Fara í efni

Hreint og öruggt / Clean & safe

Búast má við að Covid – 19 muni breyta ferðavenjum og þörfum fólks með öðrum áherslum og breyttu viðhorfi. Væntanlega verða ný viðmið, ný gildi og aðrar kröfur.

Mikilvægt er að ferðaþjónustan taki mið af þessu og að ferðaþjónustuaðilar séu tilbúnir að taka á móti viðskiptavinum á öruggan og ábyrgan hátt. Ísland þarf áfram að vera eftirsóknarverður, ákjósanlegur og öruggur áfangastaður.

Hreint og öruggt / Clean & Safe

safe travels merki

Ferðamálastofa hefur sett af stað verkefni sem byggir á erlendri fyrirmynd og ber heitið Hreint og öruggt / Clean & Safe. Verkefninu er ætlað að hjálpa ferðaþjónustuaðilum að taka á ábyrgan hátt á móti viðskiptavinum sínum þannig að þeir upplifi sig örugga um leið og þeir skapa góðar minningar.

  • Verkefnið, sem er sjálfsmat, byggir á trausti og á vilja ferðaþjónustuaðila til að sýna ábyrgð í verki til að ferðamenn upplifi sig örugga.
  • Verkefninu er ætlað að auka trúverðugleika greinarinnar og vera verkfæri ferðaþjónustuaðila til að sýna með áþreifanlegum hætti að okkur er umhugað um gesti okkar og að áfangastaðurinn Ísland er öruggur heim að sækja.
  • Hér gildir samtakamátturinn. Því fleiri fyrirtæki sem taka þátt því sterkari skilaboð sendum við.
  • Sýnum að Ísland er tilbúið að taka á móti gestum sínum af fagmennsku og ábyrgð!

Verkefnið hefur verið samþykkt af heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaganna og World Travel and Tourism Council.

Öll ferðaþjónustufyrirtæki sem skráð eru í gagnagrunn Ferðamálastofu um ferðaþjónustuaðila geta tekið þátt í verkefninu.  

Hvað þarf að gera?

  1. Fylla þarf út sjálfsmat (gátlista) um þrif og sóttvarnir og hafa fyrirtæki fengið sendan tölvupóst með sérstökum hlekk til að fylla út sjálfsmatið.
  2. Áður en að sjálfsmatið er fyllt út er mikilvægt að kynna sér sjálfsmatiðfara efnislega vel yfir atriði þess og gera þær ráðstafanir sem þarf innan fyrirtækisins.
  3. Samþykkja þarf skilmála verkefnisins. 
  4. Þegar útfyllingu er lokið fær fyrirtækið sjálfkrafa aðgang að merki verkefnisins. Birting þess, t.d. á vef fyrirtækisins, er yfirlýsing eða loforð til viðskiptavina um að þrifum og sóttvörnum í fyrirtækinu sé sinnt af samviskusemi og af ábyrgð og að farið sé eftir öllum gildandi leiðbeiningum íslenskra sóttvarnayfirvalda vegna Covid-19 faraldursins.
  5. Einnig fá þátttakendur skjalið Loforð til viðskiptavina / Pledge to our customers. Mælt er með því að settur sé hlekkur á merki Hreint og öruggt / Clean & Safe  sem vísar á skjalið á viðeigandi tungumáli.  
  6. Fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu eru auðkennd með merki Hreint og öruggt / Clean & Safe m.a. á www.ferdalag.is, www.visiticeland.com og á vefjum markaðsstofa landshlutanna.

Hver sér um eftirlit?

Tekið skal fram að verkefnið Hreint og öruggt / Clean & Safe er hvorki viðurkenning né vottun enda er um sjálfsmat að ræða og ekki eftirlit með því að fyrirtæki uppfylli viðeigandi kröfur.

Viðskiptavinir geta sent inn umsagnir til Ferðamálastofu um frammistöðu þátttökufyrirtækja varðandi þrif og sóttvarnir, vilji þeir hrósa fyrir það sem vel er gert eða benda á það sem betur má fara. Viðkomandi fyrirtæki fær sent afrit af umsögnum sem kunna að berast.

Hvað kostar að taka þátt?

Það kostar ekkert að taka þátt fyrir utan vinnu við eftirfarandi:

  • Að kynna sér sóttvarnarreglur yfirvalda vegna Covid-19 og leiðbeiningar um þrif og sóttvarnir.
  • Að fræða og leiðbeina starfsmönnum.
  • Að auka sóttvarnir, þrif og ráðstafanir sem gera þarf á hverjum stað.

Mig langar að taka þátt en hef ekki fengið póst

Öll fyrirtæki sem eru skráð í gagnagrunn Ferðamálastofu um ferðaþjónustuaðila hafa fengið sendan tölvupóst með upplýsingum og leiðbeiningum um verkefnið. Í þessum tölvupósti er einnig sérstakur hlekkur fyrir hvert og eitt fyrirtæki til að fylla út sjálfsmatið.  Ferðaþjónustufyrirtæki sem ekki eru skráð í gagnagrunninn geta sent póst á ferdalag@ferdamalastofa.is. Skráning í grunninn er ókeypis. 

Ef ferðaþjónustufyrirtæki er skráð í grunninn en telur sig ekki hafa fengið áðurnefndan tölvupóst er hægt að hafa samband í gegnum netfangið hreintogoruggt@ferdamalastofa.is. 

Hvernig á að nota merkið?

Fyrirtæki sem uppfylla kröfur sjálfsmatsins og hafa fyllt það út rafrænt fá aðgang að merkjum, loforði og öðru efni. Mikilvægt er að merkið sé sýnilegt fyrir viðskiptavini, m.a. á vefsíðu fyrirtækisins. Mælt er með því að settur sé hlekkur á merkið sem vísar á skjalið Loforð til viðskiptavina / Pledge to our customers. Merkið gildir til ársloka 2022. 

Nánari upplýsingar

Hægt er að fá nánari upplýsingar með því að senda póst á netfangið hreintogoruggt@ferdamalastofa.is

Kynningarfundur - Upptaka

Hér má nálgast upptöku frá kynningarfundi fyrir ferðaþjónustuaðila sem haldinn var 10. desember 2020.