Fara í efni

244 milljónum úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Frá Skaftafelli
Frá Skaftafelli

Tilkynnt hefur verið um úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2014. Að þessu sinni fengu 50 verkefni styrk fyrir samtals rúmar 244 milljónir króna til hönnunar og framkvæmda á ferðamannastöðum.

Hæsti styrkur til framkvæmda í Skaftafelli

Sem fyrr eru verkefnin fjölbreytt og dreifast víða um land. Hæsta styrkinn hlýtur Vatnajökulsþjóðgarður, 29,7 milljónir króna, vegna framkvæmda í Skaftafelli. Þar verður m.a. byggt við núverandi aðstöðu en framkvæmdirnar hafa að markmiði að stótbæta þjónustu við ferðafólk.

Sjö önnur verkefni fá 10 milljóna króna styrk eða hærri:

• Þingeyjarsveit vegna endurbóta við Goðafoss, 15 milljónir kr
• Umhverfisstofnun fyrir salernisaðstöðu við Hverfjall í Mývatnssveit 13,8 milljónir kr
• Vatnajökulsþjóðgarður vegna uppbyggingar við Langasjó 13,3 milljónir kr
• Djúpavogshreppur vegna deiliskipulags o.fl. við Teigarhorn 11,6 milljónir kr
• Umhverfisstofnun vegna framkvæmda við nýjan stiga við Gullfoss 10,1 milljón kr
• Skaftárhreppur vegna áningarstaðar í Eldhrauni 10 milljónir kr
• Minjastofnun Íslands vegna uppbyggingar á Stöng í Þjórsárdal 10 milljónir kr

Sótt um fyrir 848 milljónir

Umsóknarfrestur um styrki rann út í lok janúar og bárust alls 136 umsóknir frá opinberum- og einkaaðilum sem hafa umsjón með ferðamannastöðum víðsvegar um land. Heildarupphæð styrksumsókna var voru rúmar 848 milljónir króna en heildarkostnaður við verkefnin er áætlaður 1,9 milljarðar króna.

Verulegur árangur náðst

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er nú á sínu þriðja starfsári og hefur frá upphafi úthlutað rúmlega 200 styrkjum að upphæð tæplega 850 milljónir króna. Björn Jóhannsson, umhverfisstjóri Ferðamálastofu, segir ánægjulegt að sjá afraksturinn sem orðin er af starfi sjóðsins. „Við erum að sjá fjölmörg spennandi verkefni víða um land verða að veruleika fyrir tilstuðlan þess fjármagns sem sjóðurinn hefur úthlutað og þótt ljóst sé að enn sé víða þörf á úrbótum þá getum við engu að síður horft stolt á þann árangur sem þegar hefur náðst,“ segir Björn