Fara í efni

Ferðamálastjóri skyggnist undir yfirborðið

Silfra1
Silfra1

Segja má Ólöf Ýrr Atladóttir hafi síðastliðinn laugardag skyggnst undir yfirborð íslenskrar ferðaþjónustu í fleiri en einum skilningi þegar hún kafaði í Silfru á Þingvöllum. Þannig kynnti hún sér þennan þátt ferðaþjónustunnar sem eru skipulagðar köfunarferðir um leið og hún upplifði þá undraveröld sem leynist í djúpinu.

Gjáin Silfra er heimsfræg meðal áhugamanna um köfun, skyggnið talið óviðjafnanlegt og upplifunin einstæð. Hafa myndir úr henni m.a. prýtt forsíðu Times. ?Þessi dagur var ógleymanlegur. Kvíðablandinn kuldinn áður en farið var út í vatnið, afslappandi þægindin þegar komið var ofan í og furðan yfir því að þriggja stiga hitinn var ekkert kaldur,? segir Ólöf Ýrr. Þá hafi verið einstakt að upplifa víðáttuna í djúpinu, landslagið, hamraveggina og hversu lítil mannskepnan sé í samanburði þrátt fyrir allar græjurnar. ?Birtan og skyggnið er nánast af öðrum heimi; blámi vatnsins sem dýpkaði eftir því sem neðar kom, haglélið sem buldi á yfirborðinu og bjó til stjörnublik hið neðra og hvernig sólin lék sér í vatninu,? segir Ólöf.

Vel að málum staðið
Ferðin var farin á vegum fyrirtækisins dive.is. ?Það vakti athygli hversu margir sóttu gjána heim þennan frekar hráslagalega laugardag í byrjun apríl. Mér taldist til milli 15 og 20 manns að leiðsögumönnum meðtöldum frá þremur fyrirtækjum. Mér fannst vel er staðið að málum, þrátt fyrir að ákveðnar áhyggjur hafi kviknað af göngustígamálum. Það er erfitt að bera 40 aukakíló í leðjunni og freistandi að leita að þurrum hjáleiðum. Annars er þessi afþreying þess eðlis að hún þarf alls ekki að skilja eftir óæskilegar menjar, síður en svo, enda sér vatnið um að koma umhverfinu í samt lag eftir heimsóknir gesta í undirdjúpin,? segir Ólöf.


Ferðamálastjóri á mótum tveggja heimsálfa.


Ævintýraveröld undir vatnsborðinu.


Litirnir og litbrigðin eru margskonar.