Fara í efni

Gistinóttum fjölgar um 15% á milli ára

Gistinætur eftir landsvæðum 2012-2013. Smellið fyrir stærri mydn.
Gistinætur eftir landsvæðum 2012-2013. Smellið fyrir stærri mydn.

Seldar gistinætur voru 4,3 milljónir hér á landi árið 2013 og fjölgaði um tæp 15% frá fyrra ári. Þetta kemur fram í gistináttatölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag.

Skipting gistinátta

Gistinætur erlendra gesta voru 79% af heildarfjölda gistinátta og fjölgaði þeim um 17% frá árinu 2012 en gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 8%. Tveir þriðju allra gistinátta voru á hótelum og gistiheimilum, 12% á tjaldsvæðum og 22% á öðrum tegundum gististaða. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum á milli ára nema á Vestfjörðum.

Aukning síðustu ára

Mikil aukning hefur orðið á seldum gistinóttum undanfarin ár. Á síðastliðnum fimm árum hefur heildarfjöldi gistinátta aukist um 1,3 milljónir eða um 42,5%. Framboð gistirýmis hefur ekki aðeins aukist mjög á þessum tíma, heldur hefur nýtingin einnig aukist. Á síðasta ári var nýting herbergja á hótelum og gistiheimilum 54,3%. Til samanburðar var þessi nýting 46,2% árið 2009.

Þjóðverjar gista mest

Eins og mörg undanfarin ár gistu Þjóðverjar flestar nætur í fyrra, þá Bretar og svo Bandaríkjamenn. Sú nýbreytni varð á árinu 2013 að öllum þjóðernum gesta var safnað og er landatafla gistinátta birt með 47 þjóðernum og fimm safnflokkum.

Um gisináttatölurnar

Rannsókn Hagstofunnar tekur til allrar seldrar gistiþjónustu að undanskildum orlofshúsum félagasamtaka, stéttar- og starfsmannafélaga. Gistináttatalning Hagstofunnar er þýðisrannsókn og árið 2013 var beðið um upplýsingar frá 916 gististöðum. Heimtur voru góðar hjá stærri gististöðum en lakari hjá smærri aðilum. Upplýsingar um gistirými sem liggja fyrir nýtast til að áætla gistinætur hjá stöðum sem ekki skila gögnum. Rannsóknin nær til allra gististaða óháð því hvort þeir hafigistileyfi. Mikil aukning hefur verið á fjölda smærri gististaða eins og heimagististaða og í íbúðagistingu undanfarin ár. Hagstofan telur að gististaðir sem gætu verið vantaldir séu yfirleitt smáir heimagististaðir sem leigja út fá herbergi óreglulega yfir árið og hafa ekki veruleg áhrif á heildarniðurstöður.

Nánar:
Gistingar ferðamanna 2013 - Hagtíðindi