Fara í efni

71.600 ferðamenn í apríl

Ferðamenn í aprílTæplega 72 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í apríl síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 12.400 fleiri en í apríl á síðasta ári. Aukningin nemur 20,9% milli ára.

Aukning hefur verið milli ára alla mánuði frá áramótum eða 34,5% í janúar, 34,4% í febrúar og 26,8% í mars.

Tveir af hverjum fimm frá Bretlandi og Bandaríkjunum

10 fjölmennustu þjóðerniUm þrír af hverjum fjórum ferðamönnum í apríl árið 2015 voru af tíu þjóðernum. Bretar voru fjölmennastir eða 26,4% af heildarfjölda en næstir komu Bandaríkjamenn eða 15,2% af heildarfjölda. Þar á eftir fylgdu Norðmenn (6,9%), Danir (6,0%), Þjóðverjar (5,2%), Svíar (4,6%), Frakkar (4,1%), Kanadamenn (3,4%), Kínverjar (2,4%) og Spánverjar (2,0%).

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum og Bandaríkjamönnum mest milli ára en 3.269 fleiri Bretar komu í apríl í ár en í sama mánuði í fyrra og 3.179 fleiri Bandaríkjamenn. Bretar og Bandaríkjamenn báru uppi ríflega helmings aukningu ferðamanna í apríl milli ára.

Þróun á tímabilinu 2002-2015

Ferðamenn eftir markaðssvæðumFerðamenn í aprílmánuði hafa nærri fjórfaldast frá árinu 2002. Oftast hefur verið um aukningu að ræða milli ára en mest hefur hún þó verið síðustu fjögur árin. Þannig hafa ferðamenn meira en tvöfaldast í aprílmánuði frá árinu 2011. Ferðamenn frá N-Ameríku hafa meira en þrefaldast, ferðamenn frá Bretlandi og löndum sem flokkast undir annað nærri þrefaldast og ferðamenn frá Mið og S-Evrópu nærri tvöfaldast. Norðurlandabúum hefur fjölgað í minna mæli en hlutdeild þeirra í aprílmánuði hefur minnkað jafnt og þétt með árunum. Hlutfall Norðurlandabúa í apríl var um þriðjungur framan af en í aprílmánuði 2015 voru þeir orðnir fimmtungur ferðamanna.

Um 288 þúsund ferðamenn frá áramótum

Það sem af er ári hafa 288.700 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 64.200 fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 28,6% aukningu milli ára. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum; Mið- og S-Evrópubúum hefur fjölgað um 36,9 %, Bretum um 28,7%, N-Ameríkönum um 26,5%, Norðurlandabúum um 8,8% og ferðamönnum frá öðrum mörkuðum um 42,4%.

Ferðir Íslendinga utan

Tæplega 36 þúsund Íslendingar fóru utan í apríl síðastliðnum eða álíka margir og í apríl 2014.

Nánari upplýsingar

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Ferðamenn um Keflavíkurflugvöll