Gott aðgengi í ferðaþjónustu

Milljónir manna um víða veröld hafa áhuga á því að ferðast, hafa bæði tíma og fjármuni til að gera það en neyðast til að vera heima vegna þess að aðgengi fyrir fatlaða og hreyfihamlaða er ábótavant.

Lengi kallað eftir bættu aðgengi

Í  ferðaþjónustu á Íslandi hefur lengi verið kallað eftir því að aðgengi fyrir fatlaða og hreyfihamlaða verði bætt. Nú í ár er því unnið að sérstöku fræðslu- og hvatningarverkefni um aðgengismál fyrir ferðaþjónustuaðila. Verkefnið er samstarfsverkefni Ferðamálastofu, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Sjálfsbjargar og Öryrkjabandalags Íslands.

Um er að ræða sjálfsmat um aðgengismál fyrir ferðaþjónustufyrirtæki ásamt leiðbeiningum og fræðslu. Áætlað er að á næstunni verði sjálfsmatið tilbúið fyrir fyrirtæki til að fara formlega í gegnum en hér að neðan má innan skamms kynna sér drög að sjálfsmatinu. Eru ferðaþjónustuaðilar eindregið hvattir til að kynna sér málið og skoða aðgengismál í fyrirtækjum sínum.

Þrenns konar merki í boði

Til að byrja með verða í boði þrjú merki sem tákna aðgengi fyrir hreyfihamlaða, sjónskerta og blinda. 

Í sjálfsmatinu er horft til ýmissa atriða er varða t.d. aðkomu, bílastæði, inngang, anddyri, snyrtingar, baðherbergi o.fl. Um er að ræða lágmarkskröfur og einnig ábendingar um það sem æskilegt er að hafa.

Þeir ferðaþjónustuaðilar sem taka þátt í verkefninu og telja sig uppfylla sjálfsmatið fá viðeigandi merki sem þeir geta auðkennt sig með á heimasíðum, í kynningarefni o.fl. Þessir aðilar verða ennfremur merktir með aðgengismerkjum í gagnagrunni Ferðamálastofu og þar af leiðandi á Visit Iceland, landshlutavefjum og á ferdalag.is

Merki aðgengis

Tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila

Gott aðgengi getur skapað sérstöðu og þýtt verulega virðisaukningu fyrir ferðaþjónustufyrirtæki þar sem fólk með skerta færni ferðast gjarnan með fjölskyldu, vinum eða aðstoðarfólki þar sem þarfir fatlaða einstaklingsins ráða för.

Áætlað er að árið 2025 verði eftirspurn, varðandi aðgengi fyrir fatlaða og hreyfihamlaða, frá um 160 milljónum Evrópubúa. Á heimsvísu er talið að þessi tala verði á bilinu 600-900 milljónir. (European Network for Accessible Tourism). Því er ennfremur spáð að fjölgun eldri borgara um allan heim verði umtalsverð á komandi áratugum og þar af leiðandi felast margvísleg tækifæri í því að bæta aðgengi í ferðaþjónustu. Þessi markhópur hefur oftar en ekki góð fjárráð, nægan tíma tíma og dvelur gjarnan lengur á áfangastað auk þess að hafa tækifæri til að ferðast utan háannatíma.

Það er algengur misskilningur að allt er varðar aðgengismál feli í sér kostnaðarsamar framkvæmdir. Ýmislegt er að hægt að gera án mikils tilkostnaðar til að bæta aðgengi og upplifun ferðamanna með sérþarfir.

Nokkur atriði sem strax er hægt að huga að:

  1. Eru skýrar upplýsinga á vefsíðu um það hvernig aðgengismál eru hjá fyrirtækinu, hvort sem þau eru í lagi eða þarfnast úrbóta?
  2. Eru bílastæði hjá fyrirtækinu rétt útfærð og vel merkt fyrir fatlaða?
  3. Er aðgengi utandyra í lagi fyrir fólk í hjólastól og þá sem eiga erfitt með gang?
  4. Er aðgengi innanhúss í lagi fyrir fatlaða? Er búið að skoða húsnæðið markvisst og leggja mat á aðgengi? Þarf kannski að fara í framkvæmdir? Er hægt að gera eitthvað sem ekki krefst framkvæmda eins og að færa til húsgögn, bæta merkingar og upplýsingar?
  5. Eru snyrtingar/salerni fyrir fatlaða? Eru þau alltaf aðgengileg og ólæst?
  6. Hefur starfsfólk fengið fræðslu um það hvernig aðgengi er háttað hjá fyrirtækinu? Hvort sem það er í lagi eða ekki?
  7. Hefur starfsfólk fengið fræðslu um framkomu við viðskiptavini með fötlun og/eða sérþarfir?
  8. Eru upplýsingar um aðgengismál í starfsmannahandbók/gæðahandbók?

„Samkvæmt íslenskum lögum og reglugerðum á að gæta þess sérstaklega að aðgangur fatlaðs fólks að manngerðu umhverfi sé til jafns við aðra.“

Hjálpargögn:

Hér má skoða tvö stutt fræðslumyndbönd sem gerð voru á vegum Öryrkjabandalags Íslands. Fyrra myndbandið fjallar um aðgengi að salernum og inniheldur leiðbeiningar um mikilvæg atriði. Seinna myndbandið fjallar um bílastæði fyrir fatlaða og leiðbeiningar um þau.

https://www.youtube.com/watch?v=LksUy6NVNfQ

https://www.youtube.com/watch?v=6tle090hYt4

Fleiri hjálpar og fræðslugögnum verður bætt hér inn síðar.