Fara í efni

Ný gögn um fjölda ferðamanna á fjölförnum áfangastöðum

Forsíða - Fjöldi ferðamanna á 8 stöðumÍ ársbyrjun 2014 samdi Ferðamálastofa við Háskóla Íslands um að rannsökuð yrðu þolmörk ferðamanna og fjöldi þeirra á fjölförnum áfangastöðunum á Suður- og Vesturlandi. Í nýrri skýrslu sem er hluti af verkefninu eru niðurstöður um mat á fjölda ferðamanna settar fram. Jafn umfangsmikil talning á gestum á áfangastöðum ferðamanna hefur aldrei verið framkvæmd hér á landi. Skýrslan ber heitið: Fjöldi ferðamanna á átta áfangastöðum á Suður- og Vesturlandi 2014 til 2015 og höfundar hennar eru dr. Rögnvaldur Ólafsson og Gyða Þórhallsdóttir. 

Tvíþætt verkefni

Ferðamálastofa fjármagnar verkefnið, sem er tvíþætt. Annars vegar að rannsaka þolmörk ferðamanna á áfangastöðunum og hins vegar að meta fjölda ferðamanna sem þangað koma. Það hefur að mestu verið rekið sem tvö aðskilin verkefni. Anna Dóra Sæþórsdóttir dósent við Háskóla Íslands annaðist þann verkþátt sem snéri að þolmörkum og viðhorfum ferðamanna. Rögnvaldur Ólafsson sá hins vegar um mat á fjölda ferðamanna. Áður hafa komið út tvær skýrslur sem tengjast verkefninu:

Áfangastaðirnir

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og Anna Dóra Sæþórsdóttir völdu hvaða áfangastaði skyldi skoða. Staðirnir sem voru valdir eru: Djúpalónssandur á Snæfellsnesi, Geysir í Haukadal, Hakið á Þingvöllum, Hraunfossar í Borgarfirði, Seltún í Krýsuvík, Húsadalur í Þórsmörk, Sólheimajökull og Jökulsárlón.

Ný aðferð við að meta fjölda ferðamanna

Fjöldamatið byggist á fyrri rannsóknum Rögnvalds Ólafssonar, höfundar skýrslunnar og aðferðum sem hafa verið þróaðar, bæði að Fjallabaki og í Vatnajökulsþjóðgarði og m.a. unnar í samvinnu við Regínu Hreinsdóttur þjóðgarðsvörð í Skaftafelli. Bifreiðar sem koma á staðinn voru taldar með sjálfvirkum teljara og á þremur mismunandi árstímum var talið út úr bifreiðum til að finna meðalfjölda fólks í bifreið. Á þann hátt var hægt að meta fjölda þeirra sem koma á áfangastaðina á tiltölulega áreiðanlegan hátt. Slíkt hefur ekki verið gert áður hér á landi. Aðferðafræði verkefnisins þróaðist mikið á þeim tíma sem rannsóknin fór fram og hér er nú komin aðferð til að fylgjast með dreifingu ferðamanna um landið á mismunandi árstímum.

Helstu niðurstöður

Í niðurstöðum skýrslunnar er gerð grein fyrir fjölda bifreiða og gesta á hverjum stað eftir tímabilum og mánuðum en einnig eftir tíma dags og vikudögum á Háönn og Hávetri. Að auki er gerður samanburður á milli staðanna og árstíðasveiflan á stöðunum greind.

Sem fyrr segir hefur aldrei áður verið gert svo umfangsmið mat á fjölda á gesta á áfangastöðum ferðamanna hér á landi. Talning á bifreiðum er áreiðanleg en nokkur óvissa er í áætlun um meðalfjölda í bifreið og þar með fjölda gesta. Þetta segja skýrsluhöfundar að mætti bæta með markvissri og vel skipulagðri gagnasöfnun, það er talningu á rútum og fjölda farþega í þeim. Til að þekkja fjölda gesta á fleiri áfangastöðum og hvernig ferðamenn dreifast um landið er mikilvægt að fjölga bifreiðateljurum á áfangastöðum ferðamanna í öðrum landshlutum.

Skýrslan í heild:

Fjöldi ferðamanna á átta áfangastöðum á Suður- og Vesturlandi 2014 til 2015