Fara í efni

Ferðamálaráð, UMFÍ og Landmælingar sameinast um smíði gagnagrunns og heimasíðu um gönguleiðir

Ferðamálaráð Íslands, Ungmennafélag Íslands og Landmælingar Íslands undirrituðu í dag samstarfssamning um gerð og rekstur gagnagrunns um gönguleiðir á Íslandi. Grunnurinn verður aðgengilegur almenningi á sérstakri heimasíðu.

Stefnt er að því að opna heimasíðuna 1. maí næstkomandi og þá verði þar að finna upplýsingar um a.m.k. 500 gönguleiðir, ásamt upplýsingum er tengjast slíkum ferðalögum hér á landi. Fleiri leiðir munu svo bætast við í framtíðinni.

Merktar leiðir sem ómerktar
Gönguleiðir eru skilgreindar í þessu verkefni sem leiðir er tekur a.m.k. tvær klukkustundir að ganga. Þessar leiðir geta verið merktar sem ómerktar en markmið verkefnisins er að stuðla enn frekar að uppbyggingu gönguleiða á Íslandi og aðgengi að þeim, sem og hvetja fólk til að ganga um landið og kynnast því á þennan heilsusamlega hátt.

Upplýsingar aðgengilegar almenningi á einum stað
Mikil vakning hefur átt sér stað hér á landi undanfarin ár gagnvart útivist af þessu tagi, bæði stuttum heilsubótargönguferðum og skipulögðum nokkurra daga ferðum. Hafa ferðafélög og áhugahópar um gönguleiðir víðs vegar um landið unnið mjög gott starf, t.d. við gerð göngukorta, vefsíðna og merkingu gönguleiða. Ætlunin með þessu verkefni er að þær upplýsingar sem nú þegar eru til verði aðgengilegar almenningi á einum stað.  Er það von aðstandenda verkefnisins að upplýsingarnar muni nýtast sem flestum er hyggja á ferðalög og útivist og efli um leið enn frekar þessa tegund afþreyingar í íslenskri ferðaþjónustu.

Göngum um Ísland
Verkefni þetta er framhald af verkefni sem Ungmennafélag Íslands fór af stað með árið 2002, með styrk frá Heilbrigðisráðuneytinu, þess efnis að fá fólk til að ganga reglulega sér til heilsubótar sem og til að fá ferðafólk til að staldra við á ferðum sínum um landið og fara í stuttar gönguferðir. Afrakstur þess átaks er handbókin Göngum um Ísland sem verður endurútgefin á sumri komanda og mun þá hafa að geyma lýsingar á yfir 300 merktum gönguleiðum víðsvegar um landið, sem eru að jafnaði hálftíma til tveggja tíma ganga og því tilvaldar fjölskylduleiðir. Upplýsingar úr bókinni eru aðgengilegar á áðurnefndri vefslóð.


Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritun samningsins í dag: Talið frá
vinstri: Sæmundur Runólfsson, framkvæmdastjóri UMFÍ; Björn Jónsson,
formaður UMFÍ; Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands;
Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs og Magnús Oddsson
ferðamálastjóri.