Fara í efni

Farfuglaheimilið Loft fær Svansvottun

Sigríður Ólafsdóttir í miðið með Sigurði Inga Jóhannssyni ráðherra og Evu R Jónsdóttur frá Svaninum.
Sigríður Ólafsdóttir í miðið með Sigurði Inga Jóhannssyni ráðherra og Evu R Jónsdóttur frá Svaninum.

Farfuglaheimilið Loft í Reykjavík hefur fengið afhenta vottun norræna umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum.

Strangar kröfur Svansins tryggja að starfsemi farfuglaheimilisins er í fremstu röð hvað varðar lágmörkun neikvæðra umhverfis- og heilsuáhrifa, segir í frétt frá Farfuglum, samtökum farfuglaheimila. Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, veitti vottunina við hátíðlega athöfn á Loft síðastliðinn föstudag.

Um Loft

Loft er nýtt farfuglaheimili í Bankastræti 7 með gistirými fyrir allt að 100 gesti í
2-8 manna herbergjum með baði. Loft er á þremur efstu hæðunum í gamla Samvinnubankahúsinu og af svölunum er einstakt útsýni yfir miðborgina. Á efstu hæðinni er bar og kaffihús opið alla daga.

Ein af meginforsendum trausts reksturs

„Fyrir Farfugla er Norræna umhverfisvottunin ein af meginforsendum trausts reksturs til framtíðar. Loft var hannað með það að leiðarljósi að uppfylla þarfir nútíma ferðamannsins og hlutverk samtakanna, sem er að tengja fólk saman í kringum umræðu, menningu og umhyggju. Svansvottunin í dag og viðbrögð gestanna okkar fyrstu mánuðina vísa til þess að okkur hafi tekist það,” segir Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri Lofts.