Fara í efni

Úrslit hugmyndasamkeppni um Landamannalaugasvæðið

Landamannalaugar - verðlauantillaga

Á dögunum voru kynnt úrslit í hugmyndasamkeppni um deiliskipulag og hönnun Landmannalaugasvæðisins. Sveitarfélagið Rangárþing ytra í samvinnu við Umhverfisstofnun og Félag íslenskra landslagsarkitekta efndi til samkeppninnar, sem styrkt var af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Þar sem ljósgrýtið glóir

Höfundar vinningstillögu er hópur frá Landmótun og VA arkitektum ásamt Erni Þór Halldórssyni. Frá Landmótun voru Aðalheiður Kristjánsdóttir, Áslaug Traustadóttir og Margrét Ólafsdóttir. Frá VA arkitektum voru Anna Sigríður Jóhannsdóttir, Indro Indriði Candi, Magdalena Sigurðardóttir og Ólafur Óskar Axelsson. Tillagan nefnist „Þar sem ljósgrýtið glóir“.

Áhugaverðar og róttækar hugmyndir 

Í umsögn dómnefndar segir um vinningstillöguna að settar séu fram áhugaverðar og róttækar hugmyndir um endurheimt landgæða í Laugum. Um sterka og djarfa skipulagshugmynd sé að ræða sem geti myndað góðan grunn fyrir áframhaldandi skipulagsvinnu á svæðinu.

Endurheimta tilfinninguna fyrir ósnortnum vìðernum 

Tillagan byggir á þeirri hugmynd að endurheimta tilfinninguna fyrir ósnortnum vìðernum hálendisins á svæðinu við Laugahraunið. Þar sem ný gönguleið myndar samhangandi þráð sem nær frá nýju tjaldsvæði og móttökuhúsi við Sólvang og allt suður að Grænagili. Vörðuð gönguleiðin liggur meðfram áreyrum og leiðir ferðalanginn eftir „söguþræði“ Landmannalauga. Markmið tillögunnar er að styrkja ímynd Landmannalauga sem stórbrotið náttúrusvæði og þannig raska sem minnst náttúru og lífríki svæðisins.

Markmið samkeppninnar

Svæðið er í heild um 1,7 km² og tekur yfir núverandi þjónustusvæði, allt frá Grænagili norður að Norðurnámshrauni. Markmið sveitarfélagsins með samkeppninni var að kalla eftir hugmyndum að skipulagi og hönnun sem er í samræmi við meginstefnu í gildandi aðalskipulagi og rammaskipulagi fyrir Suðurhálendið, þ.e. að draga úr álagi á Landmannalaugasvæðið og bæta þjónustu við ferðamenn.

Færa meginþunga þjónustu

Megin þjónustukjarninn er í dag undir Laugahrauni, sem er nokkurs konar hjarta skipulagssvæðisins. Lögð er áhersla á að færa meginþunga þjónustu út úr Landmannalaugasvæðinu og að tillagan taki til verndar og sjálfbærni svæðisins í heild. Draga þarf úr álagi á svæðinu og bæta úr ásýnd þess, samhliða því að bæta þjónustu við ferðamenn. Með samkeppninni var lögð áhersla á hvernig veita mætti þjónustu á svæðinu án þess að það kæmi niður á umhverfinu og upplifun ferðamanna. Gert var ráð fyrir að skilgreina mannvirki, þjónustusvæði, stíga- og samgöngukerfi og um leið að endurheimta landgæði.

Nánari upplýsingar

Vinningstillöguna og aðrar innsendar tillögur má kynna sér í dómnefndaráliti hér að neðan.

Landmannalaugar - Hugmyndasamkeppni um deiliskipulag og hönnun