Fara í efni

Niðurstöður innanlandskönnunar kynntar

Í dag voru kynntar niðurstöður könnunar á ferðavenjum Íslendinga sem Gallup gerði fyrir Ferðamálaráð í desember síðastliðnum. Meðal þess sem fram kemur í könnuninni er að Íslendingar vilja ferðast meira innanlands en þá skortir tíma eða finnst það vera of dýrt! Samt ferðuðust átta af hverjum tíu landsmanna innanlands á síðasta ári og nærri níu af hverjum 10 hyggja á ferðalag innanlands á þessu ári. Mun fleiri Íslendingar leita sér nú upplýsinga áður en lagt er af stað í ferðalag innanlands og aukinn áhugi virðist vera á áfangastöðum á hálendinu og Vestfjörðum.

80,6% Íslendinga ferðuðust innanlands árið 2003
Átta Íslendingar af hverjum 10 ferðuðust innanlands í fyrra samkvæmt könnuninni og eru það heldur færri en í sambærilegri könnun Ferðamálaráðs sem gerð var árið 2000. Þá ferðuðust 81,4% Íslendinga innanlands. Að jafnaði fóru landsmenn í um fjórar ferðir innanlands í fyrra, á móti fimm ferðum árið 2000, og var meðaldvalarlengd 12 nætur. Einnig var spurt um ferðir Íslendinga til útlanda og eins og árið 2000, fór rúmlega helmingur landsmanna til útlanda í fyrra. Að jafnaði voru farnar tvær ferðir og meðaldvalarlengd var 20 nætur.

Langflestir, eða 88% ferðuðust innanlands á eigin vegum, fimm af hundraði voru í skipulögðum hópferðum og 7% bæði í hópferðum og á eigin vegum. Langflestir voru sem fyrr á ferðinni í júní, júlí og ágúst og flestir nýttu sér gistingu hjá vinum og ættingjum. Sund, gönguferðir og náttúruskoðun var vinsælasta afþreyingin. Þriðjungur landsmanna hafði aðgang að sumarbústað í einkaeign og fóru að jafnaði níu ferðir í bústað og dvöldu 17 nætur alls. Þá fór ríflega helmingur Íslendinga í dagsferðir innanlands í fyrra og voru að jafnaði farnar um sex ferðir.

Vilja ferðast meira innanlands en skortir tíma!
Um 60% landsmanna ætla að ferðast bæði innanlands og utan á þessu ári, 28% ætla einvörðungu að ferðast innanlands og 8,4% eingöngu utanlands. Þá kemur fram í könnuninni að nærri 70% landsmanna vilja ferðast meira innanlands en þeir hafa gert en flestir telja sig þó ekki hafa tíma eða telja það vera of dýrt!

Áhugi fyrir því að skoða áfangastaði á hálendinu og Vestfjörðum virðist hafa aukist frá síðustu könnun. Þá nefndu flestir staði á Norðurlandinu, í öðru sæti lenti Austurlandið og í því þriðja Vestfirðirnir. Nú hefur hálendið skotist upp í efsta sætið, en meira en tvöfalt fleiri hafa áhuga á að heimsækja áfangastaði þar en í fyrri könnun. Þeim fjölgar auk þess umtalsvert sem vilja heimsækja Vestfirðina en í könnuninni nefndi tæplega helmingur staði þar sem þeir vildu heimsækja. Þeim hefur fækkað nokkuð frá fyrri könnun sem nefna áfangastaði á Norðurlandinu sem lenti nú í þriðja sæti.

Meðalútgjöld voru 97.000 krónur á ferðalögum innanlands
Heildarútgjöld vegna ferðalaga innanlands í fyrra voru að jafnaði 97 þúsund krónur. Samkvæmt könnuninni eyddu um 30 af hundraði innan við 50 þúsund krónum, 26% á bilinu 50-79 þúsund krónum, 18% á bilinu 80-109 þúsund krónum, 11 af hundraði eyddu 110-199 þúsund krónum og 14,8% eyddu 200 þúsund krónum eða meira á ferðalögum innanlands í fyrra.

Upplýsingaleit á Netinu hefur nærri tvöfaldast frá 2003
Umtalsverð breyting er á upplýsingaöflun ferðalanga frá könnuninni árið 2000. Þá sögðust 24,8% leita sér upplýsinga áður en lagt væri af stað í ferðalög innanlands en nú eru þeir 34,1%. Netið og ferðabæklingar ásamt ferðahandbókum voru þeir upplýsingagjafar sem helst voru skoðaðir á liðnu ári en árið 2000 höfðu ferðahandbækurnar vinninginn. Notkun Netsins hefur nærri tvöfaldast frá árinu 2000 og notkun ferðabæklinga hefur einnig aukist umtalsvert, var 27,5% árið 2000 en 36,7% árið 2003.

Í heild var einnig smávegis aukning árið 2003 á heimsóknum í upplýsingamiðstöðvar ferðamála. Mest fjölgaði þeim á Vestfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu en heimsóknum fækkaði hins vegar umtalsvert á Norðurlandi og Suðurlandi.

Könnun Gallups fyrir Ferðamálaráð var gerð 2.-29. desember sl. í síma og náði til 1400 manna slembiúrtaks úr þjóðskrá á aldrinum 18-80 ára. Fjöldi svarenda var 788 og svarhlutfallið því 60,2%.