Fara í efni

Gott aðgengi í ferðaþjónustu - Fyrstu fyrirtækin fá merki sem aðgengileg fyrirtæki fyrir fatlaða

Sky Lagoon, Bakland að Lágafelli og Loft Hostel og Dalur Hostel undir merkjum HI Iceland- Farfuglar, eru fyrstu fyrirtækin til að hljóta merki verkefnisins Gott aðgengi í ferðaþjónustu á vegum Ferðamálastofu. Verkefnið er fræðslu og hvatningarverkefni, unnið í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sjálfsbjörg og ÖBÍ réttindasamtök. Með verkefninu er verið að bregðast við því sem lengi hefur verið kallað eftir, en það er að bæta aðgengi fyrir fatlaða í ferðaþjónustu.

Markmiðið með verkefninu er að bjóða ferðaþjónustuaðilum á Íslandi upp á verkfæri og leiðbeiningar til að bæta aðgengismál markvisst. Verkefnið, sem er sjálfsmat, byggir á trausti og á vilja ferðaþjónustuaðila til að sýna ábyrgð í verki.

Aðbúnaður og þjónusta

Þessi fyrirtæki, sem nú hafa fengið merki verkefnisins, hafa hugað að margvíslegum þáttum er varða gott aðgengi fyrir fatlaða og hafa gert nauðsynlegar ráðstafanir til að uppfylla viðmið Góðs aðgengis. Má þar t.d. nefna upplýsingar á vefsíðu, atriði er varða aðkomu utanhúss og bílastæði, aðbúnað á snyrtingum og herbergjum, merkingar, móttöku- og veitingarými, fræðslu til starfsfólks o.fl.

Ferðamálastofa óskar forsvarsmönnum og starfsfólki Sky Lagoon, Baklands að Lágafelli, Lofts Hostels og Dals Hostels innilega til hamingju með glæsilegan áfanga og hvetur um leið önnur ferðaþjónustufyrirtæki til að kynna sér verkefnið nánar og taka þátt.

Gott aðgengi er hluti af sjálfbærri og ábyrgri ferðaþjónustu

Verkefnið Gott aðgengi í ferðaþjónustu er fyrir alla þá sem vilja bæta aðgengismál í sínu fyrirtæki. Hvort sem fyrirtækið er lítið eða stórt, baðstaður, gististaður eða veitingahús þá eru viðmiðin gott verkfæri til að fara markvisst í gegnum starfsemina og sjá hvað má bæta.

Gott aðgengi fyrir fólk með fötlun leiðir af sér betra aðgengi fyrir alla

Allar nánari upplýsingar um verkefnið

Mynd af Hallgerður Ragnarsdóttir og Helga María Albertsdóttir frá Sky lagoon
Hallgerður Ragnarsdóttir og Helga María Albertsdóttir veittu viðurkenningunni viðtöku fyrir hönd Sky Lagoon.


Sæunn Þóra Þórarinsdóttir, Halldór Áki Óskarsson, Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir og Þorkell Steindal hjá Baklandi að Lágafelli.


Þau Stefan Jovic, Oddvar Haukur Árnason, Sigríður Ólafsdóttir og Irene Pruna Soler frá Farfuglum.