Fréttir

Gistinóttum á hótelum í janúar fjölgaði um tæp 13% milli ára

Gistinætur á hótelum í janúar síðastliðnum voru 40.600 en voru 36.000 í sama mánuði árið 2005, sem er 13% aukning.  Þetta kemur fram í frétt frá Hagstofunni sem annast gistináttatalningar og birti niðurstöður fyrir janúar í dag. Gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mest á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem gistinætur fóru úr 2.500 í 4.500 milli ára (80%).  Á Norðurlandi fjölgaði gistinóttum um 600, úr 1.100 í 1.700 (50% aukning).  Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin 8,5%, en gistináttafjöldinn fór úr 28.900 í 31.300.  Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um rúm 3%.  Samdráttur varð á Suðurlandi, en þar fór gistináttafjöldinn úr 2.500 í 2.000 milli ára (-17%).  Fjölgun gistinátta á hótelum í janúar árið 2006 var bæði vegna Íslendinga og útlendinga.  Fjöldi hótela sem opin voru í janúar síðastliðnum voru 64 talsins, en þau voru 66 í janúar á síðasta ári.  Samdráttur á framboði gistirýmis í janúar á sér eingöngu stað á Suðurlandi en þar voru opin 11 hótel miðað við 13 árið 2005.   Hagstofan vekur athygli á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.  Tölur fyrir 2005 og 2006 eru bráðabirgðatölur.
Lesa meira

Sérstök áhersla á markaðsrannsóknir hjá Ferðamálaráði Evrópu á árinu 2006

Nú í ár eru liðin 20 ár síðan Ferðamálaráð Evrópu (ETC) stofnaði til sérstaks vinnuhóps um markaðsrannsóknir. Í tilefni af því er ákveðið að leggja sérstaka áherslu á markaðsrannsóknir og kannanir ETC á árinu. Innan ETC eru 34 þjóðir í Evrópu og ljóst að ýmsar kannanir og rannsóknir á fjarmörkuðum væru ekki framkvæmanlegar fyrir minni þjóðirnar ef ekki kæmi til þessa samstarfs. Meðal þeirra verkefna sem unnin verða á árinu á vegum ETC eru:Markaðsrannsóknir á Kínverska og Rússneska markaðinum með tilliti til ferðalaga til Evrópu; Handbók um aðferðir við rafræna markaðssetningu; Úttekt á framlögum til ferðamála í meðlimalöndunum ETC; ?Market Updates? á 8 fjarmörkuðum, þar með talin Bandaríkin, Kanada og Indland. Ísland hefur verið aðili að ETC í rúmlega 30 ár og notið þess með aðild sinni að taka þátt í og móta þær rannsóknir og kannanir sem farið er í á markaðssvæðunum. ?Þetta samstarf, sem er bæði á sviði markaðssetningar á fjarmörkuðum svo og í þessum rannsóknum og könnunum auk annars, er okkur mjög mikilvægt þar sem við gætum aldrei vegna kostnaðar staðið ein að slíkum verkefnum,? segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri. Hann hefur tekið þátt í starfi ETC sl 14 ár og sat í framkvæmdastjórn þar í sex ár. ?Upplýsingar og niðurstöður kannana og rannsókna er forsenda árangurs í nútímamarkaðsvinnu, segir Magnús? Hann bætir við að það sé mjög mikilvægt að greinin nýti sér þessa vinnu í markaðsvinnu sinni en allar niðurstöður eru aðgengilegar á vefnum www.etc-corporate.org
Lesa meira

Gengið frá stofnanasamningum við SFR

Skrifað var í dag undir nýjan stofnanasamning milli Ferðamálastofu og SFR, en eins og kunnugt er þá var gert ráð fyrir því í síðustu kjarasamningum að gerðir yrðu nýir stofnanasamningar við allar ríkisstofnanir sem ættu að taka gildi 1 maí 2006. Svo ánægjulega vill til að Ferðamálastofan er önnur ríkisstofnana til að ganga frá sínum málum við SFR. Að sögn Magnúsar Oddsonar Ferðamálastjóra þá gengu samningar vel fyrir sig enda mættu aðilar vel undirbúnir til leiks. Auk Magnúsar sat Elías Bj. Gíslason forstöðumaður í samninganefnd fyrir hönd Ferðamálastofu og Elín Svava Ingvarsdóttir og Sigrún Hlín Sigurðardóttir fyrirhönd starfsmanna sem starfa samkvæmt samningum SFR. Þær stöllur nutu fulltingis Sverris Jónssonar hagfræðings SFR við samningagerðina.  Enn á eftir að ganga frá samningum á milli Ferðamálastofu og aðildarfélaga i BHM. Til fróðleiks þá má geta þess að Ferðamálastofa gerir stofnanasamninga við ein sex stéttarfélög.  
Lesa meira