Fara í efni

Áætlanir um fjölda ferðamanna á stöðum og dag hvern

Jökulsárlón
Jökulsárlón. Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson

Tvær spurningar sem gjarnan vakna snúa að því hversu margir ferðamenn heimsækja einstaka staði eða landssvæði og hversu margir erlendir ferðamenn eru staddir á landinu dag hvern. Ein aðferð sem hægt er að styðjast við til að svara þessu tvennu er að nota niðurstöður úr ferðavenjukönnunum Ferðamálastofu og bera saman við talningar á fjölda ferðamanna á Keflavíkurflugvelli.

Fjöldi á svæðum og stöðum

Kannanir Ferðamálastofu um ferðavenjur erlendra ferðamanna er skipt í sumar- og vetrargesti. Þar er spurt um heimsóknir til um 40 tiltekinna staða á landinu og er þannig hægt að sjá hversu stórt hlutfall svarenda segist hafa heimsótt þessa staði. Með því að bera niðurstöðurnar saman við fjölda ferðamanna á sama tímabili er hægt að fá áætlun um fjölda heimsókna til staðanna. Með sama hætti er hægt að áætla gróflega heimsóknir Íslendinga út frá niðurstöðum úr árlegri ferðavenjukönnun meðal þeirra.

Ýmsir fyrirvarar

Mikilvægt er að hafa í huga að þetta er ekki eiginleg talning heldur getur aðeins gefið grófa hugmynd um för fólks um landið. Útreikningar sem þessir eru háðir ýmsum óvissuþáttum og þarf því að varast að taka einstaka fjöldatölur of bókstaflega. Inn í fjöldatölum eru t.d. ekki ferðamenn sem koma um aðra millilandaflugvelli en Keflavík og ekki farþegar Norrænu. Þá eru farþegar skemmtiferðaskipa ekki í tölunum en þeir geta skapað tímabundið álag á vissum stöðum.

Í þessu sambandi er einnig vert að benda á rannsóknir dr. Rögnvaldar Ólafssonar og Gyðu Þórhallsdóttur þar sem þau hafa þróað aðferðir til að nota sjálfvirka bílateljara til að finna fjölda ferðamanna á stöðum.

Hvað eru margir staddir á landinu á degi hverjum?

Annað sígilt viðfangsefni er mat á fjölda ferðamanna sem staddur er á landinu dag hvern. Hér er með líkum hætti hægt að gera grófa áætlun með því að bera saman tölur um fjölda ferðamanna sem fara um Keflavíkurflugvöll í hverjum mánuði og meðal dvalarlengd samkvæmt ferðavenjukönnunum Ferðamálastofu . Útreikningur á fjölda ferðamanna er því þessi: Fjöldi í mánuði, margfaldaður með meðal dvalarlengd og deilt í útkomuna með dagafjölda í mánuði.

Líkt og með fjölda á stöðum þá eru óvissuþættir við svona útreikningana talsverðir og því skyldi forðast að taka tölurnar of bókstaflega heldur einungis hafa til viðmiðunar.

Nánari upplýsingar

Hér á vefnum er hægt að skoða niðurstöður miðað við framangreindar forsendur.