Fara í efni

Iceland Express fimm ára

Iceland Express - ny flugvel
Iceland Express - ny flugvel

Iceland Express fagnar fimm ára afmæli á morgun, 27. febrúar, en þann dag árið 2003 var fyrsta flug á vegum félagsins til Kaupmannahafnar og London. Síðan hefur áfangastöðunum fjölgað jafnt og þétt úr tveimur í fjórtán, auk þess sem félagið flýgur frá Akureyri og Egilsstöðum til Kaupmannahafnar á sumrin.

Í frétt frá félaginu kemur fram að það muni fagna afmælinu með því að gefa farþegum félagsins á afmælisdaginn sérstakan glaðning auk þess sem almenningi býðst sérstakt tilboð frá hádegi 27. febrúar þegar í boði verða 5.000 sæti á 6.995 kr. í tilefni fimm ára afmælisins.

Áfangastaðir Iceland Express í sumar verða Kaupmannahöfn, London, Alicante, Basel, Berlín, Billund, Eindhoven, Frankfurt Hahn, Friedrichshafen, Gautaborg, París, Stokkhólmur, Barcelona og Varsjá. Varsjárflugið markar tímamót í íslenskri flugsögu, því þetta verður í fyrsta sinn sem flogið er í beinu áætlunarflugi milli Íslands og Póllands. Barcelona er jafnframt nýr áfangastaður í sumaráætlun Iceland Express, en félagið hóf að fljúga þangað síðastliðið haust.

?Síðustu fimm ár hefur mikil uppbygging átt sér stað hjá Iceland Express og munum við halda henni áfram af fullum krafti. Viðtökur Íslendinga og erlendra ferðamanna við þjónustu félagsins hafa verið frábærar frá upphafi og sýna svo ekki verður um villst  hversu miklu máli það skipti fyrir almenning og íslenska ferðaþjónustu að hér ríki virk samkeppni í millilandaflugi,? segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, í frétt frá félaginu.