Fara í efni

Hvernig ferðast Íslendingar um eigið land?

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Ferðamálastofa birtir nú niðurstöður úr nýrri könnun meðal Íslendinga um ferðalög þeirra á árinu 2019 og ferðaáform á árinu 2020. Könnunin hefur verið framkvæmd árlega með sambærilegum hætti frá árinu 2010. Er því kominn yfir áratugur af samfelldum niðurstöðum um þetta efni. 

Sjá eldri kannanir

Helstu niðurstöður

  • Meðmælaskor (NPS) Íslendinga fyrir ferðalög innanlands mældist 34 stig í ársbyrjun 2020, hærra en fyrir ári síðan, og er um marktækan mun að ræða. 
  • Marktæk fækkun var í utanlandsferðum Íslendinga milli áranna 2018 og 2019.
  • Álíka margir ferðuðust innanlands árið 2019 og árið 2018, flestir um Norður- og Suðurland.
  • Gistinætur þeirra sem ferðuðust innanlands voru að jafnaði um 14 talsins. Gera má gera ráð fyrir að um helmingi gistinótta landsmanna á ferðalögum hafi verið eytt á Norðurlandi og Suðurlandi.
  • Sundlaugar og jarðböð voru sem fyrr sú afþreying sem flestir greiddu fyrir og ekki var marktækur munur á notkun á afþreyingu sem greitt var fyrir árið 2019 í samanburði við árið 2018.
  • Um helmingur Íslendinga stundaði almenna útiveru einu sinni í viku eða oftar. Hjóla- og fjallahjólaferðum fjölgaði marktækt á milli ára, sem og ferðum í heit og köld böð.

Í skýrslu um könnunina eru meginniðurstöður dregar fram í byrjun með aðgengilegum hætti en niðurstöðum er annars skipt í 7 meginkafla:

  • Ferðalög erlendis
  • Ferðalög innanlands
  • Dagsferðir innanlands
  • Fyrirhuguð ferðalög næsta árs
  • Upplýsingaleit varðandi ferðalög innanlands
  • Meðmælaskor
  • Stunduð útivist

Fækkun í utanlandsferðum

Um 80% aðspurðra fóru í utanlandsferð árið 2019, færri en árið 2018 en þá ferðuðust 83% utan. Um marktækan mun var að ræða. Þeir sem ferðuðust utan gistu að jafnaði 19 nætur á árinu 2019, um einni nótt færri en árið 2018. Breytinging á milli ára var ekki marktæk. Spánn (þ.m.t. Kanaríeyjar) og Portúgal voru sem fyrr vinsælasti áfangastaðurinn en þar á eftir komu Bretlandseyjar, Danmörk, Þýskaland, Bandaríkin og Kanada. Færri fóru til Bandaríkjanna og Kanada árið 2019 en árið 2018 og var munurinn marktækur. Af þeim sem ferðuðust utan fór um helmingur í borgarferð og um tveir af hverjum fimm í sólarlandaferð. Færri fóru í borgarferð árið 2019 en árið 2018 og var munurinn marktækur. Sama má segja um íþróttaferðir en þeim fækkaði milli ára og var marktækur munur á.

Langflestir ferðuðust innanlands

Um 85% Íslendinga ferðuðust innanlands árið 2019 eða álíka margir og árið 2018. Farnar voru að jafnaði 6,7 ferðir innanlands árið 2019 og dvalið var að jafnaði 14 nætur. Um helmingi gistinótta var varið á Norðurlandi og Suðurlandi. Ekki var marktækur munur á fjölda gistinótta árið 2019 í samanburði við fyrri ár.

Flestir ferðuðust á Norðurlandið og Suðurlandið

Norðurland var sá landshluti sem flestir heimsóttu á ferðalögum um landið árið 2019 eða 59,9%. Þar á eftir kom Suðurlandið en ríflega helmingur (55,0%) heimsótti þann landshluta. Vesturlandið heimsóttu 34,6%, Austurlandið 23,5%, Höfuðborgarsvæðið 20,8%, Vestfirðina 18,4%, Reykjanesið 8,4% og Hálendið 7,7%. Ekki var marktækur munur á heimsóknum eftir landshlutum árið 2019 í samanburði við árið 2018.

Gistinætur þeirra sem ferðuðust innanlands voru að jafnaði um 14 talsins en út frá niðurstöðurm má áætla dreifingu gistinótta eftir landshlutum. Þannig má gera ráð fyrir að um helmingi gistinótta landsmanna á ferðalögum hafi verið eytt á Norðurlandi og Suðurlandi.

Sundlaugar og jarðböð mesta aðdráttaraflið

Sundlaugaferðir og jarðböð eru sú afþreying sem algengast var að Íslendingar greiddu fyrir á ferðum sínum um landið árið 2019 en 54,2% greiddu fyrir þann valkost. Næst á eftir komu söfn og sýningar (26,0%), leikhús og tónleikar (17,1%), tónlistar- og bæjarhátíðir (14,1%) og dekur og heilsurækt (10,3%). Ekki var marktækur munur á notkun á afþreyingu sem greitt var fyrir árið 2019 í samanburði við árið 2018.

Dagsferðir

Um 65% Íslendinga fóru í dagsferð á árinu 2019 og fóru þeir að jafnaði 4,1 ferð. Ekki var marktækur munur á fjölda þeirra sem fór í dagsferð árið 2019 í samanburði við 2018. 

Helmingur stundar reglulega útivist

Spurt var í annað sinn í könnun Ferðamálastofu um ástundun útivistar eða um samtals 19 útvistarmöguleika. Reyndist um helmingur Íslendinga stunda almenna útiveru einu sinni í viku eða oftar árið 2019. Um 8% stunduðu skokk eða hlaup einu sinni eða oftar í viku og um 7% einu sinni til þrisvar í mánuði. Um 7% fóru einu sinni í viku eða oftar í hjóla- eða fjallahjólaferðir og um 4% einu sinni til þrisvar í mánuði. Marktæknipróf gefa til kynna að fjöldi hjóla- og fjallahjólaferða hafi aukist milli ára 2018-2019 (úr 9,6 í 13,9 ferðir) sem og ferðir í heit og köld böð (r 2,8 í 5,1).

Hvert stefnir landinn?

Rúmlega níu af hverjum tíu (94%) Íslendinga hafa áform um ferðalög á árinu 2020. Ríflega helmingur sagðist ætla í sumarbústaðaferð (56,8%), 50,7% í borgarferð erlendis, 44,9% í heimsókn til vina og ættingja innanlands, um 43,8% í sólarlandaferð og um 34,3% í heimsókn til vina og ættingja erlendis. Lítill munur er á ferðaáformum landsmanna frá því fyrir ári síðan nema að færri sögðust ætla í íþróttatengdar ferðir í ár en í fyrra og var munurinn marktækur. 

Vert er að benda á að könnunin var gerð áður en áhrif COVID-19 voru orðin jafn mikil og nú er. Má í þessu sambandi vísa á nýja könnun sem Ferðamálastofa lét gera um áhrif COVID-19 á ferðalög landsmanna og birt var fyrir helgina.

Um könnunina

Könnunin var unnin sem netkönnun í lok janúar síðstliðins. Í úrtakinu voru Íslendingar 18 ár og eldri, valdir handahófskennt úr 18.000 einstaklinga álitsgjafahópi MMR sem valinn er með tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Svarfjöldi var 1.018 einstaklingar. Niðurstöður könnunarinnar eru vigtaðar með tilliti til kyns, aldurs, búsetu og menntunar í þýði. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum MMR og Ferðamálastofu.

Könnunin í heild: