Fara í efni

Hálkuslys ferðamanna - Sýnum fyrirhyggju

Hálkuslys ferðamanna - Sýnum fyrirhyggju

Töluvert er um hálkuslys á áfangastöðum ferðamanna yfir vetrartímann, hálka myndast oft snöggt vegna aðstæðna. Víða mætti draga úr líkum á hálkuslysum með fyrirbyggjandi aðgerðum t.d. með aukinni notkun mannbrodda.

Slysin gerast einna helst á stöðum þar sem vatnsúði eða gufa leggst á göngustíga og göngusvæði verða því flughál og viðsjárverð. Þetta gerist einna helst í kringum fossa og hveri sem eru jú mjög vinsælir áfangastaðir ferðamanna hér á landi.

Tryggja aðgengi að mannbroddum

Ferðamálastofa vill því hvetja ferðaþjónustuaðila til að tryggja ferðamönnum aðgengi að mannbroddum þegar komið er að þessum áfangastöðum, annað hvort með því að lána eða selja viðskiptavinum brodda eða hvetja þá til að taka með sína eigin mannbrodda strax eftir bókun ferða.

Persónulegar hálkuvarnir eins og mannbroddar breyta miklu þegar verið er að ganga um í vetrarfærð og geta komið í veg fyrir slys sem geta hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingu fyrir rekstraraðila og okkar gesti. Á mörgum áfangastöðum ferðamanna er enn fremur langt í næst sjúkrabíl með tilheyrandi óþægindum og töfum fyrir aðra gesti viðkomandi ferðar.

Sýnum því fyrirhyggju og tryggjum hámarks upplifun ferðamanna og bætta afkomu fyrirtækja með því að tryggja öryggi okkar gesta eins og kostur er.

 

Mánari upplýsingar veitir: Dagbjartur Kr. Brynjarsson, sérfræðingur í öryggismálum dagbjartur@ferdamalastofa.is

 

Mynd: Y K á Unsplash