Fara í efni

Ferðamálastefna Reykjavíkurborgar 2004-2010 kynnt

Stefna Reykjavíkurborgar í ferðamálum næstu sex ár er kynnt í nýju riti Höfuðborgarstofu undir heitinu Ferðamannaborgin Reykjavík. Um er að ræða afrakstur stefnumótunarvinnu sem hófst árið 2002 þar sem leitað var til hátt á annað hundrað aðila, sem tengjast ferðaþjónustu með afar fjölbreyttum hætti. Meginstoðir ferðamálastefnunnar eru náttúra, ráðstefnuhald og menning og stefnumótunin endurspeglar þessi meginmarkmið.

Níu hópar sinntu afmörkuðum viðfangsefnum en haft var að leiðarljósi að Reykjavík eflist sem höfuðborg Íslands í alþjóðlegri samkeppni á sviði ferðamála og að sérstaða hennar sem hreinnar og nútímalegrar menningarborgar í nábýli við einstæða náttúru verði þekkt og virt. Fram kemur í stefnumótuninni að fjölmörg tækifæri gefast til að efla ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu en markmiðið er að Reykjavík verði eftirsóttur áfangastaður allt árið um kring og rennt verði styrkari stoðum undir fjölbreytt atvinnulíf og menningarstarf í tengslum við ferðaþjónustu á Íslandi. Áhersla er lögð á mikla uppbyggingu innviða borgarinnar, s.s. með því að reisa tónlistar- og ráðstefnuhús með hóteli við Austurhöfn. Þá er áformað að stórbæta aðstöðu fyrir skemmtiferðaskip og bæta merkingar og samgöngur. Jafnframt er yfirlýst markmið að nýta betur hreinleika landsins og heita vatnið í Reykjavík, gera borgina að skiptihöfn fyrir skemmtiferðaskip og gera íslenska menningu sýnilegri.

Helstu markhópar nýrrar ferðamálastefnu eru áhugasamir ferðamenn sem hafa heimsótt helstu borgir Evrópu og leita nýrra og spennandi áfangastaða, ungir eldhugar í leit að ævintýrum og óvenjulegri reynslu og fyrirtæki sem leita að kraftmiklum og uppörvandi stöðum til að halda viðskipta- og starfsmannafundi.

Mælanleg markmið
Meðal mælanlegra markmiða í ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar er að erlendum ferðamönnum fjölgi um 7% árlega og að þeir verði orðnir um hálf milljón árið 2010. Þá er stefnt að því að dvalartími ferðamanna í Reykjavík lengist á tímabilinu og að þeim fjölgi hlutfallslega meira á lágannatíma, meðalnýting á hótelum í Reykjavík verði ekki undir 70% í lok tímabilsins, að farþegum skemmtiferðaskipa fjölgi um 7% árlega og afkoma fyrirtækja í ferðaþjónustu batni. Einnig er stefnt að því að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu aukist um 10% á ári og verði orðnar 65,5 milljarðar árið 2010. Síðast en ekki síst er stefnt að því að meira en 80% erlendra ferðamanna verði ánægð með dvölina í Reykjavík.

"PURE ENERGY"
Slagorðið "PURE ENERGY" fékk mestan hljómgrunn í samráði við erlenda samstarfsaðila. Slagorðið vísar til þeirrar hreinu orku sem býr í Reykjavík í fleiri en einni merkingu. Það vísar til náttúru, menningar, sköpunarkrafts, atorkusemi, nýsköpunar, vatns, matar og lífsgæða. Það þykir hæfa ungri borg sem býður sterka upplifun og kraftmikla afþreyingu. Einnig þótti afgerandi kostur við slagorðið að það er auðþýtt á flest þau tungumál sem töluð eru á mikilvægustu markaðssvæðum Reykjavíkur. Vörumerkið leggur áherslu á nafn borgarinnar sem sett er undir græna vonarstjörnu. Litirnir tákna vatn og jörð og styrkja tengslin við íslenska náttúru.

Skiptist í fimm áherslukafla og 40 verkefni
Verkefnaskrá stefnumótunarinnar skiptist í fimm áherslukafla og 40 verkefni sem unnið verður að á næstu sex árum.

Áherslukaflarnir eru:

  • innviðir og markaðsmál
  • menningarborgin/miðborg
  • heilsuborgin/nábýli við náttúru
  • ráðstefnu- og verslunarborgin
  • hafnarborgin og samgöngur

Verkefnin eru m.a. fólgin í að stefna að titlinum "Hreinasta höfuðborg Evrópu", stórbæta aðstöðu skemmtiferðaskipa með nýjum viðlegukanti við Sæbraut, kanna möguleika á að koma upp heilsulóni og ferðaþjónustu á Hellisheiði og setja upp Parísarhjól í Laugardal í tengslum við þróun gæðaafþreyingar fyrir fjölskyldur. Fleiri verkefni tengjast Laugardalnum sem verður miðstöð heilsutengdrar ferðaþjónustu í höfuðborginni.

Bygging tónlistar- og ráðstefnuhúss í Austurhöfninni er eitt stærsta verkefnið og einstaka fjárfestingin sem framundan er í ferðaþjónustu í Reykjavík. Með tilkomu hússins og tengds hágæðahótels mun Reykjavík komast endanlega á kortið sem afar spennandi ráðstefnuborg og vettvangur menningarlegra stórviðburða sem laða að alþjóðlega gesti, segir m.a. í frétt frá Reykjavíkurborg.

Erlendir gestir ánægðir með borgina
Við sama tækifæri og ferðamáalstefnan var kynnt var greint frá niðurstöðum viðhorfskönnunar sem Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar gerði fyrir Höfuðborgarstofu meðal 1557 erlendra ferðamanna sem fóru frá Leifsstöð á tímabilinu janúar til apríl á þessu ári.

Samkvæmt könnuninni er reynsla erlendra gesta af Reykjavík mjög jákvæð en 93% sögðu hana frábæra borg eða góða en einungis 7% sögðu hana sæmilega. Spurt var sérstaklega um afþreyingu í Reykjavík. Tæplega helmingur sagðist hafa farið í búðir, 43% fóru í dagsferð frá Reykjavík, 42% kynntu sér næturlífið og 37% fóru í sund, 23% heimsóttu söfn eða sýningar. Rúmur fimmtungur fór í heilsurækt, 14% fóru í strætó og 10% sóttu listviðburði. Sjá nánar á reykjavik.is