Fara í efni

Eliza Reid sendiherra ferðamála og sjálfbærrar þróunar

Eliza Reid og Taleb Rifai á ráðstefnunni í Muscat, höfuðborg Ómans, í gær.
Eliza Reid og Taleb Rifai á ráðstefnunni í Muscat, höfuðborg Ómans, í gær.

Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna, Alþjóða ferðamálastofnunin (UNWTO), hefur tilnefnt frú Elizu Jean Reid, forsetafrú, sérstakan sendiherra ferðaþjónustu og markmiða sjálfbærrar þróunar. Tilnefningin kemur í framhaldi af heimsókn Taleb Rifai, aðalritara UNWTO, hingað til lands í boði Ferðamálastofu í október síðastliðnum.

Markmið sjálfbærrar þróunar verði innleidd að fullu

Tilkynnt var um tilnefninguna á annarri heimsráðstefnu UNWTO og UNESCO um ferðaþjónustu og menningu sem haldin var í Muscat, höfuðborg Ómans, í gær og fyrradag. Verkefni sérstakra sendiherra ferðaþjónustu og sjálfbærrar þróunar var komið á fót af UNWTO í tilefni af alþjóðlegu ári ferðaþjónustu og sjálfbærrar þróunar 2017. Markmiðið er að tala fyrir framlagi ferðaþjónustu til sjálfbærrar þróunar og hvetja til þess að ferðaþjónusta og markmið sjálfbærrar þróunar verið innleidd að fullu í áætlanir þjóðlanda og svæða sem og áætlanir á heimsvísu.

Aflvaki friðar, vináttu og gagnkvæms skilnings

Í erindi sínu á ráðstefnunni lagði frú Eliza Jean Reid áherslu á hversu mikið sjálfbær ferðaþjónusta getur lagt af mörkum til friðar og sátta. „Það er sterk, jákvæð fylgni milli ferðaþjónustu og friðar. Sjálf tilvist ferðaþjónustu grundvallast á friði og öryggi. Vegna þeirra milliliðalausu samskipta milli fólks frá ólíkum menningarheimum og af ólíkum uppruna sem ferðaþjónusta hefur í för með sér, er hún aflvaki friðar, vináttu og gagnkvæms skilnings meðal þjóða heims,“ sagði Eliza.

„Það er bjargföst trú mín að sjálfbær ferðaþjónusta geti lagt mikið af mörkum til að draga úr ójöfnuði og auka umburðarlyndi. Mér er því sérstakur heiður að vera beðin um að vera sérstakur sendiherra ferðaþjónustu og markmiða sjálfbærrar þróunar,“ bætti hún við.

Ómetanlegur stuðningur

„Stuðningur frú Elizu við þá viðleitni okkar að auka sjálfbærni ferðaþjónustu og efla framlag okkar til allra 17 markmiðanna um sjálfbæra þróun, verður án efa ómetanlegur. Frú Eliza persónugerir einlægan ásetnings Íslands til að vinna að sjálfbærri þróun ferðaþjónustu,“ sagði Taleb Rifai, aðalritari UNWTO við þetta tilefni.

Taleb Rifai og Ólöf Ýrr Atladóttir

Taleb Rifai og Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri á Þingvöllum í haust, þegar sá fyrrnefndi kom í heimsókn til Íslands í boði Ferðamálastofu.