Fara í efni

Gerum góða gistingu betri - gæðaátak hjá Ferðaþjónustu bænda

Smyrlabjörg viðurkenning
Smyrlabjörg viðurkenning

Á síðasta ári réðst Ferðaþjónusta bænda í 3ja ára verkefni á sviði gæðamála í samstarfi við fyrirtækið Better Business.  Markmið verkefnisins er að gera stöðumat á aðbúnaði og þjónustu hjá félögum innan Ferðaþjónustu bænda út frá sjónarhorni gesta, þrjú ár í röð. 

Um er að ræða svokallaðar hulduheimsóknir sem geta gefið okkur verðmætar upplýsingar sem miða að því að styrkja stöðu samtakanna á sviði gæðamála og auka samkeppnishæfni félagsmanna, segir í  frétt frá Ferðaþjónustu bænda..

Alls tóku 22 félagar í Ferðaþjónustu bænda þátt í verkefninu síðastliðið sumar og voru niðurstöðurnar kynntar á Uppskeruhátíð ferðaþjónustubænda sem haldin var í nóvember síðastliðinn.  Fimm bæjum voru veitt sérstök viðurkenningarskjöl fyrir góðan árangur en þeir  fengu heildareinkunn yfir 8,5 og telst það vera mjög vel af sér vikið.  Þessir bæir eru Heydalur í Mjóafirði, Engimýri í Öxnadal, Brunnhóll á Mýrum, Hótel Hellnar á Snæfellsnesi og Smyrlabjörg í Suðursveit.  Þessi frammistaða mun eflaust hvetja rekstraraðilana áfram við að halda áfram á sömu braut og verða öðrum hvatning til að gera betur.

Fjölga umhverfisvottuðum fyrirtækjum
Annað verkefni sem var í gangi á síðasta ári miðað að því að fjölga umhverfisvottuðum fyrirtækjum innan Ferðaþjónustu bænda.  Árangur þess hefur verið að koma í  ljós undanfarna mánuði því nú hefur Green Globe vottuðum fyrirtækjum á vegum Ferðaþjónustu bænda fjölgað úr þremur í sjö, auk þess sem eitt fyrirtæki til viðbótar uppfyllir viðmið Green Globe og bíður nú eftir staðfestingu um vottun.  Í dag eru eftirfarandi fyrirtæki Green Globe vottuð: Hótel Hellnar, Hótel Anna, Brunnhóll á Mýrum, Ferðaþjónustan Hjalli í Kjós, Heydalur í Mjóafirði, Gauksmýri í Húnaþingi auk þess sem skrifstofa Ferðaþjónusta bænda er einnig vottuð.  Það er svo Geirland á Síðu sem bíður eftir að fá staðfestingu á vottun. 


Myndin:  Á myndinni  eru hjónin Sigurbjörn og Laufey frá Smyrlabjörgum búin að taka við viðurkenningu frá Bjarna hjá Better Business og Berglindi frá Ferðaþjónustu bænda.