Fara í efni

Ferðaþjónustuaðilar hvattir til að senda ábendingar um leyfislausa aðila

Mynd: Íslandsstofa/visiticeland.com
Mynd: Íslandsstofa/visiticeland.com

Ferðamálastofa vill hvetja ferðaþjónustuaðila til að senda stofnuninni ábendingar um aðila sem mögulega eru að starfa án tilskilinna leyfa. Allar slíkar ábendingar eru teknar alvarlega, samband haft við viðkomandi og gripið til viðeigandi aðgerða.

Það er bæði öryggismál og sanngirnismál að leyfislausir aðilar komist ekki upp með að halda úti rekstri hérlendis og Ferðamálastofa tekur þetta hlutverk sitt alvarlega.

Hvernig sendi ég inn ábendingu?

Ábendingar er hægt að senda í tölvupósti á netfangið upplysingar@ferdamalastofa.is eða í gegnum form á vef stofnunarinnar. Taka skal fram að þótt ekki sé hægt að senda inn nafnlaust þá gefur Ferðamálastofa ekki upp hver það er sem sendir inn ábendingu.

Flestir bregðast vel við

Ferðamálastofu berast reglulega ábendingar um leyfislaus aðila og er þá eins og fyrr segir haft samband við viðkomandi. Langoftast er brugðist vel við og leyfismálum komið í lag, ef um slíkt er að ræða. Í mörgum tilfellum er um að kenna þekkingarskort á leyfisumhverfinu, fremur en brot af ásettu ráði.

Viðurlög við því að starfa án leyfis

Ef ekki er brugðist við hefur Ferðamálastofa samkvæmt lögum nr. 96/2018 ýmis úrræði. Þannig skal hver sá sem rekur leyfisskylda starfsemi án tilskilins leyfis eða ef starfsemi samkvæmt útgefnu leyfi er ekki í samræmi við leyfið, sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Ef leyfisskyld starfsemi er rekin án leyfis ber lögreglustjóra, að beiðni Ferðamálastofu, að stöðva starfsemina án fyrirvara eða aðvörunar, þar á meðal með lokun starfsstöðvar og lokun vefs.

Ferðamálastofu er jafnframt heimilt að leggja dagsektir á aðila sem uppfylla ekki kröfur laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun sem varða tryggingarskyldu og á þá sem stunda leyfisskylda starfsemi án tilskilins leyfis, samanber það sem sagt er hér á undan.

Hverju er hægt að beina til Ferðamálastofu?

Loks má geta þess að algengur misskilningur er að Ferðamálastofa geti leyst úr öllum þeim athugasemdum sem snúa að ferðaþjónustu. Ferðamálastofa hefur hins vegar ekki möguleika á að leysa úr kvörtunum fólks, nema að því leyti sem þær snúa að leyfisveitingum, t.d. kvörtun sem berst vegna þess að ferðaþjónustuaðili er ekki með leyfi, uppfyllir ekki lengur skilyrði leyfis eða fer út fyrir mörk leyfis, s.s. ferðasali dagsferða selur alferð, en einungis þeir sem eru með ferðaskrifstofuleyfi hafa heimild til að selja slíkar ferðir. Til að auðvelda fólki að beina málum sínum til réttra aðila höfum við á vef okkar tekið saman smá yfirlit um hvert er hægt að snúa sér.
https://www.ferdamalastofa.is/is/studningur/kvartanir-og-abendingar