Fara í efni

Könnun um ferðalög og ferðahegðun Íslendinga

Niðurstöður liggja nú fyrir úr könnun um ferðalög Íslendinga á árinu 2013 og ferðaáform þeirra á árinu 2014, sem Ferðamálastofa fékk MMR til að gera í janúar síðastliðnum. Er þetta fimmta árið í röð sem könnun Ferðamálastofu um ferðahegðun landsmanna er gerð með sambærilegum hætti.

Áhrif ferðaþjónustu og erlendra ferðamanna

áhrif ferðaþjónustuSpurningalistinn er að mestu leyti sá sami og í fyrra en að þessu sinni voru svarendur í fyrsta sinn beðnir um að taka afstöðu til fimm fullyrðinga um áhrif ferðaþjónustu og erlendra ferðamanna á náttúru og samfélag eins og sjá má af gröfum hér til hliðar. Flestir (65%) eru á því að erlendir ferðamenn hafi aukið áhuga Íslendinga á íslenskri náttúru en eru jafnframt á því (63%) að álag ferðamanna á íslenska náttúru sé of mikið. Að mati 59% svarenda hefur ferðaþjónusta skapað eftirsóknarverð störf í þeirra heimabyggð og 58% eru á því að ferðamenn hafi aukið áhuga Íslendinga á eigin menningu. 42% töldu hins vegar að ferðaþjónusta hefði leitt til fjölbreyttari þjónustu sem þeir hefðu nýtt sér.

Íslendingar ferðaglaðir sem fyrr

Af fjölmörgum áhugaverðum niðurstöðum könnunar Ferðamálastofu má nefna að þó svo álíka margir hafi verið á faraldsfæti innanlands árið 2013 og 2012, eða níu af hverju tíu svarendum, fóru þeir færri ferðir eða um 5,7 talsins árið 2013 í samanburði við 6,8 ferðir árið 2012. Þetta hefur þó ekki haft áhrif á meðaldvalarlengd á ferðalögum sem er svipuð milli ára eða um 15 nætur.

Um helmingur gistinátta á Norðurlandi og Suðurlandi

Gistinætur eftir landshlutum

Af svörum um dvalarlengd innan einstakra landshluta má ætla að 26,4% gistinátta hafi verið eytt á Norðurlandinu, 25,7% á Suðurlandinu, 13,3% á Vesturlandi, 11,5% á höfuðborgarsvæðinu, 11,4% á Austurlandi, 8,4% á Vestfjörðum, 2,4% á hálendinu og 0,9% á Reykjanesi.

 

Hvenær á árinu var ferðast innanlands

Ferðalög landsmanna eru árstíðabundin líkt og fram hefur komið í fyrri könnunum Ferðamálastofu og þarf vart að koma á óvart. Júlí og ágúst voru sem áður stærstu ferðamannamánuðir ársins 2013 en 72,9% ferðuðust innanlands í júlí og 62,2% í ágúst. Júní fylgir síðan fast á eftir en ríflega helmingur (54,5%) ferðaðist þá. Þegar þróunin er hins vegar skoðuð á þeim fimm árum sem Ferðamálastofa hefur framkvæmt kannanir meðal Íslendinga hefur þeim farið fjölgandi sem ferðast utan háannar.

Hvaða gistimöguleiki var nýttur

Hlutfallslega fleiri nýttu gistivalmöguleikana sumarhús eða íbúð í einkaeign (41,6%) og hótel, gistiheimili eða sambærilega gistingu (31,3%) á ferðalögum um landið á árinu 2013 en árinu 2012. Sem fyrr gistu þó flestir hjá vinum eða ættingjum á síðastliðnu ári eða 48,5%. Þar á eftir kom gisting í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl (42,8%) en samkvæmt könnunum Ferðamálastofu hefur þeim þó heldur fækkað á síðustu árum sem nýta þessa tegund gistingar.

Fyrir hvaða afþreyingu var greitt

Þegar niðurstöður eru bornar saman við fyrri kannanir má sjá að þeim fer fjölgandi sem nýta sér sundlaugar eða jarðböð en 75,5% greiddu fyrir slíka afþreyingu á ferðalögum innanlands árið 2013. Þar á eftir fylgdu söfn og sýningar (37,1%), leikhús og tónleikar (25,4%), veiði (21,7%), golf (13,2%) og bátsferðir (9,9%).

Náttúrutengd afþreying var sem áður nýtt af hlutfallslega fáum. Þannig fóru 6,1% í gönguferð eða fjallgöngu með leiðsögumanni, 3,9% í skoðunarferð með leiðsögumanni, 3,4% í hestaferð og 2% í flúðasiglingu eða kajakferð.

Hvaða landsvæði voru heimsótt

Suðurlandið var sá landshluti sem flestir heimsóttu á ferðalögum á árinu 2013, eða 66,1%. Svarendur tilgreindu annars heimsóknir sínar til einstakra landshluta með eftirfarandi hætti:

 - Suðurland   66,1%
- Norðurland  61,8%
 - Vesturland  52,3%
 - Höfuðborgarsvæðið                 32,7%
 - Austurland  29,2%
 - Vestfirðir  24,5%
 - Reykjanes  20,3%
 - Hálendið  14,6%

Merkjanleg aukning hefur síðan verið í heimsóknum til flestra landshluta á þeim árum sem þessi spurning hefur verið inni í könnun Ferðamálastofu, nema höfuðborgarsvæðisins.

Hvaða staðir voru heimsóttir

Í könnuninni eru tilgreindir 55 staðir um allt land (6-9 í hverjum landshluta) og svarendur beðnir að merkja við hvort ferðalög þeirra hafi legið þangað á árinu. Akureyri er þar efst á blaði en helmingur svarenda sem ferðaðist innanlands kom þangað á síðastliðnu ári. Listinn yfir 10 fjölsóttustu staðina árið 2013 var annars þessi:

 - Akureyri 49,6%
 - Borgarnes 33,9%
 - Þingvellir/Gullfoss/Geysir 30,1%
 - Skagafjörður  22,5%
 - Egilsstaðir/Hallormsstaður    21,6%
 - Mývatnssveit 21,3%
 - Hvalfjörður 20,0%
 - Vík 19,1%
 - Húsavík 17,6%
 - Kirkjubæjarklaustur 17,3%

 

Enn fækkar dagsferðum

Einnig er spurt um dagsferðir en þær eru skilgreindar sem a.m.k. fimm klst. langar skemmtiferðir út fyrir heimabyggð. Fjölgaði þeim sem ekki sögðust hafa farið í neina dagsferð á árinu 2013 frá árinu 2012. Þannig sögðust 37,6% aðspurðra ekki hafa farið í dagsferð í fyrra en þetta hlutfall var 33,2% árið 2012 og síðan enn lægra árið 2011 eða 25,2%. Þeir sem fóru í dagsferðir fóru að jafnaði 7,9 ferðir á árinu 2013 álíka margar og árið 2012 þegar þær mældust 8,0 talsins.

Hvaða staðir voru heimsóttir í dagsferðum

Þingvellir, Gullfoss og Geysir bera hins vegar höfuð og herðar yfir aðra staði þegar spurt var um hvaða staði fólk heimsótti í dagsferðum. Vart þarf að koma á óvart að efst raðast staðir í nágrenni höfuðborgarinnar.

 - Þingvellir, Gullfoss, Geysir   33,1%
 - Reykjanesbær 19,0%
 - Borgarnes           18,2%
 - Eyrarbakki 16,5%
 - Hvalfjörður 14,2%
 - Grindavík 13,9%
 - Akureyri 13,5%
 - Akranes 11,5%
 - Bláa lónið 10,0%
 - Krísuvík 9,5%


Utanlandsferðir á svipuðu róli

Tæplega tveir þriðju aðspurðra fóru í utanlandsferð á árinu, sem er álíka hátt hlutfall og árið 2012. Algengast var að svarendur færu eina ferð (43%), 28,6% fóru í tvær ferðir og 28,4% í þrjár eða fleiri ferðir. Meðaldvalarlengd á ferðalögum í útlöndum var 17,8 nætur og voru þá ekki teknar með í úrvinnslu ferðir þar sem dvalið var 100 nætur og lengur. Ferðalög Íslendinga voru að stærstum hluta bundin við Evrópu og N-Ameríku. 29,3% heimsóttu Bretland og Írland, 27,8% Danmörku, 26% Spán eða Portúgal, 22% Bandaríkin eða Kanada og 20% Þýskaland.

Flestir fóru í borgarferð (40,3%) á árinu 2013, í heimsókn til vina eða ættingja (38,8%), í sólarlandaferð (27,1%) og vinnutengda ferð (25,8%).

Ferðaáform Íslendinga 2014

Ferðaáform 2014Níu af hverjum tíu svarendum hafa áform um ferðalög á árinu 2014 og eru þau fjölbreytt að vanda. Margir ætla að ferðast innanlands, þannig sögðust 59,1% ætla að fara í sumarbústaðaferð innanlands, 54% í heimsókn til vina og ættingja og 33,2% í ferð innanlands með vinahópi eða klúbbfélögum. Hlutfallslega fleiri eru að huga að ferðalögum utan en fyrir ári síðan, þannig ætla um 40% í borgarferð á árinu, 25,8% í sólarlandaferð og 17,6% í vinnuferð erlendis, svo nefndir séu þeir valkostir sem flestir tilgreindu.

Um könnunina

Könnunin var unnin sem netkönnun dagana 9.-15. janúar 2014. Úrtakið var 1.600 Íslendingar á aldrinum 18-80 ára, valdir handahófskennt úr 17.000 einstaklinga álitsgjafahópi MMR sem valinn er með tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 61,3%. Niðurstöður könnunarinnar eru vigtaðar með tilliti til kyns, aldurs, búsetu og menntunar í þýði. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum MMR.

Könnunin í heild:

Ferðalög Íslendinga 2013 og ferðaáform þeirra 2014