Fara í efni

131 fyrirtæki hafa sótt um leyfi til reksturs hjá Ferðamálastofu

Ferðaskrifstofa - lógó
Ferðaskrifstofa - lógó

Með nýjum lögum um skipulag ferðamála, sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn, var Ferðamálastofu falin útgáfa leyfa til reksturs ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda auk eftirlits með umræddri starfsemi. Nú hafa 131 fyrirtæki sótt um leyfi til Ferðamálastofu, 107 þeirra hafa fengið jákvæða afgreiðslu og 81 leyfi hefur verið gefið út.

Til reksturs ferðaskrifstofa hafa 46 leyfi verið gefin út, 23 umsóknir hafa verið afgreiddar jákvætt en beðið er greiðslu og trygginga. Loks eru 22 umsóknir um leyfi til reksturs ferðaskrifstofa í vinnslu. Hvað varðar ferðaskipuleggjendur þá hafa 35 leyfi verið gefin út, 3 umsóknir til viðbótar afgreiddar jákvætt og 2 umsóknir í vinnslu.

Meiri áhersla á lögbundið eftirlit með rekstri
Stofnunin hefur á undanförnum mánuðum haft samband við fjölmarga aðila sem  stunda rekstur sem gæti verið leyfisskyldur samkvæmt ákvæðum umræddra laga. Hafa ýmsir þessara aðila í kjölfar þess sótt um leyfi fyrir sínum rekstri. Magnús Oddsson ferðamálastjóri segir að nú þegar rúmlega 130 fyrirtæki hafi sótt um leyfi til umrædds reksturs sem sé að hans mati verulegur meirihluti fyrirtækja sem sé í slíkri starfsemi þá muni stofnunin leggja mun meiri áhersla á næstunni á lögbundið eftirlit með rekstri og að tryggja að eingöngu aðilar með tilskilin leyfi stundi umræddan atvinnurekstur enda sé það mikilvægt með tilliti til þeirrar neytendaverndar sem lögunum sé ætlað að tryggja.

Sýnileiki gagnvart neytendum
Samkvæmt lögunum skulu ferðaskrifstofur með leyfi Ferðamálastofu til reksturs nota sérstakt auðkenni í öllu útgefnu efni og auglýsingum þar sem neytendum er boðin þjónusta viðkomandi fyrirtækis. Þessi auðkenni hafa allir leyfishafar fengið og neytendur eru nú þegar farnir að sjá þau í auglýsingum ferðaskrifstofa. Þessi auðkenni, sem sjá má sýnishorn af hér að ofan, eru trygging neytenda fyrir því að umræddur aðili hefur tilskilin leyfi og hefur lagt fram tryggingar hjá Ferðamálastofu í samræmi við ákvæði laga þar um.