Fara í efni

Ekki ástæða til stórbreytinga á fyrirkomulagi Vestnorden Travel Mart

Vestnorden20043
Vestnorden20043

Á síðasta vetri var unnin könnun fyrir Ferðamálaráð Vestnorden (VNTB) varðandi viðhorf kaupenda og seljenda til Vestnorden Travel Mart, sem nú hefur verið haldinn í 20 ár samfellt. Helstu niðurstöður voru kynntar í frétt á vef Ferðamálastofu í janúar síðastliðnum.

Könnunin var unnin af fyrirtækinu HS Analyse. Svör bárust frá 223 aðilum sem hafa tekið þátt í kaupstefnunni. Niðurstöður voru ræddar á stjórnarfundi í Ferðamálaráði Vestnorden í Kaupmannahöfn nú í maí.

Kanna viðhorf viðskiptavinanna
Magnús Odddson, formaður Vestnorden ferðamálaráðsins, segir að ástæða þess að ákveðið var að fara í viðamikla könnun vegna VNTM hafi verið sú að fá fyrst og fremst fram viðhorf kaupenda til framtíðar kaupstefnunnar en einnig viðhorf seljenda. ?Kaupstefnan var í upphafi hugsuð fyrir kaupendur til að þeir fengju tækifæri á sama tíma á einum stað til að hitta seljendur í ferðaþjónustu þessara þriggja landa. Við vildum nú eftir 20 ár staldra við að velta upp öðrum möguleikum og til þess vildum við kanna rækilega viðhorf viðskiptavina okkar svo og seljenda til þess fyrirkomulags sem verið hefur og hvort ástæða væri til stórvægilegra breytinga,? sagði Magnús.

Helstu niðurstöður
Hvað varðar staðsetningu VNTM þá segjast 42% helst vilja hafa kaupstefnuna til skiptis í Kaupmannahöfn og Reykjavík, en 32% vilja að hún færist á milli landanna þriggja á sama hátt og verið hefur. Það vekur athygli að það eru seljendur sem vilja hér breytingu frekar en kaupendur. 47%. Kaupenda vilja halda núverandi fyrirkomulagi en 27% vilja Kaupmannahöfn/ Reykjavík. Þetta snýst við þegar seljendur eru spurðir þar sem 49% seljenda vilja að VNTM sé til skiptis í Kaupmannahöfn og Reykjavík, en 25% þeirra núverandi fyrirkomulag.

Þegar spurt er um tímasetningu þá er september langvinsælastur, en 39% vilja VNTM þá. Næst er maímánuður með 16%.

70% svarenda vilja halda núverandi fyrirkomulagi hvað varðar viðtöl á milli kaupenda og seljenda, en 16% vilja breyta VNTM í ?workshop?.

Þegar spurt er um æskilega lengd á VNTM þá svara um 90% því til að 1,5-2 dagar eins og nú er séu æskileg lengd.

Loks var spurt um kostnaðinn við þátttöku og eru 63% ánægðir með heildarkostnaðinn við þátttöku, 55% kaupenda og 68% seljenda.

?Þessar niðurstöður vöktu við fyrstu sýn þau viðbrögð í stjórninni að ekki sé mikil ástæða til byltingar hvað varðar fyrirkomulag VNTM, þó auðvitað verði farið betur yfir svörin hvað varðar einstaka þætti í þeim tilgangi að bæta framkvæmd VNTM til framtíðar og þá fyrst og fremst með viðhorf viðskiptavina okkar, kaupendanna, í huga segir Magnús Oddsson formaður VNTB.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Vestnorden var síðast hér á landi haustið 2004.