Fara í efni

Heiðrún Erika Guðmundsdóttir ráðin forstöðumaður rannsókna- og tölfræðisviðs

Nú í byrjun mánaðar kom Heiðrún Erika Guðmundsdóttir til starfa hjá Ferðamálastofu sem forstöðumaður rannsókna- og tölfræðisviðs. Heiðrún var ráðin úr hópi 26 umsækjenda um starfið. 

Heiðrún er með B.Sc. gráðu í jarðeðlisfræði og M.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands ásamt því að hafa lokið leiðsögumannaprófi hjá Leiðsöguskóla Íslands. Heiðrún hefur starfað hjá Hagstofu Íslands í 18 ár þar sem hún hefur sinnt stöðu deildarstjóra í vísitölum síðustu 11 ár og tók auk þess við sem deildarstjóri þjóðhagsreikninga og opinberra fjármála fyrr á þessu ári, en hún byrjaði hjá stofnuninni sem sérfræðingur í vísitölum og sinnti því starfi í sjö ár.

Heiðrún hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu, bæði af stjórnun og öflun gagna, gagnavinnslu og gagnagreiningum. Í störfum sínum sem deildarstjóri hefur hún fengist við alla þá þætti sem snúa að meðferð og úrvinnslu gagna, gagnagrunnum og tölfræðilegri greiningu auk þess að sinna miðlun upplýsinga, framsetningu á vef og þjónustu við notendur tölfræðinnar. Einnig hefur Heiðrún komið að ferðaþjónustureikningum í tengslum við þjóðhagsreikninga. Áður starfaði Heiðrún við rannsóknarstörf og greiningar meðfram meistaranámi hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í fjögur ár.

Starfsfólk  Ferðamáalstofu býður Heiðrúnu Eriku velkomna og hlakkar til samstarfsins.