Fara í efni

Ferðavæntingar 2024: Öryggi og hagkvæmni eru fólki ofarlega í huga

Forsíðu skýrslunnar prýðir mynd frá Íslandi.
Forsíðu skýrslunnar prýðir mynd frá Íslandi.

Ferðamálaráð Evrópu -ETC var að birta fyrstu skýrslu ársins um væntingar og þróun á fjærmörkuðum (Long-Haul Travel Barometer 1/2024). Að mestu leyti má greina bjartsýni til ferðalaga fyrir nýbyrjað ár en vísbendingar eru um minni ferðavilja en áður á fyrstu fjórum mánuðum ársins

Um er að ræða 7 lönd sem sum eru meðal lykilmarkaða íslenskrar ferðaþjónustu, þ.e. Bandaríkin, Kanada, Japan, Kína, Ástralía, Brasilía og S-Kórea. Því er áhugavert fyrir ferðaþjónustuaðila hérlendis að rýna í niðurstöðurnar þar sem þær má einnig greina niður á hvern markað um sig.

Staðan á lykilmörkuðum Íslands

Ef horft er til þeirra landa sem teljast mega lykilmarkaðir Íslands þá eru áform Bandaríkjamanna til utanlandsferða fyrir árið í heild á pari við það sem mældist 2023 og 60% svarenda áforma utanlandsferð á árinu 2024. Kanadabúar eru hins vegar bjartsýnni en áður þar sem hlutfallið er 72%. Japanir og Kínverjar hafa einnig ferðast hingað til lands í nokkru mæli undanfarin ár. Um 35% svarenda í Japan hyggja á utanlandsferð á árinu og 64% Kínverja, sem þó er samdráttur.

Sterk staða Evrópu

Könnunin leiðir enn í ljós hversu sterk staða Evrópu er á heimsvísu þegar kemur að ferðalögum því 75% þeirra sem hyggja á utanlandsferðir í löndunum 7 sem um ræðir eru með Evrópu á radarnum.

Öryggi, innviðir og hagkvæmni lykillinn að því að velja áfangastað

Þeir ferðamenn sem lýsa yfir áhuga á að heimsækja Evrópu á þessu ári nefna öryggi sem aðal áhrifaþáttinn við val þeirra á áfangastað, en 45% svarenda á öllum mörkuðum setja öruggt ferðaumhverfi í forgang. Góðir innviðir ferðaþjónustu eru í öðru sæti en 38% telja það nauðsynlegt.

Fræg kennileiti og þjónusta á viðráðanlegu verði hafa einnig umtalsvert vægi í vali áfangastaða, þar sem 35% erlendra ferðamanna nefna þetta sem forgangsatriði þeirra. Athyglisvert er að Kanada, Bandaríkin og Ástralía skera sig úr fyrir mikla áherslu á hagkvæmni. Góð veðurskilyrði gegna og mikilvægu hlutverki í ferðaákvörðunum, þar sem 31% svarenda telja þau skipta sköpum.

Fyrir utan þessi meginsjónarmið sýna kóreskir og kínverskir orlofsgestir mikinn áhuga á áfangastöðum sem varðveita náttúru- og menningararfleifð sína.

Blanda af bjartsýni og varkárni mótar ferðaáætlanir fyrstu mánuði ársins

Ef litið er til ferðaplana fyrstu 4 mánuði ársins þá er aðdráttarafl Evrópu áfram mikið, þrátt fyrir áskoranir tengdum hækkandi ferðakostnaði og vaxandi aðdráttarafli annarra svæða. Mestur er áhuginn meðal Kínverja og Brasilíumanna. Fyrir Íslenska ferðaþjónustu er hins vegar vert að taka til athugunar að þótt ferðaáhugi Kanadamanna og Bandaríkjamanna sé ágætur fyrir árið í heild þá virðist hann í lágmarki fyrstu 4 mánuði ársins. Innan við þriðjungur svarenda á hverjum markaði (28%) ætlar í Evrópuferð á þessu tímabili.

Hvað má ferðin kosta?

Gögnin sýna einnig margvíslegar óskir um daglegt hámark kostnaðar, sem ETC segir undirstrika nauðsyn ferðaþjónustuaðila til að bjóða upp á upplifun sem kemur til móts við margs konar gesti. Allt frá þeim sem eru til í að eyða verulegum fjármunum til þeirra sem hafa ríka kostnaðarvitund. Á öllum mörkuðum samanlagt eru 38% svarenda tilbúnir til að eyða meira en 200 evrum á dag en hins vegar er breytileikinn mikill, bæði á milli markaða og eftir tegundum ferðamanna, þannig að meðaltöl segja e.t.v. takmarkaða sögu.

Skoða má skýrslu ETC í heild hér að neðan. Þess má til gamans geta að mynd frá Íslandi prýðir forsíðu hennar.

Long-Haul Travel Barometer 1/2024