Fréttir

Starfsfólk Ferðamálaráðs létt á fæti

Starfsfólk upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálaráðs Íslands, sem staðsett er á Akureyri, tók alþjóðlegan baráttudag verkalýðsins af fullri alvöru og fjölmennti í árlegt 1. maí hlaup þar í bæ. Hlaupið var sannarlega tekið af fullri alvöru og heilir 10 km lagðir að baki. Án efa er leitun að vinnustað með hærra hlutfall starfsfólks meðal þátttakenda en fjórir af fimm starfsmönnum upplýsinga- og þróunarsviðs hlupu kílómetrana 10, léttir á fæti. Ekki var þó stokkið af stað í þennan viðburð að óathuguðu máli því æft hafði verið af kostgæfni vikurnar fyrir hlaupið undir öruggri stjórn Elíasar Bj. Gíslasonar forstöðumanns. Sú vinna skilaði ríkulegri ávöxtun því allir náðu að bæta tíma sína í 10 km hlaupi verulega. Þess má einnig geta að hlaupaáhuginn smitaði út frá sér og starfsmenn fleiri stofnana í Strandgötu 29, þar sem skrifstofa Ferðamálaráðs er til húsa, tóku þátt í hlaupinu. Mynd: Starfsfólk upplýsinga- og þróunarsviðs ánægt að hlaupi loknu. Talið frá vinstri: Valur Þór Hilmarsson umhverfisfulltrúi, Halldór Arinbjarnarson vefstjóri og Elías Bj. Gíslason forstöðumaður, sem halda á Öldu Þrastardóttur verkefnisstjóra á milli sín. (Allt í lagi - við viðurkennum að bikarinn er svona smá plat.)  
Lesa meira