Öryggi á ferðamannastöðum - Stefna til 2015
Ráðherrar ferðamála og umhverfismála óskuðu á vordögum 2010 eftir því að
Ferðamálastofa og Umhverfisstofnun leggðu fram minnisblað um öryggismál á ferðamannastöðum. Í minnisblaði því sem lagt var
fram var boðuð gerð öryggisáætlunar fyrir ferðamannastaði, sem stofnanirnar tvær myndu hafa samvinnu um. Mikilvægt var talið að
Slysavarnarfélagið Landsbjörg tæki þátt í gerð slíkrar öryggisáætlunar.
Þann 1. september 2010 boðaði Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri til fundar með Umhverfisstofnun og Slysavarnafélaginu Landsbjörgu um öryggismál á ferðamanna-stöðum. Niðurstaða fundarins var m.a. að setja á laggirnar vinnuhóp sem ætlað var að fjalla um helstu þætti áhættustýringar og setja fram drög að stefnumörkun um öryggismál á ferðamannastöðum. Í hópnum voru Gunnar Stefánsson frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Ólafur Arnar Jónsson frá Umhverfisstofnun og Sveinn Rúnar Traustason frá Ferðamálastofu.
Með áætlun þeirri sem hér er til umfjöllunar skapast grundvöllur til skipulegrar vinnu að því að tryggja öryggi ferðamanna á ferðamannastöðum á Íslandi. Áætlunin verður lögð til grundvallar við forgangsröðun aðgerða og mun m.a. geta orðið væntanlegri stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til leiðsagnar við störf sín. Ennfremur tengist hún nýjum kröfum sem gerðar eru til ferðaþjónustufyrirtækja um gerð öryggisáætlana, svo og gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar, Vakanum. Saman munu þessi verkefni tryggja að Ísland verði þekkt sem öruggt ferðamannaland.
Von þeirra sem að áætluninni standa er að íslensk ferðaþjónusta njóti góðs af afrakstrinum.
Skýrslan í heild
Öryggi á ferðamannastöðum - Stefna til 2015