Fréttir

Áhugaverð grein Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra um íslenska ferðaþjónustu

Vert er að vekja athygli á grein Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra sem birtist á vef hans í gær. Greinin ber yfirskriftina ?Sóknarhugur? í ferðaþjónustu og þar fer  ráðherra yfir þær miklu framfarir og breytingar sem orðið hafa í greininni á undanförnum árum. ?Á undanförnum árum  hafa orðið miklar framfarir í íslenskri ferðaþjónustu. Fyrirtæki hafa bæði stækkað og styrkst og stöðugt fleiri hafa haslað sér völl í greininni.  Ferðaþjónustan er orðin önnur stærsta atvinnugrein landsins hvað varðar gjaldeyrisöflun og ekki síður öflug hvað varðar öll margfeldisáhrif í samfélaginu. Og hún hefur verið mikilvæg uppspretta atvinnutækifæra fyrir skólafólk yfir sumartímann,? segir Sturla í inngangi greinar sinnar. Þá fer Sturla yfir þá fjölgun sem orðið hefur í komum ferðamanna hingað til lands, sem er mun meiri en almennt í Evrópu, vel heppnað landkynningarstarf síðustu misserin og þá athygli sem þessi góði árangur okkar hefur vakið erlendis. Jafnframt fjallar ráðherra um þær ytri aðstæður sem ferðaþjónustan hefur búið við að undanförnu, sem á ýmsan hátt hafa verið henni óhagstæðar og greinir frá vinnu sem í gangi er að hans beiðni þar sem áhrif gengis íslensku krónunnar eru metin. Þá minnir Sturla á að innlendi markaðurinn er líka afar mikilvægur. Greinina má lesa í heild sinni á vef Sturlu Böðvarssonar  
Lesa meira

Gistinóttum á hótelum árið 2005 fjölgaði um 6% á milli ára

Hagstofan hefur birt tölur um fjölda gistinótta á hótelum í desember síðastliðnum og þar með liggja fyrir niðurstöður ársins 2005 í heild. Tölurnar sýna að gistinóttum fjölgaði um 6% á milli ára en mismikið eftir landshlutum. Gistinætur á hótelum árið 2005 voru 1.028.200 en voru 968.900 árið 2004 (6% aukning).  Hlutfallslega var mesta aukningin á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum, en þar fór heildarfjöldi gistinátta úr 77.800 í 93.800 og fjölgaði þar með um 21% milli ára.  Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin 7%, en þar fjölgaði gistinóttum um 46.100, úr 655.400 í 701.500.  Á Austurlandi var fjöldi gistinátta á hótelum árið 2005 svipaður og árið 2004, en fjölgaði þó um 1% milli ára. Á Norðurlandi og Suðurlandi dróst gistináttafjöldinn saman um 2% á hvoru svæði um sig.  Sé litið á einstaka mánuði má sjá að gistinóttum á hótelum fjölgaði alla mánuði ársins 2005, nema í  febrúar en þá fækkaði nóttum um 1% og í mars fækkaði nóttum um 5%.  Mest varð aukningin í janúar, september og desember eða um 13,5% í hverjum mánuði fyrir sig. 32% fjölgun á 5 árum Ef tölur ársins 2005 eru bornar saman við árið 2001 sést að fjöldi gistinátta á hótelum hefur aukist um 32% á þessum 5 árum.  Á þessu tímabili fjölgaði gistinóttum í öllum landshlutum, en þó einna mest á Suðurlandi en þar varð aukningin 75%.  Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum varð aukningin 38%, Norðurlandi 36%, höfuðborgarsvæðinu 30% og  á Austurlandi 5%. Athygli skal vakin á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.  Tölur fyrir 2005 eru bráðabirgðatölur. Gistinóttum í desember fjölgaði um 13%Gistinætur á hótelum í desember árið 2005 voru 42.300 en voru 37.400 í sama mánuði árið 2004 (13,3% aukning).  Gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mest á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem gistinætur fóru úr 3.000 í 3.700 milli ára (20%).  Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin 14%, en gistináttafjöldinn fór úr 29.500 í 33.800.  Á Suðurlandi fóru gistinæturnar úr 2.400 í 2.600 sem er aukning um 8%.  Gistinóttum á hótelum fækkaði á Norðurlandi um 3% og á Austurlandi um 2%. Fjölgun gistinátta á hótelum í desember árið 2005 er bæði vegna Íslendinga og útlendinga. Talnaefni á vef Hagstofunnar
Lesa meira

12% fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll í janúar

Rúmlega 96 þúsund farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í janúarmánuði síðastliðnum, samkvæmt tölum frá flugvellinum. Þetta er 12,4% fjölgun farþega á milli ára, það er miðað við janúar í fyrra. Farþegar á leið frá landinu voru 42.751  í janúar síðastliðnum, fjölgaði um 14% á milli ára. Á leið til landsins voru 38.258 farþegar og fjölgaði þeim um 13,3% miðað við janúar í fyrra. Áfram- og skiptifarþegar (transit) voru rúmlega 15 þúsund og fækkar aðeins. Nánari skiptingu má sjá í meðfylgjandi töflu. Jan. 06 YTD Jan.05 YTD Mán. % breyting YTD% breyting Héðan: 42.751 42.751 37.503 37.503 13,99% 13,99% Hingað: 38.258 38.258 31.028 31.028 23,30% 23,30% Áfram: 1.475 1.475 2.237 2.237 -34,06% -34,06% Skipti. 13.667 13.667 14.765 14.768 -7,44% -7,46% 96.151 96.151 85.533 85.536 12,41% 12,41%
Lesa meira

Skíðasvæðið í Tindastóli nýtur vaxandi vinsælda

Vaxandi aðsókn hefur verið að skíðasvæði Skagfirðinga í Tindastóli í vetur. Á dögunum var það líka ásamt fleiri skíðasvæðum kynnt á skíðadegi sem Skíðasamband Íslands stóð fyrir í Kringlunni. Jakob Frímann Þorsteinsson, forstöðumaður upplýsingamiðstöðvar Norðurlands vestra í Varmahlíð, segir að fólk sem komið hafi á skíði í Tindastóli sé yfir höfuð ánægt með svæðið og mat þeirra sem til þekkja sé að svæðið eigi góða möguleika á að vaxa. ?Við fengum einnig ýmsar gagnalegar ábendingar frá fólki sem kom í heimsókn á skíðadeginum í Kringlunni. Meðal annars að við þyrftum að kynna betur hve stutt svæðið er frá Reykjavík, þ.e. kynna leiðina um Þverárfjall, og einnig standa betur saman að móttöku gesta okkar, m.a. varðandi opnun sundlauga o.fl. Veturinn hefur hingað til verið góður skíðavetur, hér sem og víðar á landinu. Áhugi á íþróttinni er vaxandi enda er skíðaiðkun góð fyrir alla fjölskylduna þar sem sál og líkami endurnærist í heilnæmu fjallalofti,? segir Jakob Frímann. Í lok janúar hafði svæðið samtals verið opið í 41 dag og um 2000 gestir komið á skíði. Óvenju mikið var t.d. opið fyrir áramótin í Tindasóli og í raun er fátítt að skíðasvæði séu yfir höfuð opin fyrir jól.  Að jafnaði er opið fimm daga vikunnar, þ.e. þriðjudaga, miðvikudaga,  föstudaga, laugardaga og sunnudaga og til stendur að lengja opnunina í febrúar. Ef um hópa er að ræða þá segir Jakob Frímann hægt að hafa lengur opið sé þess er óskað.
Lesa meira

Framkvæmdastjórar ráðnir til Selaseturs og Grettistaks

Líkt og annars staðar er undirbúningur fyrir sumarið í fullum gangi hjá ferðaþjónustuaðilum í Húnaþingi vestra. Meðal annars hafa verið ráðnir framkvæmdastjórar til að stýra tveimur verkefnum sem eru í hraðri uppbyggingu, Selasetri Íslands og Grettistaki. Þetta kemur fram í frétt á vefnum www.northwest.is Í gamla VSP-húsinu á Hvammstanga er verið að innrétta sýningaraðstöðu og skrifstofu forstöðukonu Selaseturs Íslands, sem hefur störf nú um mánaðamótin. Í starfið var ráðin Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir. Hún hefur B.Sc próf frá Raunvísindadeild Háskóla Íslands og fjallaði lokaverkefnið hennar um menningarminjar og ferðaþjónustu á Vatnsnesi. Stefnt er að því að opna sýningu Selasetursins þann 25. júní í sumar. Einnig er búið að ráða framkvæmdastjóra Grettistaks og Grettisbóls. Hann heitir Jón  Óskar Pétursson og er að ljúka námi sínu við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Mun hann hefja störfum með vorinu. Grettisverkefnið er umfangsmikið, en næsti áfangi er opnun leikvangs á Laugarbakka, í anda Grettis sögu sterka, sem og gestamóttöku. Hönnuður Grettistaks og Grettisbóls er Jón Hámundur Marínósson. Eftir hann liggur fyrir hönnunarskýrsla, og verður farið eftir henni við uppbyggingu svæðisins. Á vegum Ferðamálafélags Vestur-Húnavatnssýslu er verið að undirbúa endurútgáfu svæðisbæklings fyrir Húnavatnssýslurnar, í samstarfi við ferðamálafulltrúa Austur-Húnavatnssýslu. Undanfarin ár var sameiginlegur bæklingur í umferð, sem mæltist mjög vel fyrir. Gengið er út frá því að nýi bæklingurinn verði tilbúinn til dreifingar í maí nk. Síðast en ekki síst er kraftur í ferðaþjónustuaðilum héraðsins. Náttúruskoðunar- og skemmtibáturinn Áki mun hefja siglingar með sumrinu á sínu öðru starfsári, þá í tengslum við væntanlegt Selasetur Íslands. Þá réðust eigendur Gauksmýrar í byggingarframkvæmdir á staðnum sl. haust. Gistirýmið eykst um 18 herbergi með baði og verður viðbótin opnuð 1. júní. Mynd: Frá Grettishátíð sem haldin var á vegum Grettistaks sl. sumar.  
Lesa meira

Skipting framlaga árið 2006 til landshluta- og landamæraupplýsingamiðstöðva

Skipting framlaga til landshluta- og landamæramiðstöðva fyrir árið 2006 liggur nú fyrir. Framlögin koma að hluta af fjárlögum af fjárlagalið sem fellur undir Ferðamálastofu og að hluta frá samgönguráðuneytinu. Styrkir þessir eru til rekstrar landshlutamiðstöðva sem ætlað er til að styrkja stoðir miðstöðvanna til þróunar faglegra vinnubragða og menntunar starfsfólks. Í listanum hér að neðan kemur fram hvernig framlögunum verður skipt á milli landshluta- og landamærastöðva. Greitt er eftir undirritun samnings með skilyrðum um meðal annars gæði, fagleg atriði og opnunartíma og að fengnum þeim gögnum sem krafist er af Ferðamálastofu í samningnum, þ.e. ársreikningi ársins 2005 og rekstraráætlun fyrir árið 2006: Upplýsingamiðstöðin í Reykjanesbær 2.5 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin í Reykjavík  4.0 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin í Borgarnes 2.5 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin á Ísafirði 2.5 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin í Varmahlíð 2.5 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin á Akureyri 3.0 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin á Egilsstöðum  2.5 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin á Seyðisfirði  1.5 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin á Höfn 1.0 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin í Hveragerði  2.5 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin í Flugstöð Leifs Eiríks. 2.5 millj. kr. Mynd: Upplýsingamiðstöðin í Varmahlíð.
Lesa meira

Námstefnan "Ferðaþjónusta fyrir alla"

24. febrúar næstkomandi standa samgönguráðuneytið, Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa og Öryrkjabandalagið fyrir námstefnu sem ber yfirskriftina "Ferðaþjónusta fyrir alla".  Námstefnan verður haldin á Hótel Sögu og stefndur frá kl. 13:00-17:00. Um er að ræða verkefni sem að Nordiska Handikappspolitiska Rådet hefur stýrt fyrir þá sem starfa í greinni og einnig þá sem að bera ábyrgð á ferðamálum innan stjórnsýslunnar.  Markmið ráðsins er að hugtakið verði að mikilvægum þætti innan ferðaþjónustu og atvinnulífs bæði á norrænum vettvangi og innan hvers lands. "Ferðaþjónusta fyrir alla" snýst um að allir, óháð hvaða fötlun þeir búa við, geti ferðast þangað sem þeir óska. "Ferðaþjónusta fyrir alla" á því við allt sem snertir ferðamennsku, allt frá ferðum og flutningum, heimsóknum á áhugaverða staði, að deila upplifun, mat og húsnæði auk upplýsinga á hentugu formi. Markmiðið er að hvetja þá er starfa í og við ferðaþjónustuna til að líta á aðgengi sem eðlilegt gæðaviðmið. Jafnframt er vonast til þess að þeir sem starfa að ferðamálum, hið opinbera og samtök fatlaðra, fái tækifæri til að skiptast á skoðunum. Þá er einnig vonast til þess að ferðaþjónustan sjái hag sinn í því að hafa aðgengi sem hluta af markaðssetningu og upplýsingagjöf um norræna staði og draga þannig til sín fleiri viðskiptavini utan Norðurlanda auk þess sem allir norrænir ferðamenn, án mismununar vegna fötlunar, geti ferðast að vild innan Norðurlandanna. Meðal ræðumanna verður þýskur hagfræðingur, Dr. Peter Neumann. Dr. Neumann hefur á vegum þýskra yfirvalda gert úttekt á efnahagslegri þýðingu þess að allir hafi jafna möguleika til ferðalaga. Þess utan verður fjallað um ferðaþjónustu fyrir alla frá sjónarmiði Nordiska Handikappspolitiska Rådet auk þess sem nokkrir íslenskir ræðumenn, bæði ferðamenn og bjóðendur þjónustu, segja frá. Ekki þarf að tilkynna þátttöku. Smellið hér til að skoða dagskrá námstefnunnar.  
Lesa meira

40 ára afmælisupplyfting á Hótel Höfn

Nú standa yfir miklar framkvæmdir á Hótel Höfn en þar er nú verið að setja utan á hótelið ál og keramik flísar. Einnig er verið að skipta um alla glugga í hótelinu og setja á það nýtt þak. Verkið var boðið út í haust og voru það þrír aðilar sem buðu í framkvæmdina, var það Kristján Ragnarsson sem fékk verkið, en hann er búinn að vera með annan fótinn hér á Höfn í ýmsum framkvæmdum, m.a. setti þakið á Nýheima. Til liðs við sig hefur Kristján fengið heimamenn til að vinna verkið að mestu leiti og er stórsmiðurinn Birgir Árnason þar í fararbroddi. Að sögn Óðins Eymundssonar eins eiganda Hótels Hafnar eru þessar framkvæmdir 40 ára afmælisupplyfting á Hótelinu en það á 40 ára afmæli á þessu ári. Óðinn segir að auk framkvæmda utan á hótelinu þá sé einnig verið að gera miklar endurbætur á herbergjum, skipta um innréttingar, leggja parket og setja upp þráðlausan internetaðgang fyrir gesti á Hótelinu. Á Hótel Höfn vinna um 26 manns yfir sumartímann en 14 yfir vetrarmánuðina, búast má við að fleiri munu starfa við hótelið yfir komandi vetrarmánuðum þar sem mikil aukning er á gistingu yfir það tímabil.Reiknað er með verkslokum í byrjun maí sem er tímanlegt áður en sumarvertíðin hefst hjá hótelinu segir Óðinn að lokum.  
Lesa meira

Framkvæmdir hafnar við Bláa Lónið

Framkvæmdir eru hafnar Bláa Lónið-Heilsulind en um er að ræða stækkun og endurhönnun á búnings- og baðaðstöðu lónsins þar sem gert er ráð fyrir að gestir fái aukið rými. Alls verður húsnæðið stækkað um 300 fermetra, eða tvöfaldað frá því sem nú er. Þá verða gerðar breytingar á núverandi veitingasal og nýr og glæsilegur 250 manna salur tekinn í notkun auk þess sem verslun og aðstaða starfsmanna verður stóraukin. Gestir Heilsulindarinnar munu ekki verða áþreifanlega varir við breytingarnar um sinn. Framkvæmdirnar fara nú að mestu fram bakvið núverandi húsnæði, en þó hefur innisundlauginni og Hellinum vinsæla verið lokað um stundarsakir. Áætluð verklok eru vorið 2007 og er áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar 800 milljónir.  
Lesa meira

Food and Fun hátíðin haldin í fimmta sinn

Matar- og skemmtihátíðin "Food and Fun " verður haldin á Íslandi í fimmta sinn dagana 22.-26. febrúar næstkomandi. Hátíðin er haldin í samstarfi Icelandair, Reykjavíkurborgar og fleiri aðila og er á sama tíma og vetrarhátíð sem borgin stendur fyrir. Borgarstjórahjón Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna, þau Dianne og Anthony A. Williams, verða heiðursgestir hátíðarinnar. Samstarfsaðili "Food and Fun" hátíðiarinnar er m.a. Iceland Naturally, sem er sameiginlegur kynningarvettvangur íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja í Bandaríkjunum og vistað hjá skrifstofu Ferðamálastofu í Bandaríkjunum. Fyrirtækin innan þess samstarfs eru Icelandair, Icelandic® USA, íslenskur landbúnaður, Iceland Seafood, Iceland Spring Natural Water, Flugstöð Leifs Eirikssonar, 66 Norður og Bláa lónið. Með hátíðinni er stefnt að því að kynna gæði íslenskra matvæla og veitingamennsku á nýstárlegan hátt, svipað og íslensk tónlist hefur verið kynnt með Iceland Airwaves tónlistarhátíð Icelandair sem haldin er árlega. Undanfarin ár hefur "Food and Fun" hátíðin vakið mikla athygli erlendis og er nú gert ráð fyrir tugum erlendra fréttamanna til að fylgjast með hátíðinni. Heimskunnir matreiðslumeistarar á veitingahúsum borgarinnarVeitingahús borgarinnar og matreiðslumeistarar þeirra verða í aðalhlutverki þessa daga. Heimskunnir matreiðslumeistarar frá Bandaríkjunum og Evrópu munu koma sér fyrir í eldhúsum nokkurra bestu veitingahúsa höfuðborgarinnar og elda með íslenskum starfsbræðrum sælkeramáltíðir fyrir gesti þá daga sem hátíðin stendur yfir. Veitingastaðirnir eru Apótek, Einar Ben, 3 Frakkar, Hótel Holt, Grillið, La Primavera, Perlan, Sjávarkjallarinn, Siggi Hall á Óðinsvéum og Vox. Alþjóðleg matreiðslukeppni í HafnarhúsinuMeðal atriði á hátíðinni er alþjóðleg matreiðslukeppni sem fram fer í Hafnarhúsinu á laugardaginn 25. febrúar og hefst kl. 13. Þar hafa meistarakokka hátíðarinnar þrjár klukkustundir til að útbúa ýmsa rétti  sem síðan eru lagðir í mat dómnefndar. Almenningi er frjálst að koma og fylgjast með og hefur keppnin einmit dregið að sér fjölda fólks undanfarin ár. Hátíðinni lýkur með Gala kvöldverði á Nordica hótelinu laugardagskvöldið 25. febrúar. Vefsíða Food and Fun  
Lesa meira