka (10,9%).

Hvaða afþreyingu var greitt fyrir
Vetrargestir líkt og sumargestir höfðu einkum áhuga á afþreyingu tengdri náttúruupplifun, heilsu og vellíðan. Þegar spurt var um hvaða afþreyingu greitt hefði verið fyrir var eftirfarandi oftast nefnt:

  • Sund eða náttúruböð 68,0%
  • Skoðunarferð með leiðsögn 54,5%
  • Söfn og sýningar 34,3%
  • Dekur og vellíðan 25,3%
  • Hvalaskoðun 17,5%
  • Jökla- eða snjósleðaferð 13,0%

Ef skoðaðir eru þeir þættir sem munur er á milli sumars og veturs má sá að mun fleiri eru að fara í skoðunarferð með leiðsögn yfir vetrartímann eða 54,5% á móti 35,5% en söfn og sýningar voru sótt í minna mæli af vetrargestum (34,3%)  en þeim sem komu að sumri (46,2%). Verulega færri nefna einnig hvalaskoðun og bátsferð í vetrarkönnuninni.

Aukin gæðavitund gesta
Gæðavitund vetrargesta var nokkuð meiri en sumargesta samkvæmt niðurstöðum könnunar Ferðamálastofu en 64,5% vetrargesta sögðu að það hefði mjög mikil eða frekar mikil áhrif á val þeirra á ferðaþjónustufyrirtæki að það hefði viðurkennda gæðavottun en þetta hlutfall var 56,2% hjá sumargestum Almennt séð voru vetrargestir að gefa þeim 35 ferðaþjónustuþáttum sem voru lagðir til grundvallar í könnun jafnháa einkunn og jafnvel hærri einkunn en sumargestir. Þannig fengu t.d. allir þættir í tengslum við skyndibita-, veitinga- og gististaði betri einkunn hjá vetrargestum en sumargestum; skyndibitastaðir einkunn á bilinu 7,0-7,3, veitingastaðir á bilinu 8,0-8,4 og gististaðir á bilinu 8,4-8,7.

Bláa lónið minnisstæðast og styrkur ferðaþjónustu á Íslandi liggur í náttúru og landslagi
Þegar svarendur voru spurðir að því hvaða þrjú atriði þeim hefðu þótt minnisstæðust við Íslandsferðina nefndu flestir Bláa lónið (35,2%) og náttúru eða landslag (27,7%). Þar á eftir komu eftirfarandi þættir:

  • Matur eða veitingastaðir 19,6%
  • Fólkið og gestrisni 17,1%
  • Norðurljós 16,1%
  • Reykjavík 13,2% 
  • Geysir eða Strokkur 11,2% 
  • Gullfoss 10,4% 
  • Gullni hringurinn 9,9% 
  • Hverir eða jarðhiti 9,3% o.s.frv.

Vetrargestir töldu líkt og sumargestir að styrkleikar íslenskrar ferðaþjónustu lægju fyrst og fremst í náttúrunni og landslaginu en 68,3% vetrargesta nefndu þessa þætti.  Næst kom fólkið og gestrisni lands og þjóðar en ríflega þriðjungur vetrargesta nefndi þann þátt. Þar á eftir kom afþreying og það hversu margt væri hér að gera og sjá (12,7%), menningin og sagan (12,5%), það hversu einstakt, framandi og öðruvísi hér væri (12,0%) og þjónustan í tengslum við skoðunarferðir svo og leiðsögumennirnir sjálfir (11,8%).

Hvað má bæta í íslenskri ferðaþjónustu
Ýmislegt má bæta í íslenskri ferðaþjónustu að mati vetrarsvarenda. Fimmtungur nefndi ferðaþjónustu ýmiss konar í því sambandi, 12,4% verðlag almennt, 9,7% upplýsingar til ferðamanna, 9,1% vegaskilti og 8,2% verð á mat almennt og á veitingahúsum og 7,6% vegakerfið en hið síðastnefnda var sá þáttur sem flestir sumarsvarendur töldu að þyrfti að bæta. Aðrir þættir voru nefndir í minna mæli.

Um svarendur og könnunina

  • Konur voru 54,3% svarenda en karlar 45,7%
  • Meðalaldurinn var 40,5 ár en fjölmennastir voru svarendur á aldursbilinu 25-34 ára (34,2%)
  • Af einstaka þjóðernum voru flestir svarendur breskir (20,0%), bandarískir (14,7%) og norskir (9,1%).
  • Svarendur skipt eftir markaðssvæðum:
    • Bretlandseyjar 26,5%
    • Norðurlönd 26,4%  
    • Mið- og Suður-Evrópa 21,2%  
    • Norður-Ameríka 17,3% 
    • Önnur lönd 8,7%.
  • Tæplega helmingur (47,5%)  svarenda var með há laun eða laun yfir meðallagi, um 41% með laun í meðallagi og um 11% með lág laun eða laun undir meðallagi.
  • Helmingur svarenda var í stjórnunar- eða sérfræðistörfum, 13,1% í skrifstofu- eða þjónustustörfum, 10,1% voru nemar, 8,3% ellilífeyrisþegar eða heimavinnandi, 6,0% sérhæft starfsfólk eða tæknar og 12,1% í öðrum störfum.

Niðurstöður úr könnuninni má nálgast í skýrslunni hér að neðan. Heildarniðurstöður eru settar fram í gröfum þar sem sjá má samanburð milli svara sumargesta 2011 og vetrargesta 2011-2012. Einstaka spurningar eru síðan greindar fyrir svör vetrargesta eftir kyni, aldri, starfi, heimilistekjum, þjóðerni, markaðssvæðum, tilgangi ferðar og tegund ferðar þ.e. hvort um var að ræða ferð á eigin vegum eða pakkaferð.

Nánari upplýsingar veitir Oddný Þóra Óladóttir, rannsóknastjóri Ferðamálastofu oddny@ferdamalastofa.is