Aðkoma sveitarfélaga

Mikilvægi aðkomu sveitarfélaga að DMP áætlanagerð

DMP áætlanir eru ekki lögbundnar og verða sveitarfélög þannig ekki krafin um þátttöku né skuldbindingu. Hins vegar er von Ferðamálastofu og Stjórnstöðvar ferðamála að sveitarfélög sem einir mikilvægustu hagaðilar ferðaþjónustu um landið, sjái hag sinn í virkri þátttöku í áætlanagerðinni t.d. með vinnuframlagi til vinnuhópa og í einhverjum tilvikum svæðisráða, á hverju svæði. Áætlunargerð án þátttöku sveitarfélaganna yrði alltaf veikari en með þeim. Sannarlega öðlast áætlanirnar svo mun meira gildi ef sveitarfélögin standa þétt á bak við þær að áætlanagerð lokinni, en eins og áður sagði er ekki gerð krafa um það á þessu stigi.

Ótvíræður árangur náðst

Ýmis verkefni hafa verið unnin hér á landi á undanförnum árum sem sýna svo ekki verður um villst hvaða árangur slík áætlunargerð hefur skilað svæðum t.d. hvað varðar stefnumörkun og skipulagsvinnu í kringum ferðaþjónustu. Á fundum viðkomandi svæða síðasta haust með eigendum verkefnanna kom fram að markviss áætlanagerð og sterk samvinna hefðu hefðu haft í fjör með sér töluverða aukningu á styrkjum frá ríkinu til ferðaþjónustutengdra verkefna á viðkomandi svæðum, þá m.a. í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Útfærslan í höndum hvers svæðis

Í sumum tilvikum var áætlunargerðin hluti af formlegri svæðisskipulagsgerð og var á þann hátt gefið aukið vægi innan hefðbundinna skipulagsferla. Í öðrum tilvikum kom ígildi DMP áætlunar fyrst sem síðan varð svo hvati til að viðkomandi sveitarfélög hófu sameiginlega svæðisskipulagsvinnu til að festa áætlunina í sessi. Í þeirri vinnu sem nú fer fram gætu þar að auki einhver svæði kosið að skrifa undir sameiginlega samstarfsyfirlýsingu eða viljayfirlýsingu hagaðila um framkvæmd fyrirliggjandi DMP áætlunar óháð lögbundnum skipulagsferlum. Allt er þetta útfærsluatriði sem hvert og eitt svæði tekur ákvörðun um.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?