Fara í efni

Áhugaverðar niðurstöður í vetrarkönnun Ferðamálastofu

Ýmsar áhugaverðar niðurstöður er að finna í nýútkominni könnun meðal erlendra ferðamanna sem Maskína sá um að framkvæma fyrir Ferðamálastofu. Niðurstöður úr svörum þeirra gesta sem heimsóttu landið á tímabilinu október 2015 til maí 2016 liggja nú fyrir og síðar á árinu verða birtar niðurstöður úr svörum sumargesta 2016. Könnunin kemur í framhaldi af könnun sem gerð var fyrir sama tímabil fyrir tveimur árum.

Ferðin stóðst væntingar og fleiri vilja koma aftur

Meðal ánægjulegustu niðurstaðna er að gestir til landsins eru líkt og áður einkar sáttir við heimsóknina. Íslandsferðin stóðst þannig væntingar 95,9% svarenda sem er álíka hátt hlutfall og í síðustu vetrarkönnun en þá var hlutfallið 95,4%. Tæp 90% svarenda töldu líklegt að þeir myndu ferðast aftur til Íslands, sem er talsvert hærra hlutfall en fyrir tveimur árum (83,3%).

Tilgangur og dvalarlengd

Langflestir voru hér í fríi (91,4%) og var dvalarlengdin að jafnaði um 6,9 nætur, samanborið við 6,1 nótt í síðustu vetrarkönnun. Algengasta dvalarlengdin var 5-7 nætur (36,4% ) eða 3-4 nætur (35,8%). 

Af hverju Ísland

Fjölmargir þættir ollu því að Ísland varð fyrir valinu. Í samræmi við það sem fyrri kannanir hafa sýnt þá nefna flestir náttúruna 73,8%, nokkru færri en síðast. Þar á eftir nefnir fólk að Ísland sé áfangastaður sem það hafi alltaf langað til að heimsækja (57,3%) en það var nýr svarmöguleiki í könnuninni. Gott tilboð/lágt flugfargjald er í þriðja sæti (36,9%) en álíka margir nefndu þann valkost og í síðustu könnun. Íslensk menning og saga kemur þar á eftir (33,7%) en mun færri nefna menningu og sögu nú en í síðustu könnun.

En hvað í náttúrunni

Þeir sem nefndu náttúruna sem áhrifavald varðandi Íslandsferð voru spurðir um hvað það væri varðandi náttúruna sem heillaði. Er þetta í annað sinn sem spurning af þessu tagi er í könnun Ferðamálastofu en um opna spurningu er að ræða. Þá voru oftast nefnd eftirtalin atriði (síðasta vetrarkönnun innan sviga):

  • Fegurð/Óspillt/Ósnert/Náttúra/Landslag/Óbyggðir 50,7% (34,4%)
  • Norðurljós 24,6% (25,7%)
  • Eldfjöll/Hraun 20,7% (22,6%)
  • Jöklar 17,1% (15,1)
  • Sérstaða/Frábrugðið/Fjölbreytni 16,6% (27,7%)

Ákvörðun um Íslandsferð

Síðustu kannanir hafa sýnt að bæði ákvörðunar- og kaupferlið hafa verið að styttast og virðist sú þróun halda áfram hvað ákvörðunarferlið varðar. Þannig sögðu 28,1%% svarenda að hugmynd að ferðinni hefði kviknað innan 3 mánaða fyrir brottför, samanborið við 23,4% fyrir tveimur árum. Álíka hlutfall (25,9%) sagðist hafa fengið hugmyndina 6-9 mánuðum fyrir brottför. 

Tæpur helmingur (46,4%) svarenda bókaði ferðina innan tveggja mánaða fyrir brottför, sem er heldur lægra hlutfall en í síðustu könnun. Álíka margir nefna 2-4 mánuði.

Notkun samfélagsmiðla

Almennur áhugi á landi og þjóð var það sem flestir nefndu þegar spurt var hvaðan hugmyndin að Íslandsferð hefði kviknað, eða um 47,1%. Þar á eftir koma upplýsingar frá vinum og ættingjum og samfélagsmiðlar eða vefsíður (46,2%).

Internetið (vefsíður, blogg/samfélagsmiðlar) heldur áfram að auka hlut sinn sem helsta uppspretta upplýsinga áður en ferð var farin. Þá var nú í fyrsta sinn sérstaklega spurt um notkun samfélagsmiðla í aðdraganda ferðar eða á ferðalagi um Ísland. Tæplega tveir þriðju (71%) notuðu einhverja samfélagsmiðla. Flestir, eða 50,5% notuðu þá til að senda einkaskilaboð til vina og ættingja og 37,1% með stöðuuppfærslu um væntanlega Íslandsferð. Þá notuðu 28,4% samfélagsmiðla meðan á skipulagningu ferðar stóð.

Ferðaþjónustan almennt með góða einkunn

Í könnuninni er fólk beðið að meta 28 þætti í íslenskri ferðaþjónustu og gefa þeim einkunn á bilinu 0-10. Almennt séð eru þessi atriði að fá heldur hærri meðaleinkunn en fyrir tveimur árum. Hæstu meðaleinkunnina fá þættirnir „“Fjölbreytni í náttúrutengdri afþreyingu““ (8,97) og „“Heildaránægja með náttúrutengda afþreyingu“ (8,97). „Almennt ástand á ferðamannastöðum“ “fær síðan þriðju hæstu einkunnina (8,80). Aðeins einn þáttur fer undir 8 í meðaleinkunn, „Úrval veitingastaða" (7,81).

Hvaða svæði og staðir voru heimsótt?

Þegar svarendur eru hins vegar spurðir að því hvaða landshluta þeir hafi heimsótt nefndu 96,7% Reykjavík, 55,0% Suðurlandið, 54,6% nágrannasveitarfélög Reykjavíkur og 36,2% Reykjanesið. Önnur svæði voru heimsótt í minna mæli.

Auk þess var spurt sérstaklega um heimsóknir á 43 staði/svæði vítt og breitt um landið. Fyrir utan dvölina á höfuðborgarsvæðinu sögðust flestir hafa heimsótt staði á Suðurlandinu; Gullfoss/Geysi (48,0%), Þingvelli (41,4%), Vík (41,5%) Skóga (31,8%) og Jökulsárlón (30,6%).

Fjöldi ferðamanna á stöðumFjöldi ferðamanna

Svarendur voru beðnir um álit á því hvernig þeir upplifðu fjölda ferðamanna á nokkrum völdum stöðum á landinu. Langflestir voru á því að fjöldinn væri í lagi á öllu stöðum en þeir sem helst voru nefndir að of margir ferðamenn væru á voru Jökulsárlón, Gullfoss og Geysir (+20%).

Hvaða afþreyingu var greitt fyrir?

Vetrargestir hafa líkt og áður einkum áhuga á afþreyingu tengdri náttúruupplifun, heilsu og vellíðan. Þegar spurt var um hvaða afþreyingu greitt hefði verið fyrir var oftast nefnt:

  • Sundlaugarferð 62,2%
  • Ýmsar ferðir með leiðsögn 50,5%
  • Söfn 35,4%
  • Norðurljósaferð 34,5%

Þar á eftir koma heilsulind/dekur, náttúrulaugar, jöklaferð og listagallerí. Ferð með leiðsögumanni er sú tegund afþreyingar sem líklegast er að fólk greiði oftar en einu sinni fyrir, að meðaltali 1,8 sinnum, þegar aðeins eru teknir þeir sem á annað borð greiða fyrir afþreyingu. Af stærstu afþreyingarflokkum koma söfn þar á eftir en gestir borguðu sig að meðaltali 1,7 sinnum inn á safn í ferð sinni og heimsóttu sundlaugar 1,63 sinnum.

NPS (Net Promoter Score)

Nýjung í könnuninni er að í fyrsta sinn er nú spurt hversu líklegir eða ólíklegir svarendur eru að mæla með Íslandi sem áfangastað fyrir ferðamenn á skalanum 0-10. Spurningin er m.a. unnin með það í huga að reikna út NPS stuðul fyrir Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn en um er að ræða mælikvarða sem er víða notaður til að segja til um mismun á hlutfalli þeirra sem eru tilbúnir að mæla með t.d. ferðamannalandi, fyrirtæki eða vöru og hlutfalli þeirra sem eru líklegri til að mæla gegn sömu þáttum. NPS fyrir Ísland sem ferðamannaland mælist nú 80,7 stig sem þykir hátt á alþjóðavísu en til samanburðar má nefna að NPS mældist 76 stig fyrir Nýja Sjáland árið 2015, 70 stig fyrir Danmörku árið 2014 og 62,7 stig fyrir British Columbia árið 2013.

Gæðavitund að vaxa

Hærra hlutfall gesta nefnir nú en áður að það skipti máli við val þess á ferðaþjónustufyrirtæki að það sé með viðurkennda gæðavottun, eða tæp 75% en var 73,2% í síðustu vetrarkönnun. Þar áður var hlutfallið 64,5%. Virðist því sem gæðavitund gesta sé að vaxa.

starfshættirStarfshættir varðandi umhverfismál

Svarendur voru spurðir hvernig þeir hefðu upplifað starfshætti í umhverfismálum. Svörin voru á metin á fimm stiga huglægum kvarða. Eins og sjá má af grafi skoruðu umhverfismál varðandi orkunotkun hæst og stjórnun umhverfismála almennt næst hæst. Lægst skoruðu umhverfismál í tengslum við samgöngur og salernismál.

Hvað má bæta í íslenskri ferðaþjónustu

Þegar svarendur voru inntir eftir því hvaða þætti mætti bæta í íslenskri ferðaþjónustu voru fjölmargir þættir nefndir s.s. vegamerkingar (12,7%), almenningssalerni (12,5%), ýmiss konar kostnaður (12,0%), almenningssamgöngur (10,6%), ástand vega (10,3%), kostnaður við mat (8,2%) og þjónusta/úrval í tengslum við mat og veitingastaði (7,7%).

Hvað var minnisstæðastNorðurljósin minnisstæðasta upplifunin

Þegar svarendur voru spurðir að því hvað þrennt þeim hefði þótt minnisstæðast við Íslandsferðina nefndu flestir norðurljósin (28,0%), náttúru eða landslag (24,1%) og Bláa lónið (24,0%). Mun fleiri nefndu norðurljós en í síðustu könnun

Bláa lónið minnkar verulega vægi sitt á milli kannana, fer úr 36,1% í 24,0%. Norðurljós og fossar auka hins vegar verulega vægi sitt.

Um könnunina

Með könnuninni var aflað upplýsinga um erlenda ferðamenn sem heimsóttu landið mánuðina október 2015 til maí 2016, aðdragandann að Íslandsferðinni, ferðahegðun þeirra á Íslandi, eyðsluhætti og viðhorf þeirra til ýmissa þátta íslenskrar ferðaþjónustu. Um var að ræða netkönnun þar sem netföngum var safnað með skipulögðum hætti í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Úrtakið var 5.101 og var svarhlutfallið 40,4%. Könnunin var unnin með sambærilegum hætti og síðasta könnun, sem framkvæmd var veturinn 2013-2014.

Nánari niðurstöður

Niðurstöður úr könnuninni má nálgast í skýrslunni hér að neðan. Heildarniðurstöður eru settar fram í gröfum þar sem sjá má samanburð við fyrri kannanir þar sem slíkt á við. Einstaka spurningar eru síðan greindar fyrir svör gesta eftir kyni, aldri, starfi, menntun, heimilistekjum, þjóðerni,búsetulandi, markaðssvæðum og tilgangi ferðar. Könnunin verður einnig á næstu dögum birt á gagnvirkum vef með öðrum könnunum Ferðamálastofu.

Erlendir ferðamenn á Íslandi  - vetur 2015-2016 (PDF 19 MB)