Fundir og ráðstefnur um stafræn mál

auglýsingIcelandTravelTech - Expo and Summit

Þann 10. maí 2019 munu Ferðamálastofa og Íslenski ferðakalsinn standa fyrir tækniráðstefnu og sýningu í Hörpu undir nafninu IcelandTravelTech - Expo and Summit. Er þetta fyrsti viðburðurinn af þessu tagi hérlendis sem sérstaklega er tileinkaður ferðaþjónustu.

Sýningin er hugsuð sem stefnumót ferðaþjónustufyrirtækja við fyrirtæki sem bjóða uppá tæknilausnir í ferðaþjónustu og þarna munu tæknifyrirtæki af öllu tagi hafa vettvang til að sýna hvað þau hafa að bjóða ferðaþjónustunni. Hér er um einstakt tækifæri að ræða til tengslamyndunar og að hitta ferðaskrifstofur, bókunarfyrirtæki og aðra sem starfa innan greinarinnar.

Skráning fyrir sýnendur:
Tæknifyrirtækjum er boðið uppá að fá bás á sýningunni til að kynna sig og þjónustu sína allt, frá 1 m2 og uppí 20 m2. Ef fyrirtæki hafa áhuga á stærra sýningasvæði þá þarf að hafa samband við arni@icelandtourism.is. Verð fyrir fermetra er 27.000kr m/vsk.

Skráning fyrir gesti:

Einnig er búið að opna fyrir skráningar einstaklinga/fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér starfsemi tæknifyrirtækja eða hlusta á áhugaverð erindi sem í boði verða. Aðgangur fyrir gesti verður 3.900 kr.


IcelandTravelTech - Stafræn framtíð ferðaþjónustu

Hvað græði ég á tækni? Hvernig aukum við arðsemi með nýsköpun? Hvað getur ferðaþjónusta lært af Kísildalnum? Getur tæknin einfaldað líf þitt? Hvaða tækifæri felast í aukinni upplýsingatækni fyrir ferðaþjónustu? Þessum spurningum var leitast við að svara á ráðstefnu 29. nóvember 2018 sem skipulögð var af þróunarhópi nýsköpunar og tækni hjá Ferðaklasanum í samstarfi við Ferðamálastofu.

Á ráðstefnunni deildu þau Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Travelade, Soffía Kristín Þórðardóttir, forstöðumaður ferðalausna hjá Origo Ísland og Arnar Laufdal Ólafsson, framkvæmdastjóri Kaptio, reynslu sinni og þekkingu. Sjö tæknifyrirtækjum í ferðaþjónustu voru síðan með tveggja mínútna örkynningu á þjónustu sinni eða vöru.

Að loknum örerindum settust Andri, Soffía, Arnar, Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir frá Reykjavik Excursions / Kynnisferdir og Hjalti Baldursson framkvæmdastjóri hjá Bókun í pallborð. Ráðherra ferðamála, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ávarpaði einni ráðstefnuna sem fram fór í höfuðstöðvum Arion Banka.

Upptökur frá ráðstefnunni


Tækifæri ferðaþjónustunnar í stafrænum heimi

Þann 2. maí 2018 stóð Ferðamálastofa í samstarfi við Íslenska ferðaklasann fyrir morgunfundi um stöðu ferðaþjónustunnar í stafrænum heimi. 

Með fundinum vildu Ferðamálastofa og Íslenski ferðaklasinn leggja sitt að mörkum til að vekja umræðu og gera íslenska ferðaþjónustu meðvitaða um þær öru tæknibreytingar sem eru að verða í heimi ferðaþjónustunnar. Þar koma m.a. við sögu síaukin samþætting snjalltækja við daglegt líf okkar, kröfur um hraðari þjónustu og betra aðgengi að upplýsingum.

Meðal fyrirlesara á fundinum var Bandaríkjamaðurinn Doug Lansky. Hann er vinsæll höfundur ferðabóka, ásamt því að vera eftirsóttur alþjóðlegur fyrirlesari og ráðgjafi í ferðamálum. Doug hefur ferðast um heiminn mörg undanfarin ár og greint frá upplifunum sínum með gamansömum hætti í blaða- og tímaritsgreinum undir nafninu Vagabond, sem birst hafa í ýmsum blöðum sem margir kannast eflaust við.

Upptökur frá ráðstefnunni