Fara í efni

Evrópsk ferðaþjónusta áfram á uppleið en áskoranir bíða

Evrópsk ferðaþjónusta áfram á uppleið en áskoranir bíða

Ferðamálaráð Evrópu (ETC) var að birta 4. ársfjórðungsskýrslu sína fyrir árið 2023 (Q4) um stöðu og horfur í ferðamálum álfunnar. Þar er kafað ofan í frammistöðu ferðaþjónustu í Evrópu á síðustu mánuðum ársins 2023 og spáð í spilin fyrir árið 2024. Skýrslan hefur einnig að geyma sérstakan kafla um horfur í endurkomu kínverskra ferðamanna til Evrópu, sem og þróunina frá öðrum fjærmörkuðum.

Megin tilgangur ársfjórðungsskýrslna ETC hefur verið að fylgjast með og greina endurreisn ferðaþjónustu í Evrópu í kjölfar Covid. Greiningunum er þannig ætlað að styðja áfangastaði, stjórnendur og starfsfólk í að fylgjast með þróuninni og búa sig undir það sem er í vændum og er vert að hvetja fólk til að kynna sér skýrslur ETC, sem innihalda mikið af áhugaverðum upplýsingum.

Vöxtur í suðrinu

Þegar á heildina er litið hélt bati evrópskrar ferðaþjónustu áfram síðustu mánuði ársins 2023. Ferðamannafjöldinn er 2% undir því sem var 2019 og fleiri lönd en áður sýna jákvæða þróun. Meðal þeirra landa sem sjá mesta aukningu miðað við árið 2019 eru margir áfangastaðir í Suður-Evrópu, þar á meðal Portúgal (+11%), Svartfjallaland (+10%), Tyrkland (+9%) og Malta (+8%). ETC bendir á að þetta eru vinsælir áfangastaðir fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir verðhækkunum, þ.e. leitast eftir hagkvæmum ferðum með öllu inniföldu. Þessir áfangastaðir nutu einnig góðs af góðri veðráttu síðustu mánuði ársins. Serbía er einnig dæmi um land þar sem fölgaði talsvert sem ETC skýrir með verulega auknu framboði í beinu flugi.

Ísland á góðu róli

Þar fyrir utan er síðan Ísland tekið sérstaklega sem dæmi um áfangastað sem náð hefur vopnum sínum aftur í kjölfar Covid og vel það, og það þrátt fyrir eldgos, eins og tekið er fram. Þá hefur Holland einnig náð athyglisverðum árangri í að fjölda gistinóttum á hvern ferðamann þ.e. að auka dvalarlengd.

Sem fyrr eru það einkum lönd með landamæri að Rússlandi sem enn eiga langt í land með að ná sama gangi í ferðaþjónustu og var fyrir Covid.

Ýmsar áskoranir bíða

Verðbólguþrýstingur hefur verið meginþáttur í að draga úr ferðaeftirspurn að mati ETC. Verð á ferðatengdum vörum eins og millilandaflugi, pakkaferðum og hótelum var allt meira en 30% hærra en fyrir heimsfaraldurinn. Verðbólga í álfunni var þó almennt á niðurleið á fjórða ársfjórðungi 2023, sem ætti að virka hvetjandi. Á móti kemur að þættir á borð við verkföll og yfirstandandi stríð muni halda áfram að hafa neikvæð áhrif á ferðir fólks frá bæði innan Evrópu og milli heimsálfa.

ETC bendir á að nú þegar ferðamennska í Evrópu er sem óðast að komast á svipaðan stað og fyrir Covid, verður sífellt mikilvægara að fylgjast með ferðamynstri og hegðun ferðalanga, sem og ýmsum mælikvörðum. Á það jafnt við um efnahagsleg áhrif en einnig félagslega þætti á borð við viðhorf heimafólks og sanngjarna skiptingu verðmæta. Þannig studdu aukin umsvif ferðaþjónustu á árinu vissulega með jákvæðum hætti við hagkerfi landa álfunnar en á móti kviknuðu á ný áhyggjur og fleiri raddir sem benda á vandamál tengd offjölgun og massatúrisma.

Hvað með Kína?

Þegar horft er til fjærmarkaða þá hefur N-Ameríkumarkaður náð sér vel á strik, líkt og sjá má meðal annars í komum bandarískra ferðamanna til Íslands. Sama er ekki að segja um Kína en fyrir Covid voru komur Kínverja til Evrópu 13% af heildarfjöldanum frá öllum færmörkuðum. Batinn hefur verið hægur en stöðugur síðan landið opnaði landamæri sín að fullu en greiningaraðilar áætla að komur Kínverja hafi í fyrra verið um 67% færri en árið 2019. Kemur þar m.a. til skortur í framboði í flugi og áhættufælni Kínverja, sem hallað hafa sér í auknu mæli að ferðalögum innanlands.

Í mati ETC kemur fram að áfangastaðir í Evrópu geti búist við að talsverðri fjölgun frá Kína á yfirstandandi ári. Mögulega með öðru ferðamynstri en áður með ákveðnum kynslóðaskiptum og vaxandi áhrifum samfélagsmiðla sem leitt geti til þess að ferðamenn frá Kína muni fara sér hægar og sækja í fyllri ferðaupplifun, í stað hópferða sem hafa verið nokkuð ráðandi.

Skýrslan í heild

Skýrsluna í heild má nálgast hér að neðan.

EUROPEAN TOURISM: TRENDS & PROSPECTS - Quarterly report (Q4/2023)