Fara í efni

Breytingar á lögum um skipan ferðamála

Akureyri
Akureyri

Þann 25. mars síðastliðinn samþykkti Alþingi breytingar á lögum nr. 73/2005 um skipan ferðamála. Breytingarnar lúta að 9. og 18. grein laganna.

Í fyrsta lagi lúta breytingarnar að því að nú er búseta umsækjanda um ferðaskipuleggjenda og ferðaskrifstofuleyfi skv. 9. gr. ekki lengur bundin við Ísland heldur geta umsækjendur um leyfi haft búsetu innan aðildarríka Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

Í öðru lagi lúta breytingarnar framlagningu gagna vegna ákvörðunar um tryggingarfjárhæðir ferðaskrifstofa. Í stað þess að ferðaskrifstofur leggi fram endurskoðaðan ársreikning þá dugar núna að leggja fram áritaðan ársreikning skv. lögum nr. 3/2006 um ársreikninga.
Öllum ferðaskrifstofum ber skylda til að hafa tryggingu fyrir endurgreiðslu fjár sem viðskiptavinur hefur greitt vegna alferðar sem enn er ófarin og til heimflutnings viðskiptavinar úr alferð, hvort sem hann er innan lands eða erlendis, komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofur. Trygging skal einnig ná til þess að gera viðskiptavini kleift að ljúka alferð í samræmi við upphaflega áætlun hennar.
 
Í þriðja lagi er Ferðamálastofu nú heimilt en ekki skylt að leita umsagnar endurskoðanda við mat á því hvort þörf sé á breytingu á tryggingarfjárhæð ferðaskrifstofa.

Í fjórða lagi þarf ekki lengur að leggja fram staðfestingu endurskoðanda um að áætlanir um rekstur ferðaskrifstofu séu réttar miðað við gefnar forsendur þegar sótt er um ferðaskrifstofuleyfi.