Fara í efni

Ferðakaupstefnan IcelandTravelWorkshop - ITW

Þverbrekkuhnjúkur í Öxnadal - Mynd: HA
Þverbrekkuhnjúkur í Öxnadal - Mynd: HA

IcelandReps, nýstofnað ráðgjafa- og þjónustufyrirtæki í ferðaþjónustu, heldur ferðakaupstefnu í maí næstkomandi, í samstarfi við Íslandsbanka, Keflavíkurflugvöll, Radisson Blu Hótel Sögu og Opna háskólann í HR.

Ferðakaupstefnan heitir IcelandTravelWorkshop - ITW og verður haldin á Radisson Blu Hótel Sögu helgina 16. og 17. maí 2013.

Öllum flugfélögum og skemmtiferðaskipum sem fljúga eða sigla til og frá landinu verður sérstaklega boðið, segir í tilkynningu. Markmiðið með kaupstefnunni er að íslenskir ferðaþjónustuaðilar geti kynnt vörur sínar og þjónustu fyrir flugfélögum og öðrum erlendum ferðaþjónustuaðilum sem bjóða uppá ferðir til Íslands. Með því standa vonir til að auka enn frekari viðskipti sem snúa að íslenskri ferðaþjónustu.

Pallborðsumræður verða á ferðakaupstefnunni og munu þær fjalla um:

1) Framtíðarsýn erlendra flugfélaga á flugsamgöngur og ferðaþjónustu til Íslands

2) Gæði, fagmennsku og umhverfisvitund íslenskrar ferðaþjónustu og 3) Svæðisbundna ferðaþjónustu á Íslandi, þróun og framtíðarsýn.

Nýjung í formi hvatningarverðlauna fyrir íslenska ferðaþjónustuaðila verða kynnt samhliða ferðakaupstefnunni og verðlaun verða veitt í lok ferðakaupstefnunnar. Hvatningarverðlaunin verða í boði Íslandsbanka.

Ferðakaupstefnan verður með því sniði að hægt verður að bókfundi fyrirfram, en hver og einn fundur er áætlaður að vara í um 15 mínútur.

Nánari upplýsingar er að finna á: www.icelandtravelworkshop.com