Almennt um NATA

NATA logoFerðamálasamstarf Íslands, Færeyja og Grænlands hefur staðið um árabil og var ný skipan þess ákveðin í lok árs 2006. Með North Atlantic Tourism Association, NATA, var stofnaður nýr vettvangur á gömlum grunni til að móta sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir Vestur-Norðurlönd og styrkja ýmis verkefni sem efla ferðaþjónustu innan svæðisins. Í NATA sameinast starfsemi Vestnorræna ferðamálaráðsins (VNTB), sem öll löndin eiga aðild að, og markmið ferðamálasamninganna SAMIK og FITUR, sem í gildi hafa verið frá árinu 1995 við Grænland og Færeyjar. Nafnið hefur alþjóðlega skírskotun og einnig er haft í huga að samstarfið geti náð til fleiri nágranna við Norður-Atlantshafið í framtíðinni.


Nýr samningur 2011

Í lok desember 2010 var undirritaður nýr samningur. Megináherslan í samningnum er sem fyrr áhersla á eflingu ferðaþjónustu í löndum þremur en stefnubreyting er fólgin í því að styrkja skuli fremur ferðalög á milli landanna þriggja en að kynna þau úti í heimi sem eina heild.

Þess vegna er hluta af samningsfénu ætlað að styrkja ferðir skólahópa á milli landanna til að auka samstarf skóla og bæta þekkingu á löndunum hjá ungu fólki. Tilgangurinn er einnig að styrkja samgöngur á milli landanna, ferðaþjónustu utan sumartímans og að skólasamstarfið nái til sem flestra svæða í löndunum.

Gert er ráð fyrir að 25% af samningsfénu nýtist til að styrkja skólasamstarf eða annað samstarf sem eflir innbyrðis kynni í löndunum þremur.

Í samstarfinu er lögð áhersla á að fjölga kaupendum og alþjóðlegum fjölmiðlum á Vestnorden ferðakaupstefnunni sem löndin skiptast á að halda.

Samingurinn í heild

Tveir Íslendingar sitja í stjórn ferðamálasamstarfs Íslands, Grænlands og Færeyja auk tveggja fulltrúa frá hvoru hinna landanna. Fulltrúar Íslands eru:

  • Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður gæða- og þróunarsviðs Ferðamálastofu og núverandi formaður NATA
  • Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu